26.11.1934
Sameinað þing: 13. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 99 í B-deild Alþingistíðinda. (241)

1. mál, fjárlög 1935

Hannes Jónason [óyfirl.]:

Herra forseti! Þetta er í fyrsta sinn, sem ég fæ tækifæri til þess að bregða mér inn í eldhús hæstv. ríkisstj. Finn ég því ástæðu til að gefa áheyrendum mínum nokkurt yfirlit yfir, hvernig um er að litast í þessu langsamlega frægasta eldhúsi landsins. Þegar inn úr dyrunum kemur, mæta manni fyrst píkur tvær, og er auðsjáanlegt, að önnur er húsfreyjan á heimilinu. Báðar eru þær uppskrúfaðar og tilgerðarlegar. En það er líka kokkur í þessu eldhúsi, eins og vera ber, og ef maður lítur á tilbeiðslu- og undirgefnissvipinn á meyjunum, þegar þær líta á kokkinn, þá er auðséð, að hann er sá, sem segir fyrir verkum. Þar er pottur á hlóðum, því slátur er soðið á hverjum degi í þessu eldhúsi úr mestu nytjamálunum, sem á þingi eru flutt. Í rjáfrum uppi hanga sauðarkrof feit og mikil, jólamatur stjórnarliða; er þar hverjum manni merktur sinn biti. Sóðaleg umgengni og subbulegt sýnist mér vera í þessu eldhúsi, en þó er sjáanlegt, að húsfreyjurnar vita, að það er hátíðis- eða tyllidagur nokkur, og hafa þær því slett karklútnum í andlit sér, en ekki tekizt betur en það, að sótið drýpur niður um háls og herðar. En ef nokkuð má marka af yglibrún kokksins, þá hygg ég, að vonir þjóðarinnar eigi ekki betra að vænta í höndum hans heldur en gæsirnar í greipum Grettis forðum daga. Og ekki mun Kengála þeirra framsóknarmanna verða betur fallin til útigangs eftir gæzlu hans heldur en áður.

Nú skal ég snúa mér með örfáum orðum að húsfreyjunni, sem talin er. Hæstv. fors.- og dómsmrh. var hér um daginn að bretta brúnum yfir Bændafl. og talaði um hann sem algerlega dauðan flokk. Það var nú dálítið einkennileg hjá honum líkræðan að vísu, því hún var ekkert annað en bullandi skammir um þennan steindauða flokk. Ég held, að hæstv. ráðh. hafi því verið að tala gegn betri vitund, og svo var ótti hans vegna starfsemi Bændafl. ríkur, að hann sá þann kost vænstan að reyna að gera sig eftir mætti hreinan í augum umbjóðenda sinna, bænda landsins, sem honum þó hefir tekizt mjög ófimlega. Ræða hans var mjög ómerkileg; þar gætti langmest monts og yfirlætis, en rakanna gætti minna. Hann hélt fram, að Bændafl. legði sérstaka áherzlu á að vekja tortryggni manna gegn Tímamönnum. Auðvitað er ómögulegt annað, ef satt og rétt er frá málum skýrt, en að það leiði til tortryggni gagnvart þeim, sem með völdin fara fyrir Framsfl., svo áberandi er vesalmennska þeirra í sambúðinni við sósíalista. Þetta verður einungis skýrt þannig, að þeir hafa látið kúgast, hafa algerlega látið bugast af þeirri miklu orku og starfhæfni, sem hjá sósíalistum er.

