26.11.1934
Sameinað þing: 13. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 114 í B-deild Alþingistíðinda. (244)

1. mál, fjárlög 1935

Þorsteinn Briem:

Herra forseti! Hv. þm. G.-K. er ekki viðstaddur, og þess vegna mun ég geyma mér að svara þeim orðum, sem hann beindi til mín, þangað til síðar. Allir þeir, sem lesið hafa dagblöð Sjálfstfl., munu og sjá, að ég fór þar með rétt mál, er ég deildi á hann fyrir framkomu sína í afurðasölumálunum, þó að formaður flokksins væri að reyna að bera í bætifláka fyrir þau. Ég mun ekki svara löngu máli ræðu hæstv. forseta (JBald), heldur geyma mér það þangað til síðar. Ég vil þó mótmæla því, sem hann sagði um það, að ég vildi reka hnífla í sjómannastéttina. Ég greiddi í því máli atkv. með því atriði, sem ég taldi að færi í sanngirnisáttina. En úr því að sjómenn fengu þessa hlutaruppbót, þá átti því síður að setja bændur hjá. Hann sagði, að mér hefði tekizt illa að vinna fyrir bændastéttina. Ekkert þing hefir þó verið stórtækara í því að vinna fyrir bændur en þingið 1933. Eftir þinglokin þá kom til mín einn af elztu þm. að þingsetuárum og sagði, að hann hefði aldrei verið á þingi, sem eins mikið hefði verið gert fyrir bændur og þá var gert. En það, sem gert var fyrir landbúnaðinn á þinginu 1933, það var gert annaðhvort í samráði við mig, eða fyrir mitt frumkvæði. Ég vil því reka til baka þessar órökstuddu árásir í minn garð. Um vegavinnukaupið mun ég tala síðar, því mig vantar gögn í því máli, sem eru nú heima hjá mér, en ég mun sýna síðar í umr. Hæstv. forseti talaði um, að sér væri illa við það, að menn töluðu af „innri sannfæringu“. Hann vill þá víst heldur, að menn tali af „ytri sannfæringu“. Eða standa þeir menn honum nærri, sem bregða yfir sig „sannfæringunni“ eins og einhverjum ytri hjúp?

Hæstv. fjmrh. var að tala um það, að ég hefði fundið að því, að hlutaruppbótin til sjómanna var greidd þannig, að þeir, sem báru beztan hlut frá borði, fengu mest, en hinir sama sem ekkert, er minnst báru úr býtum. Hann deildi á till. mína um verðuppbót til kjötframleiðenda og var að tala um, að þar hefði átt að fara eftir magni kjötsins. Vill þá hæstv. fjmrh., að þeir fái mesta uppbót, sem hafa bezta aðstöðu til mjólkurframleiðslu og standa því betur að vígi en hinir, þótt þeir selji minna kjöt?

Þá kem ég að því mikla nafni, sjálfum hv. forsrh. Það var ekki um að villast, að hann fann til þeirrar tignar, sem hann er nú nýhafinn til, að vera forsætisrh. landsins. En þó að hin skjótfengna sæmd hafi stigið honum til höfuðs, þá hefði hann samt mátt minnast þess, að hárri stöðu hæfir allt eins vel almenn hófstilling í orðum og framkomu eins og þetta ógnarlega mont og mikillæti, sem hann var alveg barmafullur af. A. m. k. hefði hann mátt muna málsháttinn, að fyrr er nú fullt en að það flói svona út af.

Ég þóttist sjálfur hafa talað æsingalaust og stillt orðum í hóf, því að ég ætlaði ekki að egna að fyrra bragði vanstillt skap. Eftir viðeigandi inngang hóf hann máls á því, að þessi flokkur, sem ég til heyri. Bændafl., væri steindauður. En í sömu setningu sagði hann þó, að flokkurinn héldi uppi flokksstarfi. Þetta er nú svo sem minnsta dæmið um röksemdafærsluna og hugsanaganginn, að tala um, að sá starfi, sem er ekki aðeins blátt áfram dauður, heldur steindauður.

En höldum okkur nú samt við þennan nýstárlega hugsanagang og rökvísi forsrh. Hvers vegna eyddi hann þá öllum ræðutíma sínum og öllu sínu púðri á þennan steindauða flokk? Er það ekki einmitt vottur þess, að hann óttast þennan flokk, einmitt mest nú, þegar hann er að þurrka af sér hin gömlu einkenni flokks síns, meðan hann var bændaflokkur, og er að gera hann að ósjálfstæðum fylgiflokki sósíalista, eins og hann var sjálfur ósjálfstæður fylgisveinn sósíalista í bæjarstjórn Reykjavíkur.

