23.11.1934
Sameinað þing: 12. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 78 í B-deild Alþingistíðinda. (239)

1. mál, fjárlög 1935

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) [óyfirl.]:

Ég ætla ekki að eyða mínum ræðutíma í að kroppa í það, sem eftir er af hv. 10. landsk. þm., eftir að forsrh. hefir gert honum þessi skil. En ég get þó, ekki komizt hjá því að benda á það, sem mér virtist vera undarlegast í ræðu þessa hv. þm. Að öðru leytinu vítir hann stj. harðlega fyrir það, hve hún sé ákaflega smátæk á fjárveitingar til bænda. Það væri svo sem einhver munur með hann og blessaðan Bændafl. Þeir ætluðu ekki að klípa við neglur sér framlög til hagsbóta fyrir bændur. Á hinn bóginn veitir hann svo stj. ákúrur fyrir það, hve hún sé örlát á fé til verkamanna og þeirra, sem í kaupstöðunum búa; segir, að stj. hafi svo sem nóg fé til atvinnubóta og til að leggja fram til sundhallarinnar. Hvað fyrir hv. þm. vakir með slíkum fullyrðingum sem þessum, er augljóst. Það er ekkert annað en að reyna að ala á ríg og tortryggni á milli þeirra, sem búa við svipaðan hag, og sumir eru búsettir í sveif, en aðrir við sjó. Þetta er einhver allra leiðinlegasti þátturinn í íslenzku stjórnmálalífi, sem er því miður ekki nýr, því að hans hefir orðið vart hjá samherjum þessa hv. þm., sjálfstæðismönnum, og hjá samflokksmönnum hv. þm. Af þeim, sem hæst hafa talað í Sjálfstfl., hefir verið reynt að lauma inn hjá fólki þeirri hugmynd, að hagsmunir þessara stétta rekist á, og að dylja það, að hagsmunir þeirra stétta hljóti að fara saman. Kenningin um, að hagsmunir þeirra stétta rekist á, er hin hættulegasta villukenning, sem hægt er að bera fram í stjórnmálum, hvort heldur er hér á landi eða annarsstaðar.

Vil ég svo víkja nokkrum orðum að bandamanni hv. 10. landsk., hv. þm. G.-K. Um ræðu hv. þm. G.-K. vil ég segja það, að ég hefi aldrei heyrt slíka eldhúsræðu fyrr á æfi minni. Sumpart tók hann í streng með hv. 10. landsk. og lét í veðri vaka, að það, sem stj. hefir nú gert, og mér skilst, að hann áliti vel gert, það hefði stj. gert fyrir atbeina og forsjá Sjálfstfl., t. d. að setja bráðabirgðal. um kjötsöluna og mjólkursöluna. Öllu betri viðurkenningu er ekki hægt fyrir stj. að fá fyrir því, að eitthvert verk sé vel gert, heldur en þá, að andstöðuflokkar hæli sér af því á eldhúsdegi, að þeir hafi ætlað sér að gera hið sama, ef þeir hefðu náð völdum, og hafi átt þátt í upptökum málsins. Það er óvanalegt á eldhúsdegi, að andstæðingar stj. reyni að hnupla frá henni því, að hafa átt upptök þeirra mála, sem hún reynir að koma fram.

En annað atriði er þó enn eftirtektarverðara, sem fram kom í ræðu hv. þm., og mér finnst að stj. ætti að vera honum þakklát fyrir að hafa dregið svo rækilega fram, a. m. k. er ég sem atvmrh. honum þakklátur fyrir það. Hv. þm. lýsti því með sterkum orðum, hversu högum atvinnuveganna væri nú háttað. Ég skal taka undir það, að ég er hv. þm. fyllilega sammála um, að ástandið sé slæmt í þessu efni.

Hv þm. talaði um, að sjávarútvegurinn væri illa kominn. Hann talaði einnig um, og það réttilega, að hagur bænda sé sá, að þrátt fyrir þá miklu hjálp, sem talið er, að þeim hafi verið veitt með kreppulöggjöfinni, og þær býsna miklu fórnir ríkissjóðs vegna þeirrar löggjafar, þá sé ákaflega dimmt fram undan, a. m. k. í bili, um rekstrarafkomu þessa annars aðalatvinnuvegar þjóðarinnar.

