26.11.1934
Sameinað þing: 13. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 123 í B-deild Alþingistíðinda. (245)

1. mál, fjárlög 1935

Pétur Ottesen:

Ég held, að ég hafi ekki heyrt nokkurn mann freista eða sýna meiri dirfsku en þá, sem fram kemur hjá hæstv. fjmrh. þegar hann ætlar sér þá dul, að reyna að þvo af sér og sínum flokki sósíalistamarkið. Það er öllum kunnugt hér, sem fylgzt hafa með gerðum þessa þings, og þeir, sem fjær búa, eiga eftir að kynnast því betur, að sósíalistar eru nú búnir að soramarka Framsfl. svo, að það er ekki hægt að marka hann upp aftur. Ég vil nú finna þessum orðum mínum stað með því að benda á órækar staðreyndir í þessu efni. Hvenær hefir meira verið borið fram af stefnumálum sósíalista en á þessu þingi? Hvenær hafa komið fleiri einkasölufrv.? Hvenær hefir hið opinbera sýnt aðra eins viðleitni í því að leggja hramm sinn á athafnafrelsi þjóðarinnar í framleiðslu og á sviði samgangna á sjó og landi? Aldrei — enda eru þeir svo gersamlega fallnir í faðma um þetta, Framsóknarfl. og sósíalistar, að ekki má þegar greina á milli, hverjir sækja fastara fram að því marki að framkvæma fjögra ára áætlun þá, sem sósíalistar gáfu út fyrir kosningarnar. Það er svo sem ekki séð fyrir endann á þessu enn; daglega koma fram ný frumvörp og tillögur, sem bera með sér skýr og óræk merki þess mikla kapps, sem stjórnarflokkarnir leggja á það að koma stefnumálum sósíalista í framkvæmd hér á landi. Hæstv. fjmrh. sagði hér á föstudagskvöldið, að stefna sín og þeirra flokka, sem stj. styðja, væri sú, að taka alla verzlun með aðfluttar vörur í hendur ríkisins, alla, sem eitthvað væri upp úr að hafa. Hitt má kaupmannastéttin og kaupfélögin hafa. Ég held, að sósíalistar hafi aldrei hugsað sér að komast lengra en þetta eða hærra á einokunarbrautinni. Og þeir ætla ekki, þessir sameiginlegu einokunarpostular, að láta sér nægja að taka verzlun með aðfluttar vörur í sínar hendur, heldur ætla þeir líka að taka verzlunina með aðalútflutningsvöru landsmanna, fiskinn, undir ríkið, því það er ekki nema fyrirsláttur, að þó frv. um fiskimálanefnd yrði að lögum, þá geti fisksölusamlagið eða aðrir aðilar haldið áfram að hafa fiskverzlunina með höndum; meiningin er með þessu að ganga af fisksölusamlaginu dauðu, taka fyrir kverkarnar á því, að nokkur frjáls samtök um fiskverzlunina geti átt sér stað. Einokun og ekkert annað en einokun. Það er vitanlegt, að svo fast er sótt að koma á einokuninni á öllum vörum, að þeir munu ekki sætta sig við neitt millibilsástand. Og þetta gera þeir, þó að fyrir liggi hin sorglega saga um afkomu síldareinkasölunnar sálugu, sem var þannig, að þó hún hefði fengið alla síldina gefins síðasta árið, sem hún starfaði, þá hefði það ekki hrokkið að vega upp á móti mistökum og skakkaföllum, því eins og kunnugt er, þá lenti á ríkinu um 1 millj. króna halli af þessu fyrirtæki, þegar það setti upp tærnar. Samt er svo hörð sóknin af hálfu Framsóknar og sósíalista, að þeir flokkar láta sér slíkt fordæmi ekki að varnaði verða, — síður en svo. Ennfremur mætti benda á, að það orkar ekki tvímælis, að sameiginlegt mark þessara flokka er á nefnd þeirri, er sett var á laggirnar fyrir þing og kölluð hefir verið Rauðka, og ekki leikur nokkur minnsti vafi á um, hvert þar er stefnt. Þar er feimnis- og skefjalaust stefnt beint í þjóðnýtingaráttina. Hvers vegna á Sjálfstfl. ekki menn í nefndinni? Því hefir verið lýst yfir af hæstv. atvmrh., að þeir hefðu ekkert að gera í nefndinni, af því þeir vildu ekki þjóðnýtingu. Nefndin er að meiri hluta skipuð sósíalistum, en það er engin tilviljun, að þeir menn, sem Framsfl. velur í nefndina, hafa frá upphafi verið hreinræktaðir sósíalistar, þó þeir hafi þangað til nú verið við og við að reyna að villa á sér heimildir í þessu efni. — Fjmrh. var að tala um, að það væri hurð á milli deildanna. Það er alveg rétt, að það er hurð hér á milli deildanna. Og það er kannske hægt að segja, að á fyrra samstarfstímabili Framsóknar og sósíalista, á árunum 1927—30, þá hafi verið þar hurð á milli, en nú er a. m. k. búið að taka þá hurð af hjörunum, og það er búið að taka líka burt allar milligerðir og slagbranda, sem haldið hefir verið fram, að skildu skoðanir og stefnur þessara flokka, svo nú eru þeir komnir fullkomlega í eina sameiginlega flatsæng. Hæstv. fjmrh. minntist á í ræðu sinni, í sambandi við afurðasölumálið, og það sama kom greinilega í ljós í ræðu forseta sameinaðs þings, hv. 4. landsk., sem talaði um ræðu hv. 10. landsk., að það væri ekki fyrst og fremst tilgangurinn með afurðasölulögunum, að bændur ættu að fá framleiðslukostnaðarverð fyrir kjötið. Það átti að fara að skipta hagnaðinum, sem leiddi af þessari löggjöf, milli framleiðenda og neytenda áður en því marki væri náð. Hv. 4. landsk. kallaði tillögu, sem fram kom í Ed. frá 10. landsk., sem fól það í sér, að lögin ættu fyrst og fremst að tryggja það, að bændur fengju a. m. k. raunverulegt framleiðslukostnaðarverð fyrir afurðirnar, lævíslega orðaða, og valdi hann henni þessi og önnur þvílík heiti. En þetta kemur vel heim við fyrstu aðgerðir mjólkursölunefndarinnar, að verða við kröfum sósíalista og lækka verðið á mjólkinni fyrir neytendurna, áður en komið var í ljós, að hið nýja skipulag leiddi til ávinnings fyrir framleiðendur. Þetta er þá það hlutskipti, sem sósíalistarnir ætla bændum með samstarfi sínu við Framsfl. um lausn á afurðasölumálinu. Samt segir þessi hv. þm., foringi sósíalista, við bændurna: Við sósíalistar viljum hjálpa ykkur bændunum, svo þið þurfið ekki að hrekjast á mölina; við viljum berjast á móti því. En hvað bíður bændanna, ef búskapurinn ber sig ekki? Ekkert annað en að þeir flosna upp af jörðunum og flytja á mölina. Þetta ástand virðast sósíalistar hafa gert samning um við Framsfl., að haldist, og á þann hátt þykjast þeir vera með útrétta hönd til að hjálpa bændum. Hvílík hræsni!

