26.11.1934
Sameinað þing: 13. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 136 í B-deild Alþingistíðinda. (247)

1. mál, fjárlög 1935

Jónas Guðmundsson:

Þó að ég sé frsm. meiri hl. fjvn. að fyrri hluta fjárl., þá mun ég ekki við þessa umr. fara að ræða frv. sjálft eða þær stefnubreyt., sem í því felast. Það hefir verið gert af hæstv. fjmrh. o. fl.

Undir umr. í dag féllu þau ummæli hjá hv. 1. þm. Skagf., að við úthlutun vegafjárins hjá meiri hl. fjvn. hefði gætt hinnar mestu hlutdrægni. Þessum aðdróttunum í garð meiri hl. n. mótmæli ég algerlega. Það mætti kannske frekar segja, að um stefnubreytingu væri að ræða heldur en hlutdrægni, og skal ég því til gamans skýra fyrir áheyrendum, í hverju stærstu till. meiri hl. eru fólgnar. Langstærsta brtt. snertir Sogsveginn. Þar leggur meiri hl. til, að veittar verði 50 þús. til þess að greiða fyrir einu stærsta framtíðarmáli þessarar þjóðar, Sogsvirkjuninni, sem á að verða til þess að auka möguleika til iðnaðar og verða til annara hagsbóta fyrir Suðurlandsundirlendið, og til þess að búa betur að Reykjavík á ýmsan hátt.

Þá leggur meiri hl. til, að tvær allstórar fjárhæðir verði veittar til þess að koma tveimur kaupstöðum landsins, Siglufirði og Norðfirði, í vegasamband við aðalvegakerfi landsins. Fjórða stærsta upphæðin á að ganga til þess, að greiða fyrir stórum hluta bænda í Árnessýslu, sem örðugt eiga með að koma mjólk sinni að Mjólkurbúi Flóamanna sakir vonds vegasambands. Þessar upphæðir nema alls um 90 þús. króna.

Þá er gert ráð fyrir 10 þús. kr. hækkun til Holtavörðuheiðarvegarins, en eins og kunnugt er, er það aðalleiðin milli Norður- og Suðurlands og því fjölfarin mjög, en vond yfirferðar á stórum köflum ennþá. Aðrar hækkunartill. meiri hl. um vegi eru 9 talsins, og nema upphæðirnar samtals um 40 þús. kr., sem skiptist á 8 sýslur.

Af þessu má sjá, að það er nokkur stefnubreyting um vegaféð, fyrst að láta það koma að sem mestu gagni og í öðru lagi að skipta því sem jafnast á milli héraðanna. Læt ég svo þetta nægja um vegaféð og skiptingu þess.

Þá vil ég með nokkrum orðum víkja að tveimur stórmálum, sem liggja fyrir þessu þingi og þjóðina varðar miklu, að giftusamlega takist að leysa. Annað er skuldaskil útgerðarmanna, en hitt fisksölumálið.

Hv. sjálfstæðismenn hafa haldið því fram, að við Alþýðuflokksmenn værum fjandsamlegir þessum málum. Hv. þm. Borgf. sagði t. d. áðan, að við vildum, með einkasölu á fiskinum, koma fisksölunni sömu leiðina og síldareinkasölunni gömlu.

Frv. um skuldaskilasjóð útgerðarmanna var flutt hér af sjálfst.mönnum, eftir misheppnaða tilraun til að bera það fram með öðrum flokkum. Það verður ekki annað sagt en að þetta sé eitt þýðingarmesta málið, sem fyrir þinginu liggur, og er því mikil nauðsyn á að leysa það, því eins og kunnugt er, þá hvílir öll afkoma okkar sem sjálfstæðrar þjóðar á sjávarútveginum, og fari illa um hann, þá er ekki annað sýnt en að við hreint og beint verðum gjaldþrota. Eins og kunnugt er, þá er hér tvennskonar útgerð: Togaraútgerðin, sem rekin er með hlutafélagssniði, og hinsvegar smáútgerðin, sem rekin er af einstaklingum með smábátum víðsvegar kringum landið. Mér er ekki kunnugt um, hvernig útgerðin skiptist á milli þessara tveggja útgerðartegunda, hvor þeirra heldur þjóðarbúinu meira uppi, en hitt er víst, að smáútgerðin stendur undir fleiri fjölskyldum í landinu en stórútgerðin.