Þá reyndi hann að verja þá einu breytingu, sem hann gerði á kjötsölufrv. fyrrv. stjórnar, að bola fulltrúa frá Búnf. burt úr kjötverðlagsnefnd til þess að skoðanabræður sósíalista í þessu máli fengju þar manninum fleira. Hann sannaði þar rækilega, að hann ætlaði ekki ísl. bændastétt hinn sama metnað og hin norska bændastétt hefir, þar sem ekki aðeins allsherjarbún.fél. þeirra, heldur 6 önnur bændafélög kjósa sér fulltrúa til að fara einir og óháðir með kjötsölumálin. Það er auðséð, að hann telur það ofrausn ísl. bændum til handa, að ætla þeim hinn sama rétt og bændur frændþjóðar okkar hafa talið sér sjálfsagðan og gefizt vel.

Hann sagði, að tillaga Bændafl. um að þetta væri lagfært, svo að ísl. bændur fengju nokkuð í áttina til sama réttar og norskir bændur heimtuðu, hefði orðið til að sprengja málið. — Jæja! — Átti þá forsrh. von á kárínu frá foringjum sósíalista, ef bændur fengju meiri rétt? Eða ætluðu þeir að kasta honum út úr stj., ef ekki væri hlýtt þeirra æðri skipan? Mig grunaði reyndar, að þar væri fiskurinn falinn. En þ. e. eigi að síður gott að fá þessar upplýsingar.

Ég skýrði frá því á föstudagskvöldið var, að ég hefði kallað eftir skýrslum útflytjenda á saltkjöti af framleiðslu ársins 1933 til þess að geta greitt verðuppbót til bænda á útflutt kjöt fyrir það ár. En skýrslurnar voru ekki nema örfáar komnar fyrir stjórnarskiptin. Ég ítrekaði þessa auglýsingu í Lögbirt.bl. og ég lét lesa auglýsinguna upp í útvarpinu hvað eftir annað í samfleytt tvo mánuði, til þess að herða á, að þessar skýrslur kæmu sem fyrst. En þær voru samt ekki nærri allar komnar fyrir stj.skiptin.

Til hvers þurfti ég að fá þessar skýrslur? Til hvers lagði ég svona ríka áherzlu á, að skýrslusendingunum væri hraðað? Til hvers gat það verið annars en til þess að geta greitt bændum verðuppbótina skv. skýrslunum? Þetta að ég kalla svo oft eftir skýrslunum, er einmitt yfirlýsing til alþjóðar um þetta. Og var það í samræmi við orð mín, sem ég hafði sagt hér á sjálfu Alþingi um þetta síðastl. vetur.

Og svo brýnir hæstv. forsrh. sína sterku raust á föstudagskvöldið var og spyr: „Hvers vegna lét maðurinn menn ekki vita, að hann ætlaði að greiða verðuppbótina?“ Eftir að ég er búinn að auglýsa þetta margsinnis, bæði í Lögb.bl. og útvarpinu, til staðfestingar orðum mínum á sjálfu Alþingi, þá hrópar hæstv. forsrh. út til alþjóðar: „Hvers vegna lét maðurinn menn ekki vita þetta?“

Ég leyfi mér að spyrja þá, sem hlýða á mál mitt: Er hægt að sýna öllu meiri óskammfeilni og einurð til þess að reyna að rugla menn með blekkingum en hér er gert? En hitt skal ég játa, að getan hefir ekki verið eins mikil og viðleitnin hjá hæstv. forsrh.!

Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir það, að hann ætlar nú loks að greiða verðuppbótina fyrir áramótin. Og er gott að heyra, að háværar kröfur um þetta, m. a. af hendi Bændafl., hafa loks haft þennan árangur.

