13.10.1934
Neðri deild: 9. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1796 í B-deild Alþingistíðinda. (2449)

56. mál, hlunnindi fyrir ný iðn- og iðjufyrirtæki

Flm. (Emil Jónsson):

Frv. þetta, sem hér liggur fyrir, fer fram á undanþágu á greiðslu á tekju- og eignarskatti í ríkissjóð og útsvari í bæjar- eða sveitarsjóð fyrir fyrsta iðn- eða iðjufyrirtækið í hverri grein, sem ekki hefir verið starfrækt hér áður. Þetta er sá styrkur, sem ríkissjóður og bæjar- og sveitarsjóðir geta lagt þessum fyrirtækjum sér að kostnaðarminnstu, en getur þó orðið þessum fyrirtækjum nokkur stuðningur, á meðan þau eru að koma undir sig fótunum, og hvöt fyrir menn að reyna nýjar leiðir í þessum efnum.

Þeir eru sjálfsagt allmargir, sem standa enn í þeirri meiningu, að við getum sáralítið framleitt af því, sem við þurfum að nota sjálfir. En sannleikurinn er sá, að við getum framleitt afarmargt sjálfir. Og þótt sum hráefni kunni að skorta, þá er samt betra að flytja þau inn og búa til vörurnar í landinu en að kaupa þær tilbúnar frá útlöndum. Og eftir að markaðurinn fyrir útflutningsvörur okkar fór að þrengjast, hafa risið upp myndarleg iðnaðarfyrirtæki, sem veita mörgum atvinnu og spara erlendan gjaldeyri, sem er hér af skornum skammti. Þetta frv. er því spor í rétta átt, og vona ég, að allir geti orðið sammála um það.

Ég sé ekki ástæðu til að fara hér mörgum orðum um örðugleika iðnaðarfyrirtækja, en vil þó aðeins minnast á tvennt. Annað er það, að markaður innanlands er svo þröngur, að framleiðslan verður að vera í smáum stíl, og þá um leið verður hún dýrari en ella. Hitt er hin stöðuga samkeppni við útlendar vörur, því að almenningur gerir þá kröfu til innlendu vörunnar, að hún sé eins góð og ódýr og sú útlenda.

Ég hefði gjarnan kosið að bera fram till. um frekari stuðning fyrir iðnaðinn en hér er gert, en það þýðir ekki, þar sem hagur ríkissjóðs er nú svo þröngur. En ég veit, að þegar hv. þdm. gera sér það ljóst, að hér er um að ræða þriðja stærsta atvinnuveg landsmanna, þá sjái þeir nauðsynina á því, að eitthvað sé fyrir hann gert. Og hér er líka um þá hjálp að ræða, sem ríkissjóður og sveitar- og bæjarfélög geta vel veitt.

Frv. hefir legið fyrir þingi landssambands iðnaðarmanna, og var þar samþ. einum rómi, að það yrði lagt fyrir Alþingi, og er það fyrir þeirra tilhlutun borið fram.

Ég legg svo til, að frv. verði vísað til 2. umr. og iðnn.