Hæstv. ráðh. minntist m. a. á þau málefni, sem áður hafa verið gerð um umræðuefni í útvarpsumr. héðan og snerta afurðasölu bænda. M. a. minntist hann á till. Þorsteins Briems í kjötsölumálinu og till. þeirra Péturs Magnússonar í mjólkursölumálinu. Hann sagði t. d. um till. Þorsteins Briems um að bæta nokkuð upp þann mikla verðmun, sem er á útfluttu kjöti og því, sem selt er á innanlandsmarkaði, að það hefði verið gripið til að bera hana fram í Ed. nokkrum dögum eftir að hann sjálfur hefði bent á nauðsyn slíkra ráðstafana í Nd. Ég minnist þess nú ekki, að hæstv. forsrh. hafi nokkurn tíma ymprað á þessu efni í Nd. En hafi hann einhverntíma gert það, og hafi hann gert það í alvöru og einlægni vegna hagsmuna bænda, hvernig er þá hægt að skilja þá afstöðu hans, að þegar till. kemur fram um að láta þetta vera að veruleika, þá snýst hann og flokkur hans á móti henni og drepur hana? Hæstv. ráðh. hefir gefið skýringuna sjálfur. Af því það var Bændafl., sem bar þetta fram, þá kunni ég ekki við að samþ. það, segir hann. Menn geta nú gert sér í hugarlund, hvernig ástatt er í hugarheimi þessara manna, sem ekki vilja standa með sjálfsögðum málum, sem þeir sjálfir hafa ymprað á, að væru nauðsynleg, bara af því að þau eru fram borin af andstæðingum þeirra. Svona er nú réttlætiskenndin hjá hæstv. forsrh., og er hún í fullu samræmi við margt annað, sem fram hefir komið.

Þá er það og með einsdæmum, hvernig þessi hæstv. landbrh. hefir snúizt gegn einu aðalfélagi bændanna í landinu, Búnaðarfélaginu. Það hefir verið siður allra stjórna að taka Búnaðarfélag Íslands sem ráðunaut í öllum málum, sem landbúnaðinn snerta. Það er þessi hæstv. ráðh. einn, sem hefir gengið á snið við það. Og hann hefir gert meira; hann hefir beinlínis ráðizt á það; hann vill eyðileggja starfsemi þess að öllu leyti. Það er ekki nóg með það, að hann hefir útilokað Búnaðarfélagið frá að taka þátt í framkvæmd þeirra mála, sem mest snerta landbúnaðinn, eins og afurðasölumálin: hann vill einnig taka af því ráðin í öllum öðrum málum, sem hingað til hafa undir það heyrt. Svo hatramleg er þessi árás hæstv. landbrh. á Búnaðarfélagið, að hann gætir ekki hófs. Hann gætir þess ekki, að þó handjárnin á flokksmönnum hans séu sterk, þá er ekki þrautreynt, hvort þau halda á þessu sviði. Og þegar kemur í ljós, að ekki er hægt að gera þann niðurskurð á Búnaðarfélagi Íslands, sem hann ætlaðist til, þá hopar hann að vísu dálítið, en reynir um leið að koma því svo fyrir, að Búnaðarfélagið verði hér eftir háðara ríkisstj. sjálfri heldur en verið hefir, og vill þar með draga það undir valdsvið sitt.