Hæstv. fjmrh. sagði, að það væri stefnumál framsóknar, að ríkið eignaðist jarðirnar. Ég var á nokkrum kosningafundum bæði í mínu héraði og öðrum, og ég heyrði hvergi frambjóðendur Framsfl. minnast á þetta sem stefnumál þess flokks. Þeir, sem lengst gengu, töldu sig geta fylgt því, að ríkið keypti þær jarðir, sem lent hefðu hjá bönkum. Og mér er kunnugt um það, að ýmsir frambjóðendur Framsfl. mótmæltu fyrir sitt leyti þeirri stefnu, að ríkið færi að draga undir sig jarðeignirnar. Nú lýsir fjmrh. því yfir, að það sé stefnumál Framsfl., að ríkið kaupi allar jarðir. Þetta sýnir bara, að Framsfl. er líka í þessu efni að sogast lengra og lengra inn í sósíalismann og að nú er svo komið, að í þessu mikilsverða atriði hefir Framsfl. tekið upp og berst fyrir stefnu sósíalista. Það er ágætt, að hæstv. fjmrh. kallar þetta út til þjóðarinnar, svo hún viti, á hverju hún má eiga von. (Fjmrh.: Þeir vissu það áður). Nei, þeir voru sannarlega ekki allir búnir að átta sig á því áður. En ég má ekki dvelja við þetta lengur, heldur víkja að öðru máli, afurðasölumálinu.