En aðalatriðið í hans ræðu var viðkomandi því máli, sem hann telur sig bæran um að dæma, ástandinu í sjávarútvegsmálum okkar og sölu á sjávarafurðunum. Þó að hann viðurkenndi, að ástandið væri ófagurt á ýmsum sviðum atvinnulífsins, þá komst hann að þeirri niðurstöðu, að ástandið væri þó hvergi ófegurra en einmitt þar. Hann sagði, sem sennilega er rétt, að ef dæma mætti eftir skýrslu mþn. í sjávarútvegsmálum, þá væri nú svo komið hag sjávarútvegsins, að nærri liggi, að standist á skuldir hans og eignir, ef tekið er tillit til útgerðarinnar yfirleitt. Við þetta bætir hann svo réttilega, að útlitið með rekstrarmöguleika sjávarútvegsins sé ekki glæsilegt, og að h. u. b. þriðji hluti af fiskframleiðslu okkar, miðað við framleiðslu undanfarinna ára, verði óseljanlegur, a. m. k. í þeim löndum, þar sem við höfum selt okkar saltfisk.

Ég get sagt það sem atvmrh., að ég get verið þessum hv. andstæðingi stj. þakklátur mjög fyrir það, að hann eyddi tíma sínum hér í kvöld til þess að sýna þjóðinni fram á, hvílíkir geypiörðugleikar það eru, sem mættu ríkisstj. strax er hún tók við völdum, nú fyrir h. u. b. 4½ mánuði. Ég fagna því, að þjóðin gerir sér þetta ljóst. Það sér hver heilvita maður, að ekki er hægt að ásaka núv. stj. um það, hvernig komið er í okkar sjávarútvegsmálum. Þar eiga einhverjir aðrir sök á, ef um sök er að ræða í því sambandi. Það er því engan veginn eldhúsumræðnaefni gagnvart þeirri stj., sem nú situr, hvernig ástandið er í þessu efni. En stj. fær aftur á móti það hlutskipti, að mæta örðugleikunum og gera það, sem hún telur rétt, til þess að þjóðin geti staðizt þá raun, sem núv. ástandi hlýtur að fylgja. Ti1 þess þarf giftu, ef vel á að lánast.

En svo þakklátur sem ég er hv. þm. fyrir að hafa bent áheyrendum á þetta, get ég þó ekki neitað því, að mig furðar nokkuð á þessu, sérstaklega ef um eldhúsbragð eða keim var að ræða að ræðu hv. þm. þá mátti það ekki á annan veg skilja en þann, að hann vildi gera eldhúsdag að þeim mönnum, sem allt að þessum degi eru hinir eiginlegu stjórnendur stórútgerðarinnar og fisksölunnar í landinu. Ef um sök er að ræða viðvíkjandi því, hvernig ástand sjávarútvegsins er nú hér hjá okkur, sem ég fullyrði ekki að sé, þá ber vitanlega hvergi að leita að henni annarsstaðar en hjá þessum mönnum, sem farið hafa með saltfiskverkun og útflutning fiskjar og hafa ráðið yfir stærsta útgerðarflota landsins.

En hvaða menn eru það?

Það eru flokksmenn þessa hv. þm., og þar á meðal hann sjálfur. Og hvenær sem hann talar um þessi mál hér á þingi, þá talar hann með svo miklum þekkingargorgeir, sem ég hefi ekki annarsstaðar kynnzt. Þessi maður stendur hér upp fund eftir fund og segir: Það er ég, sem hefi þekkinguna. Það erum við, sem höfum stjórnað þessum málum. Við einir getum bjargað þeim. Það erum við, sem höfum leitt fiskverzlunina í það ástand, sem hún er nú i. Hv. þm. sagði að vísu ekki niðurlagið af þessu, en svona er það. Ég skal ekki miklu við þær eldhúsræður bæta. Þó get ég ekki látið vera að taka undir þetta hjá honum.

Öllum er það vitanlegt, að þeir, sem stjórnað hafa útgerðarmálum hér, hafa yfirleitt rekið útgerðina þannig, að það, sem þeir hafa fyrst og fremst hugsað um, og mér liggur við að segja eingöngu hugsað um, hefir verið að veiða sem allra, allra mest af fiski, næstum án tillits til þess, hvað það hefir kostað og án nokkurs tillits til þess, hvort hægt væri að verka fiskinn svo, að hann yrði gerður að fjölbreyttari og betri markaðsvöru. Það hefir verið lögð mest áherzla á það að ryðja sem mestu af fiski á land, til þess svo að verka hann með sömu aðferð til sölu í sömu löndunum ár eftir ár, án þess að leita að nýjum markaði fyrir fiskinn. Við höfum fengizt við fiskiveiðar og fiskverzlun frá því að nokkuð fór að kveða að atvinnulífi hjá okkur. Um saltfiskverzlunina höfum við bundið okkur við viss lönd, sem eru Spánn, Ítalía og Portúgal. Sá fiskur, sem þangað er seldur, þarf að vera verkaður með nokkuð vissum ákveðnum hætti. Einnig höfum við selt nokkuð af ísfiski til Englands og Þýzkalands.