Það hneykslaði mjög hv. forsrh., að ég hafði sagt það — um leið og ég lagði áherzlu á það gagn, sem orðið hefði af kjötsölalögunum — að að vísu hefði hvort sem er mátt búast við nokkurri verðhækkun síðastl. haust á innlendum markaði móts við árið áður. Ég byggði þetta á því, að í haust fengu kaupfélögin þær upplýsingar í byrjun sláturtíðar, að verð á freðkjöti mundi verða svipað og 1933, en þá höfðu menn brennt sig á því að setja kjötverðið innanlands of lágt í byrjun. Enskt og skozkt dilkakjöt var í hærra verði í sumar í Englandi en árið áður og mátti því ætla, að aðflutt kjöt lækkaði ekki. Hygg ég því, að menn hefðu skv. þeim fréttum sett kjötverðið innanlands hærra en árið áður, vegna þeirra upplýsinga, sem fyrir lágu þá í byrjun sláturtíðar um útlitið á enska markaðinum, þó að það útlit breyttist tilfinnanlega til hins verra þegar leið fram á haustið. Að þetta hafi líka verið álit þeirra, sem þessum málum eru nákunnugastir, má og sjá af því, að verðjöfnunargjaldsheimildin var ekki notuð nema að hlutum skv. kjötsölulögunum. Enginn getur ímyndað sér, að kjötverðlagsnefndin hefði ekki notað verðjöfnunargjaldsheimildina að fullu, ef hún hefði ekki í byrjun sláturtíðar búizt við mun hærra verði en raun varð á. Hún hefði ekki vitandi vits stefnt út í þann voða, sem nú er fyrir dyrum, þar sem enska verðið hefir stórhrapað á freðkjöti, en verðjöfnunarsjóður hrekkur vart til að bæta upp útflutta kjötið, nema um 3—5 aura á kg. í mesta lagi, ef jafnað er niður á kjötið allt. Sýnir þetta, að í byrjun sláturtíðar í haust voru kunnugustu menn bjartsýnir á enska markaðinn. Og er þá sízt fjarri að ætla, að þessi bjartsýni um enska verðið hefði haft hækkandi áhrif á kjötverðið innanlands, hvað sem hefði liðið innlendum ráðstöfunum.

Ég segi þetta ekki til að draga úr gagni og nauðsyn kjötsölulaganna, enda hefði það komið niður á sjálfum mér, þar sem kjötsölulagafrv. var undirbúið fyrir stjórnarskiptin, heldur til þess að benda á, hve hæstv. forsrh. er annaðhvort ókunnugur málinu, eða fljótur að bregða fyrir sig blekkingum, þegar svo býður við að horfa.

Þá var hann að fetta fingur út í það, að ég sagði, að ekki mundi hafa verið ástæða til að setja kjötverðið í sept. síðastl. lægra en árið áður, eins og skýrslur hagtíðindanna sýna svart á hvítu. Ég gat um þetta til þess að sýna, að aðfinnslur tveggja dagblaða Sjálfstæðisfl. þegar í sept. um of hátt verð á kjötinu hefðu verið tilefnislausar, og að ástæðulaust hefði verið að lækka útsöluverðið frá því, sem það var á sama tíma árið áður. Hæstv. ráðh. sagði, að lækkun á sölukostnaði kjötsins hefði fullkomlega bætt bændum þetta upp. En mega þá ekki bændur njóta sjálfir þeirrar lækkunar, sem unnt er að ná í sölukostnaðinum? Veitir þeim af að njóta hennar að fullu, eins og hag þeirra er komið, þar sem búin geta ekki, þrátt fyrir þeirra mikla erfiði, borið sig?

Ég vék að því áðan, hvílíkt verðhrun hefði orðið á freðkjöti á enskum markaði frá því, sem kunnugir menn bjuggust við í byrjun sláturtíðar. Þetta er svo alvarlegt mál fyrir mikinn hluta bænda, að ég kemst ekki hjá því að fara um það nokkrum fleiri orðum. Það er eins og stendur ekki hægt að búast við, að bændur fái úr verðjöfnunarsjóði meira en 3—5 aura á kg. í uppbót á útflutt kjöt. Og kemur þetta tilfinnanlegast niður á þeim bændum, sem urðu fyrir mestum hnekki vegna ótíðarinnar síðastl. sumar. Ég flutti því þá brtt. við kjötsölulögin, að ríkisstj. væri heimilað að greiða þessum bændum aukaverðuppbót úr ríkissjóði, sem þannig yrðu verst úti, til samræmis við kjötverð á innlendum markaði. Hæstv. forsrh. sagði, að hann hefði nú sjálfur verið farinn að íhuga þetta mál áður en till. mín kom fram. Og hann sagðist hafa getið um það í hv. Nd., að hann ætlaði að fela öðrum að íhuga það líka. Þetta er sjálfsagt satt. En mér var það bara ekki kunnugt. Enda á ég, skv. eftirminnilegum úrskurði, sæti í Ed. og get því ekki fylgzt með hverju orði, sem sagt er í báðum deildum. En ég hefi spurzt fyrir um þetta meðal samflokksmanna minna í Nd., og þeir hafa ekki heyrt það. Ég verð því að ætla, að hæstv. ráðh. hafi ekki brýnt eins röddina þegar hann var að tala um þetta í Nd. eins og þegar hann var að kasta til mín skætingi fyrir þessa till., bæði þegar ég bar hana fram í Ed. og á föstudagskvöldið. Eða þá að orð hans um þetta hafi ekki verið svo ákveðin, að eftir þeim væri tekið. Þá hafði það blað hér í bæ, sem annars getur flestra meiri háttar verka ráðherrans, ekki getið um þetta. Verð ég því að telja mér það vansalaust, þótt mér væri ekki kunnugt um þetta.

