13.10.1934
Neðri deild: 9. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1797 í B-deild Alþingistíðinda. (2450)

56. mál, hlunnindi fyrir ný iðn- og iðjufyrirtæki

Ólafur Thors:

Ég er sammála hv. flm. þessa frv. um allt það, er hann færði fram því til ágætis. Að vísu er það rétt, sem hann sjálfur taldi, að þetta væri ekki mikilvæg hjálp, en þetta er áreiðanlega spor í rétta átt, svo langt sem það nær. Ég hygg, að þátt frv. verði að 1., muni það ekki valda ríkissjóði verulegum tekjumissi, og þá ekki heldur bæjar- og sveitarsjóðum. Hitt er aftur á móti tvímælalaust, að það hvetur menn til aukins framtaks á þessu sviði, og er það hin mesta þjóðarnauðsyn.

Ég er alveg sannfærður um það að heppilegasta hagnýting mannsorkunnar hér á Íslandi er í raun og veru á sviði sjávarútvegsins. Ég er sannfærður um það, að hnattstaða Íslands og sú staðreynd, að kringum landið eru beztu fiskimið heimsins, samfara því, að Íslendingar eru einhverjir beztu sjómenn heimsins, veldur því, að Íslendingar eiga að byggja sína afkomu mest á sjávarútveginum. En það þýðir ekki að loka augunum fyrir því, að af innilokunarstefnu nágrannaþjóðanna leiðir það, að ekki má miða við það eitt, hvernig mannsorkan verður bezt hagnýtt. Takmörkun heimildar til innflutnings setur þessari framleiðslu okkar ákveðnar skorður, og þar með skorður aukinni hagnýtingu mannsorkunnar á þessu sviði, og þá er ég viss um, að skynsamlegast er að beina henni inn á brautir iðnaðarins, og að því lúta ákvæði þessa frv., svo langt sem þau ná. Ég er sammála hv. flm., að þurfi að gera miklu meira iðnaðinum til hjálpar, en samt eru fyrirmæli frv. lofsamleg og spor í rétta átt. Ég mun því eindregið styðja þessa viðleitni hans í þessu efni og hvetja til, að frv. nái fram að ganga á þessu þingi.