Þegar greitt er um alla sölu afurða, þá hefir þetta ekki reynzt háskalegt, að hafa markaðssviðið fyrir saltfiskinn ekki meira en þetta. En hvenær sem viðskiptahömlur eru teknar upp þar, þá er þetta mesti voði, sem hægt er að hugsa sér, t. d. ef þessi lönd færu að skammta okkur innflutninginn. Þá höfum við ekki neina þekkingu eða reynslu um það að flytja út öðruvísi verkaðan fisk eða til annara markaðslanda. Einmitt í þessu hefir glapræðið verið mest hjá stjórnendum stórútgerðarinnar og saltfiskverzlunarinnar í landinu. Það er einmitt þessi skammsýni, sem nú er að koma okkur í koll og sem skapar okkur þá geysimiklu örðugleika, sem hv. þm. talaði svo mjög um. Það er vitanlegt, að það eru tugir milljóna manna, sem borða fisk annarsstaðar en á Spáni, Ítalíu og í Portúgal. En stjórnendum fisksölunnar hjá okkur hefir ekki hugsazt að ná samböndum við þá. Ef litið er til Norðmanna, þá sjáum við, að þeir hafa ekki verið svo óvitrir, að þeir hafi selt allan sinn fisk á svo takmörkuðu markaðssvæði.

Þegar þetta er athugað, sem ég hefi sagt, þá er skiljanlegt, að hv. þm. G.-K. og samflokksmönnum hans finnist þeir verða að reka af sér slyðruorðið og sýna fram á, hvað gera beri, eins og nú er komið. Enda snerist mikill hluti ræðu hv. þm. um það. En einkennilegt þótti mér þó niðurlag ræðu hans. Mér skildist á honum, að hann teldi sig og flokk sinn hafa forgöngu í þessu máli og öll ráðin um það, hvernig það yrði afgr. Mér skildist hann telja víst, að frv. stj. yrðu samþ., en að þeir hefðu bara forgöngu í málinu.

Ég ætla að víkja að frv. um skuldaskilasjóð og fiskiráð. Verð ég þá fyrst að leiðrétta missögn hjá hv. þm. Hann sagði, að stj. og meðflokksmenn hennar í sjútvn. hefðu neitað að flytja þessi frv. Hann kvað mikla andstöðu hafa komið fram gegn frv. hjá stj.flokkunum, þó að e. t. v. tækist fyrir viturlegar fortölur Sjálfstfl. að telja þeim hughvarf. Hér er rangt frá skýrt. Þessi frv. eru samin af mþn. í sjútv.málum. Ég fékk þau ekki í hendur fyrr en 10 dögum eftir þingbyrjun. Þá var ekki tilbúið nál. mþn. í sjútv.málum og ekki búið að prenta skýrslu hennar. Ég ræddi þessi frv. með flokksmönnum mínum. 27. okt. óskaði ég eftir fundi með sjútvn. þessarar hv. d., og voru þar lögð fram þessi tvö frv., ásamt einu litlu frv. frá mþn. Í gerðabók sjútvn. Nd. hefir verið bókað eftirfarandi:

„Ráðherrann óskaði þess getið, að frv. þessi væru öll samin af mþn. í sjútv.málum, sem hefði óskað eftir því, að sjútvn. Nd. fengi þau til athugunar nú þegar, þó að nál. og heildarskýrslur hennar væru eigi enn fullprentuð. Þar sem ríkisstj. hefði eigi borizt frv. þessi fyrr en nokkru eftir þingbyrjun, hefði ríkisstj. ekki getað haft hliðsjón af þeim við samningu frv. til fjárl. og tekjuaukal. og treystist því eigi til að óska eftir því, að frv. verði samþ. á þessu þingi, nema jafnframt séu gerðar ráðstafanir til þess að mæta þeim útgjöldum og tekjumissi fyrir ríkissjóð, sem leiða myndi af samþykkt tveggja hinna fyrrtöldu frv. Hinsvegar óskar ríkisstj. þess, að sjútvn. taki frv. til athugunar og tekjuöflunarmöguleika í sambandi við þau, og jafnframt, að hún rannsaki sérstaklega, þegar fyrir liggur heildarskýrsla milliþingan., hvort eigi sé unnt að gera þegar á þessu þingi ráðstafanir til þess að hjálpa einhverjum hluta útgerðarinnar til að fá samninga um skuldaskil, þótt eigi þætti fært að gera slíkar ráðstafanir fyrir alla útgerð, stærri sem smærri, að svo stöddu.“ . . . .