Hæstv. fjmrh. var hér með mikinn gorgeir yfir því, að Bændafl. bæri hér fram hóflausar kröfur vegna bændanna, og nefndi hann nokkrar tölur í því sambandi. Já, við höfum beðið um allháar uppbætur á útflutt kjöt, vegna þess að fyrirsjáanlegt er, að verðjöfnunarsjóður hrekkur hvergi nærri til jöfnunar við verðið á innlenda markaðinum. Upphæðin, sem við förum fram á í þessu skyni, nemur 130—150 þús. kr. Er það nú virkilega svo, að ríkissjóður geti ekki greitt þessa upphæð? Ég verð þá að spyrja hæstv. fjmrh., hvernig stóð á því, að hann gat greitt hlutaruppbót til sjómanna úr ríkissjóði, er nam 120—130 þús. kr., og 100 þús. kr. á síðastl. sumri í óþarfa kauphækkun í opinberri vinnu. Þá voru til peningar í ríkissjóði, en það var af því skjólstæðingar sósíalista áttu hlut að máli. Þegar svo stendur á, er hæstv. fjmrh., fulltrúi framsóknarmanna í ríkisstj., reiðubúinn að greiða fé úr ríkissjóði. Og til samanburðar við það, sem við förum fram á handa landbúnaðinum, skal ég benda á, hvað hæstv. fjmrh. hefir séð sér fært að ætla ríkissjóði að leggja fram á næsta ári til skjólstæðinga sósíalista. Hann hefir séð sér fært að ætla ½ millj. kr. til atvinnubóta, sem krafizt er 1 millj. kr. útgjalda á móti frá bæjarfélögum. Þar koma 1½ millj. kr. til hagsbóta verkamönnum. Á sama tíma sér hæstv. ráðh. sér ekki fært að greiða um 200 þús. kr. í vaxtatillag af veðlánum landbúnaðarins, sem bændur fyrirsjáanlega geta ekki risið undir. Að vísu kom fram í landbn. Nd., eftir að hún hafði haft frv. okkar hv. 2. landsk. til meðferðar hátt á annan mánuð, frv., sem gengur dálítið í þessa sömu átt. En ég vil strax taka það fram, að það er rangt með farið hjá hæstv. forsrh., þegar hann vill eigna stj. þá till., því þegar frv. var lagt fyrir landbn. af þeirri n., sem stj. skipaði í sumar til þess að athuga þessi mál, þá var ekki í því einn stafur um að veita bændum eftirgjöf á vöxtum. Því atriði var bætt inn í við meðferð frv. í landbn. Í 3. kafla frv. er nú gert ráð fyrir allt að 97 þús. kr. greiðslu upp í vexti beint eða óbeint úr ríkissjóði. Þar með hafa þessir menn viðurkennt þörfina á vaxtastyrk til bænda. En til þess að ásaka hæstv. stj. ekki fyrir allt of mikla fórnfýsi í garð bændanna, skal ég geta þess, að meiri hl. stjórnarliðsins í landbn. neitaði harðlega að láta nokkuð af hendi rakna í þessu skyni til bændanna. Hefði því lítið orðið úr þessari till., ef stjórnarflokkarnir einir hefðu átt að ráða. En það voru aðrir menn, sem skildu betur þörfina á þessu, og því er það fram komið sem till. landbn., sem þó gengur allt of skammt. Vona ég, að þessi íhaldssemi stj. og stuðningsmanna hennar verði drepin niður við meðferð málsins.

Eins og ég sagði hefir það sýnt sig, að hæstv. stj. vantar ekki alltaf peninga; það fer bara eftir því, til hvers á að nota þá. Það þarf einnig peninga fyrir feitu sauðarkrofin. Mönnum hefir reiknazt til, að á 2. hundrað manns mundu komast í ný embætti samkv. till. stj., sem hún flytur hér á þingi. Mundi sparast laglegur skildingur, sennilega nægilega mikið upp í vaxtagreiðslur bænda, ef allar þessar óþörfu nefndir væru felldar niður. Ég geri ekki ráð fyrir, að margir vinni fyrir minna en þús. kr., og margir hafa mörg þús., svo sjáanlegt er, að í allt þetta nefndafargan fer svo hundruðum þús. skiptir. Ég hefi heyrt, að ein n. væri búin að ráða sér skrifstofustjóra fyrir 600 kr. á mánuði, og einn af nefndarmönnunum sjálfum til þess að vinna fyrir n. upp á sérstök laun. Sá maður fær þannig fyrst laun fyrir að sitja í n. og síðan önnur laun fyrir að vinna í n. Það er því áreiðanlegt, að það vantar ekki peninga, þegar verið er að úthluta sauðarkrofunum eða hlýða boðum kokksins í eldhúsi stjórnarinnar.

