27.10.1934
Neðri deild: 21. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1784 í B-deild Alþingistíðinda. (2354)

47. mál, síldarverksmiðjan á Raufarhöfn

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Það má vel vera, að það sé „teoretiskt“ rétt hjá hv. þm. V.-Húnv., að þær síldarverksmiðjur, sem þegar eru til geti tekið á móti allri þeirri síld, sem aflast eða líklegt er að aflist. En þetta er erfitt í framkvæmd, eins og það ber ljósastan vottinn um, að þrátt fyrir hinar stóru verksmiðjur á Siglufirði hefir verið ákvarðað að reisa nýja verksmiðju við Húnaflóa, og margt bendir til þess, að ekki sé síður þörf á að reisa slíka verksmiðju austan við Siglufjörð.

Það hefir komið í ljós við þessar umr., að andstæðingar frv. eru ekki á einu máli um afstöðu eiganda verksmiðjunnar á Raufarhöfn. Hv. 3. þm. Reykv. sagði, að engin ástæða væri til þess að ætla, að eigandinn hætti við verksmiðjurekstur, en hv. þm. A.-Húnv. taldi öll rök hníga að því, að eigandinn vildi losna við verksmiðjuna. Sannleikurinn mun vera sá, að eigandinn vill selja verksmiðjuna fyrir það verð, sem hann telur, að hann geti verið ánægður með. En við, sem erum í nefndinni, höfum einmitt lagt áherzlu á það, að heimildin verði ekki notuð eingöngu til að verða eiganda verksmiðjunnar til geðs, og að stjórnin aðgæti vel, hvers virði eignirnar eru, áður en hún kaupir þær.

Að því er snertir aðstöðuna gagnvart Norðmönnum, er enginn vafi á því, að praktískara er, að verksmiðjan sé í höndum íslenzka ríkisins en norsks manns, eins og nú er. Þess er getið í grg. frv., að norsk skip, sem nú leggja þar síld upp til bræðslu, fá forréttindi, enda hefir verksmiðjan hingað til aðallega skipt við norsk skip.