Nú mega allir áheyrendur dæma um það, hvort stj. er á móti þessum frv. Þarna stendur greinilega, að það sé ósk stj. til sjútvn., að hún athugi, hvort ekki sé hægt að létta undir með smáútgerðinni þegar á þessu þingi, þó að ekki sé hægt að stofna til skuldaskila fyrir alla útgerð, smærri og stærri, nú þegar.

Mþn. þeirri, sem starfað hefir að þessu, láðist að athuga, hvernig afla skyldi þess fjár, er óhjákvæmilegt er til að mæta þessum útgjöldum, og hefir hún líklega ekki talið það sitt hlutverk. En þessi útgjöld myndu nema einni millj. kr. á ári úr ríkissjóði. Sjá allir, að þýðingarlaust er að samþ. lagafrv., hversu fallegt sem það kann að vera ásýndum, ef ekki eru jafnframt gerðar ráðstafanir til að mæta þeim útgjöldum, er af því leiðir.

Ég vil geta þess, að þótt mikið sé unnið með því að létta skuldabyrðinni af útgerðarmönnum, létta af þeim vöxtum og tryggja það, að þeir séu ekki sviptir atvinnutekjum sínum, þá er ekki þar með leystur allur vandi útgerðarinnar. Eftir skýrslu mþn. sjálfrar virðast töp útgerðarinnar á tíma þeim, er skýrslan nær yfir, liggja milli 8 og 20% af brúttótekjum hennar. Setjum svo, að meðalhallinn hafi verið 12—l4%, en einhver hefir haldið því fram, að það muni vera sá raunverulegi halli á rekstri útgerðarinnar. En af þessu eru þó ekki meira en 4% vextir af öllu, sem útgerðin her. Svo að þó að allir vextir væru strikaðir út eða skuldirnar hefðu staðið vaxtalausar þann tíma, sem skýrslan nær yfir, þá væri samt halli á útgerðinni, er næmi a. m. k. 8% af heildartekjum hennar. Það er ekki nóg að gera bú upp á ákveðinni stundu, ef ekki er séð fyrir því, að reksturinn geti borið sig síðar. Ég tel því ekki rétt, að ríkissjóður bindi svo getu sína með því að kaupa mönnum skuldaskil, að hann sé ófær um að tryggja reksturinn í framtíðinni. Hinsvegar tel ég óhjákvæmilegt að gera ráðstafanir til að létta vaxandi skuldabyrðum af nokkrum hluta útgerðarinnar, með því að hjálpa henni til að ná samningum um greiðslur. En ég held ekki, að nauðsyn beri til að gera þetta fyrir alla útgerðina, enda yrði það ríkissjóði um megn. Sé ég svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þessi bjargráð sjálfstæðismanna.

Þá er hitt frv. hv. þm. G.-K., frv. um fiskiráð, sem átti að leysa allan vanda útflutnings og fisksölu. Ég skal ekki hafa mörg orð um þetta frv., enda er það ekki mikið fyrirferðar, og innihaldið þó sízt meira en fyrirferðin. Aftur er grg. mikil að vöxtum, og er þar að vísu margt skynsamlega sagt. En till. frv. eru þannig, að þótt þetta ráð hefði verið sett á stofn, þá hefði það skort allt vald til að geta orðið að nokkru gagni. Það átti aðeins að veita þeim ráðleggingar, sem svo þykjast reyndir og vitrir, að þeir þurfi ekki ráðlegginga við. Og ef einhver vildi ekki þiggja þessar ráðleggingar, heldur vildi verka og selja fiskinn eftir sínum geðþótta, þá myndi ráðið ekkert vald hafa haft til að setja honum stólinn fyrir dyrnar. Gæti sá maður gert hinn versta óskunda.

Hv. sjútvn. hefir hinsvegar að tilhlutun minni flutt annað frv. um þetta efni. Að því leyti er ég ber skynbragð á þessi mál, er þar reynt að skapa ákveðinn ramma, sem skipulagningunni er ætlað að fylla út, eftir því sem bezt hentar. Þar er ætlazt til stofnunar, er hafi vald til að skipa málunum, ef það sýnir sig, að hin frjálsa samkeppni er ekki fær um það. Og hún hefir sýnt, að hún er ekki fær um þetta.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir ákveðnum stofnunum, er vinni ákveðin störf, en frv. hv. þm. G.-K. er ekkert annað en frómar hugleiðingar um það, hvað sé gott og hvað ekki.