Sökum þess að mönnum í núv. stjórnarflokkum, þó einkum og sér í lagi Framsfl., blöðum þess flokks og ráðherrum flokksins hefir orðið mjög tíðrætt um það og hreint og beint gengið berserksgang í því að telja mönnum trú um, að Sjálfstfl. væri og hefði verið óvinveittur og fjandsamlegur skipulagningu á afurðasölunni innanland, það er mjólkur- og kjötsölulögunum, þá þykir mér rétt að nota þetta tækifæri til þess að rifja upp gang þessara mála hér á Alþingi, því það eitt er nóg til þess að sýna og sanna, að það er fjarri öllu lagi, að þessar ásakanir á flokkinn séu á rökum reistar.

Það er þá upphaf þessa máls, að á þinginu 1932 flutti landbn. neðri deildar, að tilhlutun búnaðarþingsins, frv. um skipulagningu á mjólkursölunni. Í landbn. áttu þá sæti af hálfu Sjálfstfl. hv. 1. þm. Skagf. (MG) og ég.

Mál þetta gekk í gegnum Nd., en dagaði uppi í Ed. Á þinginu 1933 var mál þetta flutt af nýju í Nd., og stóðu að flutningi þess fulltrúar þeirra bænda, sem mikið áttu undir því, að mjólkursalan færi vel úr hendi, og var hv. þm. G.-K. (ÓTh) fyrsti flm. málsins.

Málið var samþ. í Nd., en var breytt í verulegum atriðum í Ed., sökum ágreinings, sem reis þar um nokkur atriði frv., og var það með samþykki og fyrir tilmæli forráðamanna mjólkurbúanna, sem selja mjólk til Reykjavíkur, að sá kosturinn var tekinn að breyta frv., en sú leið ekki farin að láta atkvæði ganga um frv. óbreytt.

Síðan hefir verið deilt um það, hver ætti sök á því, að mjólkurlögin eins og þau voru samþ. að lokum komust ekki til framkvæmda hér í Rvík, hvort það væri þáv. landbúnaðarráðh. Þ. Briem að kenna, eða hvort þáv. lögreglustjóri, núverandi forsætisráðherra, H. Jónasson, ætti sök á því, og skal ég leiða þá deilu hjá mér.

Næsta sporið, sem stigið er í þessum afurðasölumálum eða afskiptum Alþ. af þeim, er það, eins og lýst hefir verið, að þáv. landsk. þm. Jón í Stóradal flutti á þinginu 1933 þáltill. um skipun nefndar til þess að undirbúa löggjöf um afurðasöluna. Tillaga þessi var samþ. með góðu samkomulagi allra flokka í þinginu.

Nefnd þessi var svo skipuð, og átti Sjálfstfl. að sjálfsögðu fulltrúa í nefndinni.

Þessi nefnd rannsakaði svo og undirbjó þetta mál og skilaði núv. stj. fullbúnum frv. bæði um kjötsöluna og mjólkursöluna. Hlutverk núv. stj. var því það eitt að taka við þessum frv. fullbúnum og koma þessum málum í framkvæmd, en það varð að gera með bráðabirgðalögum, a. m. k. hvað kjötsölulögin snertir, svo þau gætu náð til kjötsölunnar á þessu hausti.

Þetta er vitanlega sú skylda, sem hver ríkisstj., sem setið hefði að völdum á þessum tíma, hefði talið sér óhjákvæmilegt að framkvæma.

Svo sem ákveðið er í stjskr. landsins, lagði ríkisstj. bráðabirgðalögin um kjöt- og mjólkursöluna fram á Alþingi því, er nú situr, í byrjun þings. Því þannig er því varið með bráðabirgðalög, sem gefin eru út af stj., að þau öðlast því aðeins gildi til frambúðar, að næsta þing, sem saman kemur eftir að þau hafa verið gefin út, samþykki þau.

Er þá næst að rekja gang þessarar löggjafar í þinginu og afstöðu Sjálfstfl. til hennar. —Bráðabirgðalögin um kjötsöluna eru nú afgr. frá þinginn og orðin að lögum. Mjólkursölulögin hafa verið samþ. í Ed. og komin í nefnd í Nd.

Er það skemmst að segja, að Sjálfstfl. á þingi hefir fylgt þessum málum óskiptur, þegar frá eru teknir þingmenn Reykv. Eftir því, sem fram hefir komið, þá er það síður en svo, að þessir þm. séu á móti þessum málum í heild, heldur eru það einstök atriði, sem snerta Reykjavík alveg sérstaklega, sem þessi sérstaða þeirra byggist á, það t. d., að í kjötsölulögunum eru bönnuð bein milliliðalaus viðskipti með nýtt kjöt og saltkjöt milli framleiðenda og neytenda. Það ákvæði í mjólkurlögunum, að mjólkurframleiðendum í Rvík er fyrirmunað að selja mjólk frá búum sínum beint til neytenda.