Milliþinganefndin í sjávarútvegsmálum, sem safnað hefir allmiklum gögnum um þessi efni, hefir ekki gert skýrslur um það, hvernig skuldirnar skiptast á milli stórútgerðarinnar og smáútgerðarinnar, þær eru taldar í heild, svo það er dálítið erfitt að átta sig á þeim. En svo mikið er víst, að það mun ekki vera hægt að gera stórútgerðina upp, nema taka sérstakt tillit til bankanna, sérstaklega þó Landsbankans.

Skuldum smáútgerðarinnar er öðruvísi farið. Þær eru miklu dreifðari. Þannig er t. d. mikið af þeim við veiðarfæraverzlanir, olíufélög og saltverzlanir. Þegar þetta safnast, verður það að stórum upphæðum, með ólíkum vaxtakjörum, og getur oft orðið mjög óþægilegt fyrir útgerðarmennina.

Þá er vert að athuga það í þessu sambandi, hverjir standa að þessum tveimur tegundum útgerða. Smáútgerðarmennirnir eru sjálfir ábyrgir fyrir útgerð sinni, vinna sjálfir að rekstrinum, eiga bátana og veiðarfærin og verða sjálfir að borga brúsann, ef illa tekst til, láta allar eigur sínar, hvort sein þær eru viðkomandi útgerðinni eða ekki.

Hinsvegar er allt öðru máli að gegna með togaraútgerðina. Hún er rekin af hlutafélögum og að henni standa margir stórefnaðir menn, en eru aðeins ábyrgir fyrir þeim hlut, sem þeir hafa upphaflega lagt í fyrirtækið. Margir þessara manna eru jafnvel búnir að hafa miklar tekjur af hlutaeign sinni í félögunum, þegar vel hefir gengið. Í sumum tilfellum búnir að fá hlutafé sitt endurgreitt í ágóðahlutum. Tapa þeir því engum eyri úr eigin vasa, þegar félögin endanlega verða gerð upp. Til þessara tveggja sjónarmiða ber að taka tillit þegar útgerðin er gerð upp.

Við Alþfl.menn höfum ákveðið að fylgja skuldaskilum útgerðarmanna, en við krefjumst þess, að þau verði athuguð á þessum grundvelli. Og við teljum, að ef þingflokkarnir geta borið gæfu til að leysa þessi mál, þá ætti þessu þingi ekki að ljúka svo, að smáútgerðarmennirnir fengju ekki einhverja hjálp. Þó að þetta verði tekið í tveimur áföngum, ætti ekki að vera nein hætta á ferðum um lausn málsins, ef sjálfstæðismenn hlaupa ekki frá öllum sínum loforðum um stuðning við málið.

Hitt atriðið, skipulagning fisksölunnar, er áreiðanlega viðkvæmasta málið, sem minnzt hefir verið á á þessu þingi. Hvernig tökum beri að taka á þessu skipulagningarmáli, er áreiðanlega viðkvæmasti punkturinn í íslenzkri pólitík, eins og nú standa sakir. Það finna allir, hvort sem það eru Bændafl.menn, sjálfst.menn, jafnaðarmenn eða framsóknarmenn. Fiskmörkuðunum er lokað fyrir okkur, og yfirleitt eru fisksölumálin að komast í hið mesta óefni. Nú er t. d. komið að lokum nóvembermánaðar, og ennþá eru fyrirliggjandi í sumum fjórðungum landsins miklar birgðir fiskjar af þessa árs framleiðslu, sem vitanlegt er, að ekki fara út héðan af í þessa árs „kvóta“, heldur verða að fara í næsta árs samninga. Af því leiðir aftur, að við getum búizt við því, að við einn góðan veðurdag verðum að leggja fiskiskipaflotanum upp, afskrá sjómennina og segja þeim að ganga á götunum sér til dægrastyttingar, því að við megum ekki framleiða eins mikið og við höfum gert. Við Alþýðufl.menn höfum sætt ámæli hjá sjálfst.mönnum, og nú síðast hjá hv. þm. Borgf., fyrir það, að við höfum viljað taka föstum tökum á þessu máli, fastari tökum en sjálfstæðismenn.