Þá vil ég víkja að máli því, sem hér er á dagskrá, fjárlfrv. fyrir 1935. Það á að vera umr.efnið í kvöld.

Það er nú svo, að fá frv. valda meiri átökum innan þings en fjárlagafrv. Fá frv. marka flokkalínurnar jafnskýrt við afgreiðsluna eins og fjárlfrv. og tekjuöflunarfrv. í sambandi við það. Það er ofur-eðlilegt. Þá er um það tvennt deilt, hversu mikils fjár afla beri til opinberra þarfa, og hitt, hvernig eigi að verja því fé. Mætti segja, að um það væri deilt, hver eigi að borga brúsann og hver eigi hinsvegar að njóta þess fjár, sem aflað er. Verður því um þau mál mikill reipdráttur flokka í milli, því að flokkaskiptingin grundvallast einmitt á misjöfnu viðhorfi til hinna ýmsu stétta. Þar verður að taka fullt tillit til þess, hvort einni stétt sé íþyngt í annarar hag eða ekki. Þá er samning fjárl. mikið vandaverk og óvinsælt, og er þetta verk sérstaklega erfitt, þegar ástatt er eins og nú, þegar atvinnuleysi er mikið og vaxandi, þegar vandræði steðja að fátækum verkalýð og hungruðum embættismönnum, þegar landbúnaður og sjávarútvegur eru í hinum mestu kröggum. Þá er erfitt að semja fjárl., sem hvergi koma óþægilega við kaunin. Það liggur í augum uppi, að þegar viðskiptaveltan er svo mikil, að útflutningurinn nemur 60—70 millj. kr. og innflutningurinn svipaðri upphæð, þá er auðveldara að ná inn 14 millj. kr. en þegar útflutningurinn fer niður í 30—40 millj. og innflutningurinn er eitthvað lægri. Þessum örðugleikum varð stj. að mæta. Var þá um tvær leiðir að velja. Önnur var sú, að halda, eins og tök voru á, óbreyttum þeim tekjustofnum, sem ríkissjóður hefir nú. Það hefði þýtt, að óhjákvæmilegt hefði verið að draga úr verklegum framkvæmdum og eins tillögum til menningarmála. Hin leiðin var sú, að auka framlögin til verklegra framkvæmda, heilbrigðismála og menningarmála og lækka nokkra þá tolla, er ranglátast komu niður. En væri þessi leið valin, þá var óhjákvæmilegt, að fundnar yrðu nýjar tekjuöflunarleiðir.

Ríkisstj. kom sér niður á að hallast á þessa sveifina, einmitt vegna atvinnuleysisins og erfiðleika atvinnuveganna. Vegna atvinnuleysisins taldi stj. það skyldu sína að auka framlög til verklegra framkvæmda, í því skyni að bæta úr atvinnuleysinu. Eru því fjárl. samin með tilliti til þessa. Hinsvegar var stj. ljóst, að óhjákvæmilegt væri að fella niður nokkra tolla, t. d. kaffi- og sykurtoll, sem lagður var á í fyrra og nemur yfir 200 þús. kr. árlega. Ennfremur þótti henni rétt að lækka útflutningsgjald af síld á móts við það, sem er um aðrar sjávarafurðir, en það var svo hátt, 1 kr. á tunnuna, að engu tali tók. Síðasta sumar var verð síldartunnunnar 5 kr. Ráðningarkjör voru þannig á flestum skipum, að skipshöfnin átti 1/3 af síldarverðinu, eða 1,66 af tunnunni, og þetta átti að skiptast milli 18 manna. Á sama tíma lét ríkissjóður sér sæma að taka 2/3 af því, sem allir skipverjar fengu. Þetta var svo gegndarlaus rangsleitni, að mig undrar, ef nokkur telur vanþörf á að bæta hér úr. Auk þess að útflutningsgjaldið lækkar niður í það, sem tekið er af öðrum sjávarafurðum, hefir verið ákveðið að endurgreiða sjómönnum 12 þús. kr. Hefir það frv. þegar fengið staðfestingu konungs og er orðið að lögum. Er mér ánægja að geta þessa. Aðrar tollalækkanir eru í því fólgnar t. d. að lækka útflutningsgjald af landbúnaðarafurðum, og nemur sú lækkun 40 þús. kr. samkv. áætlun hæstv. fjmrh.