En hvað sagði þá hæstv. ráðh., þegar hann mælti á móti till. í Ed.? Það heyrði ég. Jú, hann kvaðst ætla að láta rannsaka þetta og íhuga. Og ef ástæða þætti til, þá mætti setja heimild eða fjárveitingu til þess í fjárlög að ári. En bændur fá nú tæplega peninga til hinna óumflýjanlegu fóðurbætiskaupa í haust og annara nauðsynja út á svona lauslegt tal um rannsóknir og íhugun, og um að setja megi heimild til þess í fjárlög að ári. Það væri auðvitað sök sér, ef ráðh. vildi lána bændum síldarmjöl út á þetta lauslega tal sitt. Hæstv. forsrh. sagði og, að það ætti ekki við að setja svona ákvæði í lögum. Eins og heimildir til að greiða eitt og annað úr ríkissjóði, sem óþarfara er, séu ekki oft settar í lög? Það ætti honum sjálfum, sem er lögfræðingur, að vera kunnugt.

Nei, þetta er ekki frambærileg ástæða. Það eru aðeins undanbrögð, En það goppaðist nú reyndar, líklega þó alveg óvart, upp úr hæstv. forsrh., hver væri ástæðan til þess, að hann fékk allt sitt fylgilið yfir til þessara tveggja sjálfstæðismanna í Rvík, sem greiddu atkv. gegn tillögunni. Hann sagði: „Ég kann ekki við að taka við tilllögum frá Bændafl.“. Ég skrifaði orðin hjá mér, svo að þau sæust í þingtíð., ef hann kynni að breyta þeim í handriti skrifaranna, því þetta eru eftirtektarverð orð og einkennandi fyrir þennan hæstv. ráðh. og form. stj. Þau sýna, að hann hefir verið námfús á þá reglu, sem alþm. einn og stjórnmálaleiðtogi vildi kenna nýjum þingm. og samflokksmönnum sínum. Hann sagði, að það væri til mjög auðveld og algild regla fyrir þá, sem vildu vita hið rétta í hverju þingmáli. Og það væri að kynna sér, hvernig tilteknir andstæðingar litu á málið og hvað þeir segðu um það. Ef andstæðingarnir teldu málið gott, þá væri málið vont mál og þá ætti að vera á móti því. En ef einhver andstæðingur teldi eitthvert mál athugavert, þá væri málið áreiðanlega gott og sjálfsagt að vera með því.

Ég sé, að hæstv. forsrh. hefir verið námfús. Ég sé það mér til vonbrigða, að þetta á að vera stjórnar- og þingregla hans, ef svo verður fram haldið sem nú er byrjað. Það á ekki að kynna sér málin sjálf og rannsaka, hvort þau eru nýtileg, það er nóg að sjá, hver flytur þau. Það er sama, hvað mikið nauðsynjamál er flutt af manni úr andstæðingaflokki þá á að hrakyrða það og drepa það þegar í stað. En til hvers er þá verið að halda Alþingi? Eru þá ekki flokksþingin nóg, þegar stjórnin er hvort sem er orðin flokksstj., en ekki landsstjórn? Það er þá þess vegna, að svona var tekið á móti hinni stórnauðsynlegu breyt. á jarðræktarl. og öðrum nauðsynjamálum, sem Bændafl. hefir flutt. Stjórnarflokkarnir sjá, að þau eru þörf og nauðsynleg. En bara af því að andstæðingar flytja þau, þá leggjast þeir á móti þeim. En ég er nú samt á því, að á móti góðu máli verði aldrei spyrnt til lengdar. Og jafnvel stjórnarflokkarnir muni neyðast til að verða þeim fylgjandi um síðir í einhverri mynd. Þeir munu kannske breyta þeim eitthvað og reyna að marka þau undir sitt mark fyrst, til þess að geta þakkað sér þau. En þau munu ganga fram að lokum. Og sjá menn þá, að Bændafl. hefir hlutverk að vinna. Hann hefir það hlutverk, að koma nauðsynjamálunum á framfæri, sem andstöðufl. neyðast til að taka tillit til, þó að þau verði ekki að lögum fyrr en andstöðufl. hafa getað markað þau undir sitt mark og eignað sér heiðurinn.