Annars var búizt við því, að fulltrúafundur fiskútflytjenda, sem haldinn var hér síðastl. haust, frá 26. okt. til 1. nóv., legði einhverjar línur í þessu máli; sem að gagni mættu verða, en það gerði hann ekki, heldur lagði aðeins til, að fisksölunnni yrði hagað framvegis eins og verið hefði. En slíkt er engin lausn. Það verður að taka þessi alvarlegu mál fastari tökum.

Annars er það þannig nú, að hér er í raun og veru einkasala á saltfiski, þar sem salan er svo takmörkuð, að hún er bundin við ákveðið magn. Það er því varla forsvaranlegt að leyfa hér innanlands ótakmarkaða framleiðslu á þessari vöru. Ég tel fisksölunefndina, sem haft hefir með höndum nær alla fisksöluna, eiga mikla sök á því, hvernig þessum málum er komið nú. Hefði hún gætt betur skyldu sinnar og athugað þessi mál í tíma, myndi hún ekki hafa mætt slíkri tortryggni sem hún mætir nú, Ég skal fúslega viðurkenna, að nefndin hefir átt við mikla örðugleika að stríða, óbilgjarnar kröfur o. fl., en þess hefir hún ekki gætt sem skyldi að láta hið fyllsta jafnrétti ríkja gagnvart öllum fiskframleiðendum landsins. En þess verður að krefjast af þeim mönnum, sem hafa með höndum sölu á nær allri fiskframleiðslu landsmanna. Það dugir ekki að láta suma landshluta verða allmjög afskipta, en láta aðra flytja út alla framleiðslu sína. En það er einmitt þetta, sem gert hefir verið nú að undanförnu. Það er því full ástæða til, að almenningur ber ekki traust til þeirra manna, sem nú ráða mestu í fisksölunni.

Þá er eitt atriði enn, sem vert er að minnast á, og það er, hvernig farið hefir verið með þá markaði, sem við höfum haft. Sumir landshlutar, t. d. Austfirðir, hafa að mestu leyti verkað fisk sinn fyrir Barcelona-markaðinn, enda eru það þeir, sem hafa unnið hann upp að mestu. En á þann markað þarf sérstaklega að vanda fiskinn, enda fæst þar fyrir hann hærra verð en annarsstaðar. Nú hefir verið flutt út á þennan markað alls 5360 tonn, en það er mun minna en þessi markaður hefir tekið við síðustu árin. Af þeim fiski eru þó aðeins 1040 tonn af Austfjörðum, hitt, 4320 tonn, er af Suðurlandi. Nú er það dálítið eftirtektarvert, hverjir það eru, sem aðallega flytja út á þennan markað af Suðurlandi. Það eru ekki smáútgerðarmenn, heldur en það hlutafélagið Kveldúlfur, sem bezt sambönd hefir annars á Spáni. Það er óneitanlega vítavert, að aðalforstjóri sölusamlagsins, sem jafnframt er einn af forstjórum Kveldúlfs, skuli nota sér þessa aðstöðu til framdráttar sínu félagi, á kostnað annara. Ég vil nú, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp kafla úr ræðu, sem Richard Thors flutti út af þessu á fulltrúafundinum síðastl. haust. Þar segir m. a. svo: „Þá kem ég að Kveldúlfsfiskinum á Barcelona-markaðinum“. Kveðst ræðumaður hafa orðið þess var, að Kveldúlfur væri grunaður um að skara þar nokkuð eld að sinni köku. Austfirðingar teldu sig hinsvegar eiga Barcelona-markaðinn frá gamalli tíð, en menn yrðu að athuga, að fyrrum hefði það verið svo, að mjög lítið af Austfjarðafiski hefði verið selt fyrr en á haustin. Sunnlendingar seldu hinsvegar fisk sinn framan af sumri. Barcelona gerði miklar kröfur um verkun fiskjarins. Hér á árunum hefði það verið svo, að ekki hefði fengizt að verka fisk héðan að sunnan á Barcelona-markað, vegna þess, að þáv. yfirfiskimatsmaður hefði stranglega krafizt annars og miklu harðara verkunarstigs á fiskinum en við ætti í Barcelona. Hefði h/f Kveldúlfur þá loks fengið leyfi til að verka fisk á þennan markað, er það hafði borið fram bréflega ósk um þetta efni til ríkisstj. Öll þau ár, sem síðan hefðu liðið, hefði h/f Kveldúlfur kostað hins mesta kapps um að fullnægja kröfum þessa markaðar. Kaupendurnir hefðu vanizt því að fá samstæða vöru ár eftir ár, og aldrei hefðu komið kvartanir um undirvigt, enda hefði jafnan verið látið ríflega í pakkana. Að gefnu tilefni kvaðst ræðumaður vilja geta þess, að smásalarnir syðra krefðust þess aldrei, að Kveldúlfsfiskur yrði vigtaður upp. En vegna fenginnar óþægilegrar reynslu væri þess alltaf krafizt, að Austfjarðafiskurinn yrði vigtaður upp, því kaupendurnir vildu ekki eiga á hættu, bæði að greiða kaupverð og innflutningstoll af meiri þunga en þeir fengju. En tollur og annar kostnaður næmi þar eins miklu og innflutningsverðið. Nú væri svo komið, að kaupendurnir í Barcelona heimtuðu Kveldúlfsfisk, og það gæti verið varhugavert að neita slíkum kröfum. — Svo segir ræðumaður ennfremur, að fleiri og fleiri væru nú að snúast að þessari verkunaraðferð, og yrði að ræða í fullu bróðerni um það, hvernig sölunum yrði fyrir komið án þess að nokkur gengi á annars hlut. Óhjákvæmilegt væri að endurbæta matið á Ströndinni, ef sá fiskur ætti að halda velli á markaðnum.