Ég skal svo gera grein fyrir því, hver sé svipur þess fjárlfrv., sem ríkisstj. hefir nú lagt fyrir þingið. Skal ég þá jafnframt gera grein fyrir, hverjar brtt. meiri hl. fjvn. flytur við frv. í samráði við stj. Tek ég þá fyrst 12. gr., heilbrigðismál:

Í gildandi fjárl. eru veittar til þessara mála 655 þús. kr., en í frv. er gert ráð fyrir 705 þús. Er það 50 þús. kr. hækkun.

Í 2. lagi er í frv. gert ráð fyrir 2411000 kr. til samgangna á sjó og landi, vitamála o. þ. h., í stað 2146000 kr. í gildandi fjárl. Þar er hækkunin, með 160 þús. kr. viðbótinni frá fjvn., 425 þús. kr.

Til kennslumála er veitt: 1460000 kr. Hækkun: 156 þús., með viðbótinni frá fjvn.

Þá er 16. gr., verklegar framkvæmdir. Nú er veitt til þeirra 1719000, en í frv. 2563000. Hækkunin er 844 þús. kr.

Til almennrar styrktarstarfsemi er í gildandi fjárl. veitt 918 þús. kr., en í frv. er gert ráð fyrir 1057000 kr. Hækkunin er þar 139 þús. kr.

Ég skal geta þess, að þetta sýnir ekki glögga mynd af atvinnuaukningu þeirri, sem af þessu leiðir. Ég skal sundurliða það:

Til síma er í frv. stj. veitt ... 350. þús.,

Í gildandi fjárl. ................ 305 —

Hækkun ........................ 45 —

Til læknabústaða og sjúkraskýla er í frv.

stj. gert ráð fyrir 10 þús. kr. styrk, en fjvn.

vill hækka þetta um 13500 kr.

Til vega eru í frv. veittar 1201000 kr. Þar er

hækkunin 253 þús. kr., og með 58 þús. kr. viðbót fjvn. nemur hækkunin 311 þús. kr.

Til vita og hafna er veitt í þessum fjárl.:

Til hafnargerða .................. 68 þús. kr.

— bryggjugerða ................. 15 — —

— öldubrjóts ................... 50 — —

Ýmislegt ........................ 40 — —

Vitar ................. 76 — —

Samtals 249 þús. kr.

Áður voru veittar í þessu skyni 198 þús. kr.,

og nemur hækkunin því 51 þús. kr., og samkv.

till. meiri hl. fjvn. er þetta hækkað um

52500 kr.

Til skóla og prestssetra er veitt í þessum

fjárl.:

Prestssetur. ...................... 24 þús. kr.

Barnaskólar. .................... 35 — —

Eiðaskóli ....................... 50 — —

Héraðsskólar. .................... 5 — —

Gagnfræðaskólar. ................ 30 — —

Hallormsstaðaskóli .............. 5 — —

Sundlaugar. ........... 5 — —

Samtals 154 þús. kr.

Áður voru veittar í þessu skyni 49 þús., og

nemur hækkunin því 95 þús., og samkv. till.

meiri hl. fjvn. er þetta hækkað um 36 þús. kr.

Til verklegra framkvæmda er veitt í þessum

fjárl.:

Atvinnubætur. .................. 500 þús. kr.

Sandgræðsla. ............. 30 — —

Jarðræktarstyrkur . . . . . . . . 475 — —

Landnámssjóður. ................ 300 — —

Verkamannabústaðir ........... 180 — —

Skóggræðsla ........... 8 — —

Samtals 1493 þús. kr.

Áður var veitt í þessu skyni 1 millj. og 8 þús. kr. og nemur hækkunin því 485 þús. kr.

Hækkunin til hreinna atvinnubóta verður því samkv. því, sem ég nú hefi talið, 939 þús. kr., og þar við bætist, ef till. meiri hl. fjvn. verða samþ., 160 þús. kr., og verður það samtals 1 millj. 99 þús. kr. Verður þá framlagið til verklegra framkvæmda 3 millj. 467 þús., að viðbættum 160 þús. kr., ef till. meiri hl. fjvn. verða samþ.