Þess má geta, að sjálfstæðismenn báru fram nokkrar breytingar við kjötsölulögin, sem voru samþ.

Ég hefi nú rakið sögu þessa máls, og ætla ég, að engum manni geti blandazt hugur um það, að Sjálfstfl. hefir að sínu leyti fullkomlega tekið virkan þátt í því: Í fyrsta lagi að hrinda þessum málum af stað, í öðru lagi að undirbúa og semja löggjöf um þau, og í þriðja lagi að styðja að endanlegri samþykkt þessarar löggjafar.

Þrátt fyrir þessar staðreyndir um afstöðu Sjálfstfl. til skipulagningar á afurðasölunni innanlands, þá leyfa þeir sér það samt sem áður, andstæðingar okkar, að halda því fram, að Sjálfstfl. sé þessum málum andvígur.

Og í því sambandi eru þeir að vitna í blaðaskrif um þessi mál í bæjarblöðunum hér í Rvík, þeim, sem að Sjálfstfl. standa, og sem þeir segja að séu fram komin til að spilla fyrir kjötsölunni í bænum. Um þessi blaðaskrif er það eitt að segja, að það er í sjálfu sér ekkert undarlegt, þegar verið er að gera svona ráðstafanir, þó fram komi í blöðunum raddir frá neytendunum, sem ef til vill halda, að það eigi að nota þessar ráðstafanir til þess að okra á sér.

Þetta er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt, þó slíkt komi fram í landi, þar sem er þó ritfrelsi og skoðanafrelsi, og frá mönnum í flokkum, er ekki hafa lagt handjárn atkvæða- og skoðanakúgunar á flokksmenn sína. Hefir svo reynslan sýnt, að það var með öllu ástæðulaust að bera kvíðboga fyrir því, að þessum ráðstöfunum yrði beitt þannig, að af þeim leiddi óeðlileg íþynging fyrir neytendurna; því þrátt fyrir þá hækkun, sem varð á kjötverðinu innanlands, þá er það nú svo um þá bændur, sem þess verðs njóta, að þeir berjast í bökkum og gengur illa að láta búreksturinn bera sig. En það má öllum vera ljóst, að framtíð þjóðarinnar og sjálfstæði byggist á því, að atvinnuvegirnir geti borið sig.

Það er því meira en meðalheimska að ætla sér að telja nokkrum manni trú um það, að af því, sem fram kemur í þessum blaðaskrifum, sem þannig eru til komin sem ég nú hefi lýst, megi marka stefnu Sjálfstfl. í þessum málum.

Þvílík fjarstæða.

Ég býst nú við því, að hæstv. forsrh. hefji nú bráðum sinn venjulega húslestur, fari að lesa samtíning af setningum og málsgreinum, slitnum úr öllu samhengi upp úr þessum blaðaskrifum, sem hann, að því er virðist, skilur aldrei við sig og ber ávallt í barmi sér, og mætti þá ef til vill síðar í þessum umr. benda honum á skrif í dálkum hans eigin flokksblaða, sem þá gæti komið til álita, hvort þau væru beinlínis til þess fallin að bæta fyrir kjötsölunni hér í bænum, ef þau væru tekin alvarlega.

Með þessu, er ég nú hefi sagt, eru því kveðin niður gersamlega þau rakalausu, vísvitandi ósannindi, að Sjálfstfl. hafi nokkurntíma verið eða sé því óvinveittur, hvað þá heldur fjandsamlegur, að komið yrði skipulagi á afurðasöluna innanlands.

Jafnframt er það ljóst öllum almenningi, að það eru ósannindi og blekkingar einar, sem framsóknarmenn halda fram, að þeir hafi orðið að láta að vilja bandamanna sinna, sósíalistanna, í því að hækka vegavinnukaupið á síðastl. sumri til þess að tryggja með því framgang kjöt- og mjólkursölulaga á þingi. Það var öllum ljóst frá upphafi, að slík verzlun um þessi mál var óþörf með öllu, því innan Framsfl., Sjálfstfl. og Bændafl. var langsamlega nóg fylgi við þessi mál, svo þeim yrði komið í trygga höfn. Hitt kom strax á daginn, að af hækkun á vegavinnukaupinu leiddi almenn kauphækkun í sveitum landsins, en það hefir vitanlega orðið til að skerða allverulega þann hagnað, sem bændur gátu vænzt sér til handa í hækkuðu afurðaverði, fyrir áhrif þessarar löggjafar.