Her er því um mjög þýðingarmikið atriði að ræða, sem ekki hefir verið minnzt á áður undir umr., sem sé skiptingin á hinum erlendu mörkuðum milli framleiðendanna innanlands. Við Austfirðingar getum ekki látið það afskiptalaust, að þeir, sem falin er yfirstjórn þessara mála, skari svo mjög eld að sinni köku, að þeir boli okkur út af þeim mörkuðum, sem við höfum sjálfir skapað okkur. Við erum fúsir til að slá af því, sem við flytjum út á okkar markaði, í réttu hlutfalli við aðra útflytjendur. En að útiloka okkur eins og gert hefir verið, það getum við ekki sætt okkur við. Það er því ekki að ófyrirsynju, þó að við viljum ekki leggja þessi miklu hagsmuna- og vandamál óskorað í hendur þeirra manna, sem við getum ekki treyst, og að við viljum frekar leggja það í hendur þeirra, sem bera ábyrgð gerða sinna fyrir ríkisstj. og Alþingi. Í frv. því, sem hæstv. atvmrh. hefir flutt hér til lausnar þessum málum, er ekki gert ráð fyrir einkasölu á fiski nema sem neyðarúrræði. Það er gert ráð fyrir sama fyrirkomulagi á sölunni áfram, ef þess er kostur, en það er lagt til, að stj. geti haft eftirlit með því, hvernig farið er með þetta vald, þetta langmesta vald yfir hagsmunamálum þjóðarinnar, sem hún getur afhent nokkurri stofnun.

Ég skal svo ekki þreyta hv. hlustendur með öllu lengri ræðu. Að ég hefi ekki tekið út úr nema þessi atriði, stafar af því, að ég vil frekar taka fram um þau það, sem mestu skiptir, að mér finnst, heldur en að minnast á margt lauslega.

Þeim ummælum hv. sjálfstæðismanna, að við Alþfl.menn berjumst á móti hagsmunum útgerðarinnar, vísa ég heim til föðurhúsanna, enda væri slíkt vanhugsun ein, því undir afkomu útgerðarinnar eiga þeir menn hvað mest, sem við berum mest fyrir brjósti, en það eru sjómennirnir og verkamennirnir.