Nokkuð af þessu fé er lagt fram með því skilyrði, að hlutaðeigandi aðilar leggi fram á móti 1 millj. 736 þús. kr. Alls verður því varið til verklegra framkvæmda, ef fjárl. verða samþ., 5 millj. 363 þús. kr., og er það meira en nokkru sinni áður hefir verið gert ráð fyrir í fjárl. að verja til verklegra framkvæmda, enda hefir þörfin aldrei verið meiri til þess að tryggja það, að menn gangi ekki auðum höndum, heldur sé þeim gert kleift að vinna fyrir sér og sínum og skapa um leið verðmæti fyrir þjóðarheildina. Verður þetta að teljast nauðsynlegra heldur en að verja 400 þús. kr. til þess að halda atvinnulausum mönnum í skefjum. Það verður að álítast heppilegra að verja fé til þess að skapa varanleg verðmæti heldur en að borga ríkislögreglu fyrir að gera ekki neitt.

Ef athuguð eru nál. meiri og minni hl. fjvn., þá kemur glögglega í ljós stefnumunur sá, sem er á stefnu stjórnarflokkanna og andstæðinga þeirra. Minnihl.mennirnir í fjvn. segjast vera sparnaðarmenn. En hvað vilja þeir spara? Þeir vilja lækka framlagið til nýrra símalína um 35 þús. kr., fella niður styrk til sjúkrahússbyggingar á Reyðarfirði, lækka framlagið til strandferða um 80 þús. kr., fella niður allt, sem lagt er fram til skólabygginga, lækka framlag til atvinnubóta um 200 þús. kr., til Byggingar- og landnámssjóðs um 100 þús. kr. og til verkamannabústaða um 100 þús. kr. Þetta eru nú þeirra till. Þær hníga allar í þá átt að spara framlag til verklegra framkvæmda, svo að menn geti ekki notað tímann í atvinnuleysinu til þess að reisa nauðsynlegar byggingar, heldur eiga menn að sitja auðum höndum. Þeir vilja spara fé til atvinnubóta og eiga það á hættu að þurfa að stofna ríkislögreglu fyrir helmingi meira fé. Þeir hafa ekki hreyft við framlagi til vega, og er mér ekki grunlaust um, að það stafi af því, að þeir eiga kjósendur í kjördæmum, þar sem veitt er til vega, og myndi það verða illa séð, ef vegarspottar þar væru numdir í burtu. Mér er ekki grunlaust um, að þetta sé ástæðan fyrir því, að vegunum er hlíft.

Ég hefi reynt með þessu að gera hv. áheyrendum grein fyrir því, í hverju stefnubreytingin er fólgin við samningu fjárl. Þörfin er aldrei meiri fyrir hið opinbera að auka verklegar framkvæmdir en þegar atvinnuleysið er sem mest. Og svo er ástatt núna, að hið opinbera verður að skapa atvinnuaukningu, og er sýnd viðleitni í þá átt í þessum fjárl.

Á þinginu 1931 átti ég sæti í fjvn. Þá gerðu sjálfstæðismenn á þingi gys að okkur jafnaðarmönnum fyrir kreppuhjal okkar. En þá var eins og menn muna kreppan að byrja. Á því þingi klofnaði fjvn. um það atriði, sem ég nú hefi verið að drepa á. Í fjárlfrv. stjórnarinnar þá var enginn eyrir ætlaður til verklegra framkvæmda. Þá voru veittar 300 þús. kr. til viðhalds þjóðvega, þó að vegamálastjóri hefði lýst því yfir, að það væri of lítið. En þetta framlag var hækkað síðar í meðferð þingsins. Þetta varð til þess, að ég skilaði sérstöku minnihl.nál. Þar er bent á það, að undanfarin ár hafi verið veitt mikið fé til verklegra framkvæmda, og segir svo í nál: „Hin síðari ár hefir verið lagt svo ríflega fé til verklegra framkvæmda í fjárlögum, að þess eru engin dæmi fyrr. Samt hefir stjórnin tekið sér bessaleyfi og aukið stórkostlega við ýmsar fjárveitingar, í sumum tilfellum um 100% eða meira.

Nú er blaðinu snúið við. Í frv. stjórnarinnar nú er enginn eyrir ætlaður til verklegra framkvæmda, þegar frá eru teknir smávægilegir styrkir til einkasíma, sýsluvega og skólahúsa.

Þetta er megingalli frv. Og um þetta atriði reis sá ágreiningur innan nefndarinnar, er olli því, að hún klofnaði. Meiri hl. taldi ekki fært að breyta þessu og taka upp fjárveitingar til verklegra framkvæmda. Ég tel ekki fært að samþykkja fjárl. án þess, að þessu atriði sé breytt og upp teknar fjárveitingar til verklegra framkvæmda svo um muni.