Og þessarar skerðingar, sem að þessu leyti er að ófyrirsynju og ástæðulausu á komið, hefir Framsfl. orðið valdandi.

Vil ég nú þessu næst víkja nokkuð að viðhorfinu um framkvæmd þessara laga.

Það er nú svo um þessa löggjöf, kjötsölulögin og mjólkursölulögin, að því verður eigi við komið að kveða á um hvað eina í lögunum sjálfum, heldur verður að fela viðkomandi ráðh. og þar tilkjörnum nefndum framkvæmd á fjölmörgum atriðum.

Árangur þessarar löggjafar byggist því að langsamlega mestu leyti á því, hvernig tekst um framkvæmdina.

Eftir því sem ráðið verður af því, sem fram er komið í þessu efni, þá virðist mér, að þar séu a. m. k. tvær ískyggilegar blikur á lofti.

Eins og kunnugt er, þá er svo ákveðið í mjólkursölulögunum, að mjólkursölunefndin ákveði verðlagssvæðin, það er hvar, í hvaða kaupstað eða kauptúni menn af ákveðnum svæðum megi selja mjólkurafurðir sínar. Með þessu er nefndinni gefið ákaflega mikið vald, og ef því er misbeitt, getur það leitt til þess, að heilar sveitir og héruð verði útilokuð af markaði, sem þau hafa notið um langt skeið.

Nú er það kunnugt, að innan mjólkursölunefndarinnar hafa verið háværar raddir um það, að útiloka t. d. mjólkursölusamlag Borgfirðinga — það er Borgarfjarðarhérað ofan Skarðsheiðar — af Reykjavíkurmarkaðinum. Slík ósanngirni og harðræði gagnvart þeim Borgfirðingum og öðrum, er líkt stæði á um, nær vitanlega ekki nokkurri átt, og það er undravert, að slík firra skuli hafa skotið upp höfðinu í nefndinni. Að gefnu tilefni frá mér upplýsti hæstv. forsrh. fyrir nokkrum dögum í Nd., að það mundi vera búið að slá því föstu í mjólkursölunefndinni, að Mjólkursamlag Borgfirðinga teldist til verðlagssvæðis Reykjavíkur. Ég hefi nú í dag aflað mér upplýsinga um þetta í viðtali við einn nefndarmanna, hr. Árna Eylands, og sagði hann mér, að það væri ekki búið að gera neina formlega samþykkt um þetta.

Það, sem hér hefir skeð, gefur fullkomlega tilefni til, að tekin séu upp í mjólkurlögin skýlaus ákvæði um það, að framleiðendur verði ekki útilokaðir frá þeim mjólkurmarkaði, sem þeir hafa notið að undanförnu.

Hitt atriðið, sem ég vildi minnast á í sambandi við framkvæmd kjötsölulaganna, er ákvörðun kjötsölunefndar um útsöluverð á frosnu kjöti.

Nú hefir t. d. kjötsölunefndin nýverið ákveðið útsöluverð á frosnu kjöti hér í Reykjavík, og kemur þá í ljós, að hækkunin á verðinu, frá því sem það var á nýslátruðu kjöti, nemur ekki nema 1/3 af þeim kostnaði, sem á kjötið leggst við frystun, geymslu o. fl., þar í reiknaðir vextir af því lánsfé, sem í kjötbirgðunum stendur, og nemur þá tap Sláturfél. Suðurlands á þessu yfir 20 þús. kr., ef það á að hlíta þessu verðlagi til frambúðar.

Hliðstætt þessu verður vitanlega tap Kaupfél. Borgfirðinga og annara, sem keypt hafa hér kjöt til frystingar og borgað það út með því verði, sem kjötverðlagsnefndin ákvað hér í haust.

Það hefir verið deilt á núv. hæstv. stj. fyrir það, að hún skerti áhrifavald bænda til þess að ákveða kjötverðið með því að neita Búnaðarfél. Íslands að tilnefna einn mann í kjötverðlagsnefndina, en í þess stað jók stj. að sama skapi áhrifavald kaupendanna í nefndinni. Skyldi nú ekki þetta fyrirbrigði, sem ég nú nefndi um verðlagið á frosna kjötinu, að einhverju leyti eiga rót sína að rekja til þess, hvernig kjötverðlagsnefndin er skipuð. Og í þessu felst e. t. v. nokkur bending um það, að uggur bænda við þessa ráðabreytni ríkisstj. sé ekki með öllu ástæðulaus.