Þá var hæstv. forsrh. að reyna að verja mjólkurlækkun sína, sem sett var á áður en mjólkurlögin voru að öðru leyti komin til framkvæmda. Og hann bar fyrir sig reikninga, sem hann hefði látið Pál Zóphóníasson gera um einhvern gróða upp á kr. 14093,11, sem bændur fengu fyrir mjólkurlækkunina. Hann nefndi nú ekki, við hvað langan tíma sá gróði væri miðaður, hvort heldur viku, mánuð eða ár.

Ég held, að bændur hér í nánd skilji nú tæplega þessa útreikninga. Og þeim mun finnast þessi gróðinn heldur léttur í buddunni enn. Og ég hefi heyrt, að sumir þeirra telji, að það hefði verið vissara að fá Þóri Guðmundsson, kennara á Hvanneyri, til að endurskoða þessa reikninga, eins og suma útreikninga þessa manns áður, svo sem sjá má í Búnaðarritinu.

Annars get ég upplýst það, að sú lækkun sölu- og dreifingarkostnaðar, sem um er að ræða hér í Rvík, hún var komin á í vor og sumar, áður en mjólkurlögin komu til sögunnar. Mjólkurfél. Rvíkur hafði tekizt, með nýjum samningum, sem hafnir voru síðastl. vor við mjólkurbúðirnar, að lækka sölukostnaðinn sem svarar 1,4 eyri að meðaltali. Þetta gerðist áður en mjólkurverðlagsnefndin var sett á laggirnar. En þegar mjólkurverðlagsnefndin kemur, þá er það hennar fyrsta verk, að taka af framleiðendunum þennan gróða, sem þeir höfðu sjálfir skapað sér, og lækka mjólkina fyllilega sem þessu svarar, þannig að neytendurnir fengju hann allan, en bændurnir ekkert af honum. Þeir urðu auk þess að tapa 0,6 eyri af hverjum lítra. Og svo er enn, þar til einhver sparnaður kemst á vegna laganna. Þetta er hægt að sanna skjallega, ef krafizt verður.

Annars getur hver bóndi reiknað það sjálfur, hvað hann tapar á hverjum eyri, sem mjólkin lækkar. Bóndi, sem selur daglega t. d. 50 lítra af mjólk, tapar 50 aur. á dag, eða rúmum 180 kr. á ári fyrir hverja 1 eyris lækkun. Þetta eru peningar, sem bóndann munar um.

En þessir 50 lítrar dreifast á mörg heimili hér í Rvík, segjum 20 smáheimili, er hvert kaupir 2½ lítra á dag. Eins eyris lækkun munar þá hvert þeirra 2½ eyri daglega, eða 75 aura á mánuði hverjum. Það munar m. ö. o. ekki eins kaffibolla virði, ef hann er keyptur á kaffihúsunum, sem hér eru full kvöld eftir kvöld.

Eins eða tveggja aura lækkun á mjólkinni segir því ekki mikið fyrir hverja fjölskyldu hér í Rvík. En hún munar bónda, sem selur 30 lítra á dag, 180 kr. á ári fyrir hverja eins eyris lækkun. En nú er hér um 2 aura lækkun að ræða, og munar þetta þá 360 kr. á ári. Hér er því um lækkun að ræða, sem dregur neytandann engu, en munar framleiðandann því, að hann missir af möguleikanum til þess að geta greitt vexti af 6 þúsundum með 6% vöxtum.

Svo segir hann, að Bændafl. hafi ráðizt á mjólkurlögin sjálf, vegna þess að hann hefir átalið þessa óréttmætu mjólkurlækkun. Bændafl. hefir eindregið fylgt mjólkurlögunum. En hann hefir átalið svona framkvæmd á lögunum, áður en þau eru farin að gera bændum nokkurt gagn að öðru leyti.