Ríkisstjórnin er langstærsti atvinnurekandinn á landinu, þótt ekkert tillit sé tekið til embættismanna og annara fastra starfsmanna, en aðeins litið á þann hóp daglaunamanna, sem þar hefir átt sína aðalatvinnu. Auk framlaga til viðhalds vega og annara opinberra mannvirkja hefir ríkissjóður undanfarin ár lagt fram stórfé árlega til nýbygginga vega, síma, vita, hafna, lendingarbóta og allskonar húsabygginga. Hafa upphæðir þessar hlaupið á milljónum hvert síðustu ára. Þúsundir verkamanna um land allt hafa byggt og byggja atvinnuvonir sínar á þessum framkvæmdum. Þúsundir bænda, sjómanna og útvegsmanna byggja vonir sínar um bætt skilyrði til sjálfsbjargar á því, að þessum framkvæmdum verði haldið áfram. Enn vantar vegi, síma og brýr um sveitir landsins til að bæta lífsskilyrði þeirra, sem þær byggja. Enn vantar vita, sjómerki, bryggjur, hafnir og lendingarbætur til þess að tryggja líf og starf sjómanna og fiskimanna. Enn vantar skóla fyrir börn og unglinga. Og atvinnuleysið hangir eins og svipa yfir höfði verkalýðsins, sem engin starfstæki á og vantar kaupanda að vinnu sinni.

Allar þessar vonir þúsunda verkamanna, bænda og sjómanna á nú að drepa með einu höggi. Verði frv. stjórnarinnar samþ., er úti um þær. Meiri hl. nefndarinnar er sama sinnis og stjórnin. Hún afsakar sig með því, að „eins og árferði er nú“ sé ekki fært að veita einn eyri til verklegra framkvæmda.

Ég er á gagnstæðri skoðun. Ég lít svo á, að einmitt vegna þess, að árferði og útlit er eins og það er, sé allsendis ófært að fella niður fjárveitingar til verklegra framkvæmda“.

Ég vík að þessum kafla í nál. til þess að sýna, að átök hafa orðið áður um það atriði, hvort eigi að reyna að reisa rönd við kreppunni með því að draga úr framkvæmdum eða auka þær. Mér er það gleðiefni, að ríkisstj. er öll þeirrar skoðunar, að það eigi eins og gert er ráð fyrir í þessum fjárl. að mæta kreppunni með því að auka framkvæmdir.

Ég minnist þess, að fyrir skömmu sagði einn af helztu forystumönnum Sjálfstfl. í Ed., að það, sem nú þyrfti að gera í þessu landi, væri þetta: „Kaupgetuna verður að takmarka með gætilegri fjármálastjórn hins opinbera og íhaldi bankanna um fjárveitingar“. Hvað þýðir nú þetta á venjulegu máli? Það þýðir það, að kaupið þarf að lækka, svo minna verði eytt, og að bankarnir þurfi að vera tregari við lánveitingar, svo að þeir, sem láta vinna með fé þeirra, hafi minna til eyðslu. Ef nokkur meining er í þessu, þá er hún það, að sjá um, að kaupgetan sé ekki of mikil, með því að lækka kaupið og með íhaldi bankanna um lánveitingar, og í samræmi við þetta er lagt til að lækka framlagið til verklegra framkvæmda. Þetta eru þær leiðir, sem Sjálfstfl. sér til þess að mæta valdi kreppunnar. Þetta eru tvö gerólík sjónarmið, og er í þessu fólginn grundvallarskoðanamunurinn sem er milli sjálfstæðismanna og jafnaðarmanna.

Það er þó eitt atriði í sambandi við þessi ummæli hv. 1. þm. Reykv., sem er þess vert, að því sé gaumur gefinn. Svo að segja samtímis við það, að hann flytur þessar skoðanir á þingi, er útbýtt erindi frá kennurum háskólans, þar sem er á sannfærandi hátt sýnt fram á, að laun þeirra séu ófullnægjandi, og veit ég ekki betur en hv. 1. þm. Reykv. hafi skrifað undir þetta skjal. Hann lítur því auðsjáanlega ekki svo á, að ástæða sé til þess að takmarka kaupgetu þessara manna. Það er því einhver viss hluti þjóðarinnar, sem á að takmarka kaupgetuna hjá. Það er alþýða manna í sveit og við sjó, sem á að lækka kaupgetuna hjá, eða sá hluti þjóðarinnar, sem á tekjur sínar undir eigin handafla. Ég hygg, að það megi fátt betra um ríkisstjórnina segja, ef fundið verður upp á því að ávíta hana fyrir það, að hún hafi orðið til þess að hækka kaupgetuna innanlands.