Hæstv. atvmrh. sagði hér um daginn, að það væri háskaleg villukenning, ef ekki væru látnir fara saman hagsmunir þeirra, sem í þorpum og sveitum búa. Hvenær hefir þessi hæstv. ráðh. hugsað um að láta hagsmuni fólks fara saman? Ég hygg, að hann hafi aldrei hugsað um annað en að láta hagsmuni sinna umbjóðenda verða gildandi, hvað sem öðru liði. Hver hefir heyrt um, að hann eða hans flokkur hafi nokkurntíma verið að leggja niður fyrir sér, hvaða kaupgjald atvinnuvegirnir þyldu? Nei, þeir hafa bara gert þær kröfur, sem verkamennirnir hafa viljað gera og þótzt þurfa til þess að geta lifað. En svo þegar bændurnir koma og gera samskonar kröfur um að geta lifað, þá má ekkert gera nema verkamennirnir í bæjunum fái helminginn af öllu, sem fram er lagt. Þetta kemur m. a. fram við meðferð mjólkurmálsins. Það má ekki lækka útsölukostnaðinn á mjólk, nema því, sem sparast, sé skipt á milli framleiðenda og neytenda, án tillits til þess, hvort bændur hafa fengið nokkuð, sem nálgast það að vera framleiðslukostnaður. Þessi hæstv. ráðh. talar ekki um réttlæti, þegar hann er að gera kröfur fyrir sína menn; þá talar hann ekki um, að það sé háskaleg villukenning að líta ekki á hagsmuni annara stétta í landinu jafnframt.

Það er annars nokkuð áberandi á þessu þingi, að það er sama, hvaða mál er flutt fyrir framleiðendur til lands, og raunar sjávar líka, alltaf er hæstv. stj. að reka tærnar í einhverja ímyndaða örðugleika við að koma af stað umbótum á þessu sviði. Fulltrúar framsóknarmanna í stj. eru orðnir svo rígnegldir við þær kröfur frá samstarfsflokki sínum, sem þeir verða að beygja sig undir, að þeir komast hvorki aftur né fram, þegar um hagsmuni bændanna er að ræða.

Eitt af því allra nauðsynlegasta fyrir bændur landsins er að fá skuldum sínum öllum komið á hreinan grundvöll. Að því hefir verið unnið við afgreiðslu kreppulánanna. En það hefir verið viðurkennt bæði á síðasta þingi og þessu, að bændur geta ekki staðið undir þeim fasteignaveðslánum, sem fyrir eru. Er því óhjákvæmilegt og sjálfsagt að rétta í bili hjálparhönd, til þess að þeir geti risið undir skuldaþunganum.

Jafnhliða þessu var svo nauðsynlegt að koma því skipulagi á sölu afurðanna, að bændur fengju framleiðslukostnaðinn greiddan. Því að hvað stoðar það, þótt bændum, sem sokknir eru niður í ófærur í atvinnurekstri sínum upp í axlir, vegna ómögulegrar aðstöðu, sé kippt upp úr svo að þeir séu samt niðri í upp að mitti. Þeir eru þá fastir í sama foraðinu, og það þarf að kippa þeim alveg upp úr, upp á hreinan starfsgrundvöll, ef þeir eiga að geta lifað. Þegar að því kemur, að bændur þurfa að fara að borga vexti og afborganir af þessum tiltölulega hagstæðu lánum, sem mynduð eru með kreppuráðstöfunum, þá mun koma að því, að þeir geta ekki innt þessar greiðslur af höndum. Og hvað tekur þá við? Kreppulánasjóður getur ekki annað en gengið fast að mönnum um að fá greiddar afborganir og vexti af lánunum, því að ef hann gefur einum eftir greiðslur, þá munu aðrir koma og heimta hið sama af sjóðnum. Annaðhvort verður því að ganga fast að öllum um þessar greiðslur, og til þess taka bústofn af bændum, ef greiðslur fást ekki á annan hátt, eða þá að allar skuldir, sem myndaðar hafa verið á þennan hátt, verður að yfirfæra á ríkissjóðinn. En ætli ríkissjóði yrði þá ekki réttara að reyna að gera mönnum kleift að standa undir vaxtagreiðslum af kreppulánunum heldur en að eiga það á hættu, að verða fyrir svo eða svo miklum töpum vegna þess að vextir og afborganir lánanna greiddust ekki?

Ég mun fá tækifæri til þess seinna við þessar umr. að nefna fleira, sem ástæða er til að koma fram með við þessar umr. Læt ég staðar numið að sinni, því að ég hefi nú tekið fram það, sem mestu máli skiptir, en nenni ekki að fara að elta hæstv. forsrh. út á allar þær vafasömu koppagötur, sem hann komst inn á í sinni mjög svo lélegu ræðu hér á dögunum.