08.11.1934
Neðri deild: 31. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1805 í B-deild Alþingistíðinda. (2489)

81. mál, hafnargerð á Hornafirði

Þorbergur Þorleifsson:

Ég sé ekki ástæðu til að lengja umr. um þetta mál. Ég er sjútvn. þakklátur fyrir það, að hún hefir tekið þessu máli vel. Þó hún geri till. um talsverða breyt. á frv., þá eru það ekki breyt., sem ættu að verða framgangi málsins hættulegar. Aðalatriðið er vitanlega að fá hafnarlög sett.

Hinsvegar vil ég benda á það, að öll sanngirni mælir með því, að ríkið leggi fram hlutfallslega meira til hafnargerðarinnar á Hornafirði heldur en lagt hefir verið fram til annara hafnargerða. Því þessi höfn er ekki aðeins fyrir Austur-Skaftafellssýslu, heldur fyrir Austurland allt. Eins og kunnugt er, fer allur bátafloti Austurlands þangað yfir vetrarvertíðina. Þetta vil ég biðja hv. dm. að athuga, þegar þeir greiða atkv. um brtt. n., hvort ekki er sanngjarnt að hafa framlag ríkisins eins og farið er fram á í frv. upphaflega.

Við hinni brtt. n. er ekkert að segja. Eins og hv. frsm. tók fram, mun hafa verið venja að hafa slíkt ákvæði í hafnarlögum. Að vísu hagar svo til þarna, að lítil líkindi eru til, að á eignarnámi þurfi að halda, en það spillir engu að hafa heimildina til.

Svo vil ég mælast til, að hæstv. forseti fresti atkvgr. um málið til morguns, vegna þess hvað fátt er af hv. þm. í deildinni.