Hæstv. forsrh. sagði, að ljótasta greinin, sem komið hefði um þetta mál, væri greinin „Eignarnám“ í blaðinu Framsókn. Ég skal nú lesa, með leyfi hæstv. forseta, nokkur orð úr þessari grein til að sýna þetta. Í greininni er talað um grein, sem þá var nýbirt í Alþýðublaðinu um mjólkurmálin, og í blaði Bændafl. segir svo m. a. um þessa grein Alþýðublaðsins: „Einn hinn nýkjörni þm. Alþfl., Sigurður Einarsson, krefst þess þar, að eignarnámið á afurðum bændanna, sem hann ber ábyrgð á og tekur þátt í, það eigi að nota til að knýja fram stórfellda lækkun á annari aðalframleiðsluvöru bændanna — mjólkinni. Hann kveður upp þann dóm, að verðið á hverjum mjólkurlítra eigi nú þegar að lækka um 4 aura, og um áramótin næstum 7 aura.

Og Alþýðublaðið hefir í fullum hótunum um að láta sérfræðinga leggja ráðin á, hvernig draga megi úr mjólkurnotkun, til þess að hægt sé að knýja fram verðlækkun. Þetta er sami aðilinn, sem tekur afurðirnar eignarnámi af bændum. Þessar fráleitu kröfur ber Alþýðublaðið fram sömu dagana og fregnir berast um verðhækkun á öðrum matvörum. Þá á að taka vörur bændanna eignarnámi til að kúga niður á þeim verðið. Daginn eftir syngur Morgunblaðið sama sönginn.

Allir munu fylgjast gaumgæfilega með því, hver verða úrslit þessa máls. Allir, sem unna landbúnaði Íslands og meta gildi hans fyrir þjóðina, óska þess af alhug, að takast megi að ákveða bændum fullt og réttlátt verð fyrir afurðir þeirra. Þess verður að krefjast af ríkisstj., að hún hafi manndóm til að standa gegn hinum frekjulegu kröfum og ofsa Alþfl. og búi tryggilega um, að bændur fái greitt sannvirði framleiðslu sinnar“.

Þetta kallar forsrh. það allra ljótasta, sem sagt hafi verið um afurðasöluna. M. ö. o. það er það allra ljótasta, sem hægt er að segja í garð bænda, að þeir eigi heimtingu á að fá fullt verð fyrir sínar afurðir, svo þeir fái lifað.

Þá er skiljanlegt, hvers vegna hæstv. forsrh. lét drepa tillögu okkar Péturs Magnússonar, sem átti að tryggja bændum það, að þeir nytu hagnaðarins af framkvæmd mjólkursölulaganna, a. m. k. þangað til búin gætu borið sig.

Ég stend nú í þeirri meiningu, að mjólkurframleiðsluna verði að stunda til þess að Reykjavík geti lifað. En hvernig er hægt að ætlast til annars en að þeir, sem stunda þessa framleiðslu, fái og það verð fyrir vöruna, að þeir geti líka fyrst og fremst lifað?

Forsrh. sagði, að það væru ósannindi, að landbúnaðarnefnd hefði umbætt frv. forsrh. um fasteignalánin og bætt við ákvæði um vaxtatillag. Hvað segir nefndin sjálf?

Í grg. frv. segir nefndin, að hún hafi bætt við frv. III. kaflanum. En þar er heimildin til þess að greiða vaxtatillag af fasteignaveðlánum bænda, þó að sú heimild nái ½% skemmra en nú er í lögum. Nefndin hefir því sannað mitt mál, en ósannað orð hæstv. forsrh.