Það er vitað, að þessi skerðing á áhrifavaldi bændanna í kjötverðlagsnefndinni var knúin fram af sósíalistum. Af sama toga er spunnin lækkun mjólkurverðsins hér í Reykjavík, þrátt fyrir það, þótt mjólkurframleiðendum og flestum kunnugum mönnum komi saman um, að hún væri ósanngjörn gagnvart framleiðendum, og engin reynsla væri fengin fyrir möguleikum á því að lækka sölu- og dreifingarkostnaðinn.

Þá veltur og mikið á því fyrir þá, sem selja kjöt sitt á innanlandsmarkaðinum og borga af því verðjöfnunarskatt til hinna, sem selja kjötið erlendis, að þeir í notum skattgreiðslunnar njóti þess öryggis, að markaðurinn á hinum ýmsu stöðum innanlands, eins og t. d. hér í Reykjavík, sé ekki offylltur. Nú er það kunnugt, að mikið var flutt af nýju kjöti víðsvegar af landinu á Rvíkurmarkaðinn á síðastl. hausti. Veit ég ekki, hvort svo mikil brögð hafa verið að þessu, að líkur séu til, að Sláturfél. Suðurl. og aðrir, er fryst hafa hér kjöt, sitji með óseljanlegar birgðir; það kemur í ljós á sínum tíma. Það eitt getur vitanlega réttlætt verðjöfnunarskattinn, að slík vernd komi á móti.

Sem dæmi þess, að þessi skattur nemur allverulegri upphæð, má geta þess, að viðskiptamenn Sláturfél. Suðurl. hafa á þessu hausti greitt í verðjöfnunarskatt 36 þús. kr., og hefir skatturinn þó ekki að þessu sinni verið nema 6 au. á kg. Nú hefir hámark skattsins verið fært upp í 10 au. á kg. í kjötsölul., og ef farið yrði með skattinn upp í hámark, þá mundi skatturinn á Sláturfél. Suðurl. hækka upp í 60 þús. kr. á ári, miðað við það kjötmagn, sem það hefir haft þessi árin.

Einn megintilgangur bæði mjólkur- og kjötsölulaganna er að draga úr dreifingarkostnaði þessara vara með því að fækka útsölustöðunum. Því er það, að þeim nefndum, sem eiga ásamt viðkomandi ráðh. að hafa á hendi framkvæmd þessarar löggjafar, er veitt vald til þess að hafa íhlutun um það, að dregið sé úr þessum kostnaði með því að fækka útsölustöðum.

Nú hefi ég það fyrir satt, að kjötbúðunum hér í Rvík hafi fjölgað allmjög á þessu hausti, jafnvel meira en nokkru sinni fyrr. Það virðist því ekki blása byrlega að ná tilætluðum árangri í þessu efni, a. m. k. hvað kjötið snertir.

Eins og ég sagði áður, byggist árangurinn af kjöt- og mjólkursölulögunum langsamlega mest á því, hvernig tekst til um framkvæmd þessara laga.

Það hvílir því rík skylda á landbúnaðarráðh. og þeim nefndum, sem hafa framkvæmdirnar í sinni hendi, að gæta hinnar fyllstu sanngirni í starfi sínu, og að þar sé í engu rasað fyrir ráð fram.

Að lokum vil ég leggja áherzlu á, að í framkvæmd þessara laga verði þess gætt:

1. Að innlendi markaðurinn verði ekki offylltur, svo að þeir, sem nú greiða háan verðjöfnunarskatt til að fá að sitja að þeim markaði, er þeir hafa haft um langt skeið, verði ekki þrátt fyrir það bolað út af honum að meira eða minna leyti.

2. Að bændur, og þá sérstaklega mjólkurframleiðendur, verði ekki útilokaðir frá þeim mjólkurmarkaði, sem þeir hafa notið á undanförnum árum og sem búrekstur þeirra og öll afkoma er byggð á.

3. Að landbúnaðarráðh. láti ekki stjórnast af hræðslu við sósíalista og ógnanir frá einstökum þm. þess flokks um að þeir slíti samvinnunni og felli stjórnina, ef ráðh. dansi ekki eftir þeirra pípu, og þvingi fram óeðlilega verðlækkun á afurðum bænda, eins og nú hefir átt sér stað með mjólkurlækkuninni.