Þá hafa 2 rh. verið að dylgja um það, að ég hafi haft heimild til þess að skipuleggja mjólkursöluna og kjötsöluna skv. lögum frá 1933. Sá þeirra, sem kunnugri er þessum málum, er nú reyndar fallinn frá því, að lagaheimild hafi verið til að skipuleggja sölu mjólkur. Enda er þar ekkert á skipulagningu minnzt, og hefir hann sjálfur sagt kónginum, að þau væru ónothæf. Á ég þar við l. um heilbrigðisráðstafanir við sölu mjólkur og rjóma frá 1933. Forsrh. sagði það sjálfur á föstudagskvöldið, að þessi lög hefðu verið „óframkvæmanleg“ og „handónýt“. Enda gat hann ekki sjálfur framkvæmt þau sem lögreglustjóri, þó að svo væri fyrir hann lagt af stjórnarráðinu. En hann hljóp þá í annað. Hann sagði, að ég hefði ekki getað komið fram mjólkurlögum á þinginu 1933. Þar var borið fram frv. um þetta efni, sem hefði líklega komið að notum ef það hefði verið samþ. óbreytt. Það var samþ. í Nd. þrátt fyrir andmæli sósíalista. Það var samþ. við 2. umr. í Ed. og átti vís atkvæði við 3. umr. til þess að verða að lögum. En þá kemur alt í einu síðustu daga þingsins fram ósk frá Mjólkurbandalagi Suðurlands, um að fella burt allan innviðinn úr frv., svo að ekki var eftir nema fyrsta greinin. Þessa ósk bar Mjólkurbandalagið fram vegna þess, að fá þurfti afbrigði frá þingsköpum, þegar frv. kæmi aftur til Nd. En þar voru allir sósíalistarnir á móti lögunum og þm. Sjálfstfl., þeir sem báru Rvík fyrir brjósti. Þess vegna var ekki hægt að fá afbrigðin í Nd., vegna Rvíkurþm. Sjálfstfl. og allra sósíalista í deildinni. Mætti forsrh. því beina skeytum sínum til vina sinna sósíalista heldur en til mín.

Þá kom forsrh. með þá ásökun, að ég hefði ekki notað heimild í lögum nr. 90 1933 til að skipuleggja kjötsöluna innanlands. Þetta er annaðhvort furðulegur óvitaskapur af lögfræðingi, eða undraverð blekking. Því að forsrh. gengur alveg framhjá því, með hvaða forsendum þessi ákvæði, sem hann á við í 8. gr. laganna nr. 90 frá 1933, eru sett. Þá stóð svo á, að Englendingar höfðu enn ekki gefið full svör um, hve mikinn innflutning á kjöti þeir vildu leyfa frá Íslandi. Vegna þeirrar hættu, sem þá var yfirvofandi um útflutningstregðu til Englands, þá lét ég bæta þessari 8. gr. inn í frv. í Ed., til þess að hægt væri að gera ráðstafanir, ef þessi markaður þrengdist. Ákvæðin eru sett beinlínis með þetta fyrir augum. Og þessu lýsti frsm. landbn. yfir í Ed. Nú rættist betur úr horfunum um enska markaðinn en á horfðist, þannig, að við höfum haft fullnægjandi innflutningsleyfi þar fyrir freðkjöt. Forsendur þær, sem lögin byggðust á, voru því ekki fyrir hendi 1933. Þar sem við fengum innflutningsleyfi í Englandi fyrir allt okkar freðkjöt og við þurftum ekki að nota nema rúml. helming þess innflutningsleyfis, sem við höfðum í Noregi.

Skv. þessu er ljóst, að útlendi markaðurinn á kjöti var nægilega rúmur haustið 1933, og þar af leiðandi skorti heimild til þess að beita ákvæði 8. gr. laga nr. 90 frá 1933, til þess að ákveða með reglugerð, að komið yrði skipulagi á sölu kjöts innanlands. Ég hefi borið þetta undir ýmsa merka lögfræðinga, og þeir hafa allir talið, að undir þeim markaðsskilyrðum, sem voru haustið 1933, hafi ekki verið unnt að nota þessa heimild. Því að dómstólarnir hefðu dæmt reglugerðina skv. þeim lögum ógilda, þar sem þau skilyrði voru ekki fyrir hendi, sem þurftu að vera til þess að hún gæti haft gildi. Hér er því annaðhvort um óvit eða blekkingu að ræða af hálfu hæstv. forsrh.

Þannig er þá einnig um þessa ásökun, og hvað mun þá um þau atriði, sem hann reyndi alls ekki að svara í ræðu minni? Um breytingu á jarðræktarlögunum, um ranglætið í úthlutun vegafjár og annað, sem hann gekk alveg framhjá að svara í ræðu sinni.

Hefi ég þá rakið röksemdir hæstv. forsrh. gegn ræðu minni á föstudaginn, að svo miklu leyti sem þess er þörf. Ég ætla, að margur segi nú um þá ræðu ráðherrans: Fyrr má nú vera, að málsvörn takist óhönduglega en svo, sem var í ræðu hans.