26.11.1934
Sameinað þing: 13. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 144 í B-deild Alþingistíðinda. (249)

1. mál, fjárlög 1935

Ólafur Thors:

Í þessari ræðu kemst ég ekki yfir að svara nema litlu af því, sem þörf er á. Hæstv. forsrh., höfuð stj. — hæstv. forsrh. er nú raunar aldrei nefndur því nafni, hann er aldrei kallaður höfuð stj., af hverju sem það nú kanna að vera — svaraði rökstuddri ádeilu minni með því einu að segja, að mér þyrfti engu að svara fremur en vant væri. Ég hefði farið með venjulegt rugl og skvaldur. Þetta eru þau rök, sem ég er vanastur í blöðum og ræðum þessa hæstv. ráðh., og þykir mér vænt um, að þjóðin fái þó í eitt skipti að heyra bæði minn málflutning og hans.

Hæstv. forsrh. las eitthvað upp úr grein í Vísi frá því í sumar, sem átti að sanna það, að ég hefði farið með fals og flærð í ræðu minni um afurðasölumálin. Hæstv. ráðh. veit það náttúrlega, að hér eru til einstöku menn í bænum, sem láta heyrast frá sér óánægjuraddir út af framkvæmdum stj. í afurðasölumálunum. Ein af þessum óánægjuröddum hafði látið til sín heyra í Vísi, og þá fannst hæstv. ráðh. ástæða til að láta hana berast út um byggðir landsins gegnum útvarpið. En nú vil ég spyrja hæstv. ráðh.: Hvernig heldur hann, að sungið hefði í tálknum Alþýðublaðsins, ef við sjálfstæðismenn hefðum skipulagt afurðasöluna á sama hátt og hækkað verðið á þeim nauðsynjavörum fyrir verkalýðinn í bæjunum? Það væri gaman að heyra svar hans við því. Annars er ekki hægt að deila við þennan hæstv. ráðh., sem þorir ekki að svara rökstuddum ákúrum, en stendur bara upp úr sæti sínu og yptir öxlum með illúðlegu brosi, — eða lítið góðmannlegu, væri máske réttara að segja. Hann ætti að halda sem mest kyrru fyrir í sætinu, þegar hann getur ekki svarað fyrir sig.

Hæstv. fjmrh. verð ég að mestu að leiða hjá mér, og hlýt ég að játa, að af öllu góðgætinu í eldhúsi stj. sárlangar mig ekki jafnmikið í neitt eins og það, að tæta í mig allra mestu fjarstæður þessa ráðh. Ég stilli mig þó um það að þessu sinni, en verð aðeins að gera örstuttar aths. út af ræðu hans. — Út af ummælum hæstv. fjmrh. um stefnu stj. og sjálfstæðismanna í skattamálum og fjármálum vil ég aðeins gera þessa stuttu aths.:

Sjálfstæðisfl. telur, að framlög ríkissjóðs til verklegra framkvæmda beri að miða annarsvegar við getu ríkissjóðs, en hinsvegar við þörf almennings fyrir atvinnu. Af því leiðir m. a., að þegar góðar atvinnuhorfur eru í landinu, á ríkið að draga saman seglin. Á komanda sumri eykur Sogsvirkjunin atvinnu almennings um 600 þús. kr. Samt sem áður verða framlög ríkisins í þessu skyni, samkv. till. sjálfstæðismanna, 500 þús. kr. hærri en undanfarin ár. Þetta er langt gengið, en á sína afsökun í því, að ástæða er til að kviða því, að atvinnurekstur einstaklinga dragist saman á næsta ári.

En að ráðast á þessa afstöðu og saka Sjálfstfl. um gerræði í garð verkalýðsins, er rakalaus þvættingur, og þegar sjálfur fjmrh. landsins gerist sekur um slíkt athæfi, lýsir það fullkomnu ábyrgðarleysi — fullkomnu og vítaverðu ábyrgðarleysi.

Hæstv. ráðh. gerði lævísa tilraun til þess að villa mönnum sýn um skattpyntingar þær, sem hann hefir í frammi. Það hljómar vel í eyrum kjósenda, að segjast vilja jafna milli stéttanna, og það er sjálfsagt þakklátt að segja kjósendum, að með hækkun tekjuskattsins séu þeir efnameiri látnir borga. En gallinn er bara sá, að tekjuskattshækkunin lendir þyngst á lægri tekjum, og hún lendir að því leyti öll á almenningi yfirleitt, að tekjuskattshækkunin knýr sveitarfélögin til þess að leggja tolla á nauðsynjar almennings. Þetta veit hæstv. ráðh. og fer því með alveg blákaldar og vísvitandi blekkingar í þessum efnum sem fleirum. — Ásakanir hæstv. fjmrh. um alvöruleysi sjálfstæðismanna um tillögur flokksins á sviði fjármálanna eru fullkomlega hlægilegar. Sjálfstfl. ber fram lækkunartill. að upphæð 700 þús. kr. Skattafrv. stj., sem tryggður er framgangur í þinginu, skapa jöfnuð á fjárlögunum. Sjálfstfl. ber fram lækkunartill. að upphæð 700 þús. kr. Verði þær samþ., eru 700 þús. kr. til ráðstöfunar. Þar við má bæta áætluðum gróða af afnámi bannlaganna, sennilega a. m. k. 500 þús. kr. Það eru 1200 þús. kr. Þótt nú teknar séu 900 þús. kr. til skuldaskilasjóðs og Fiskiveiðasjóðs, eru samt eftir 200—300 þús. kr. til að mæta útgjaldatill. einstakra þm.

Það er ekki líklegt, að kornungur sósíalisti geti kennt Sjálfstfl. varfærni í fjármálum, og ég held, að hæstv. ráðh. ætti að hætta að spreyta sig á því.

Hæstv. fjmrh. reyndi að breiða yfir hvarf Framsfl. undir pilsfald sósíalista. Hann sagði: „Málefnasamningurinn er þannig, að tekin eru höfuðatriðin úr stefnuskrá Framsfl. og einnig höfuðatriðin úr stefnuskrá sósíalista. — Svona er samningurinn“, hnykkti ráðh. á. Ó-já, það er nú svo. Alþýðublaðið gat þess, þegar það birti samninginn, að hvert einasta höfuðatriði hinna 14 liða samningsins væri tekið upp úr 4 ára áætlun sósa, og upplýsti um hverja einustu grein, hvar í 4 ára áætluninni hún stæði. Þetta hefir ekki verið véfengt, og er heldur ekki hægt. Nú upplýsir hæstv. ráðh., að þessi 14 stefnuskráratriði sósíalista ná yfir höfuðatriðin í stefnu Framsfl. Svona góða sönnun fyrir staðhæfingu minni um, að Framsfl. væri runninn inn í flokk sósíalista, hafði mér nú ekki tekizt að færa fram, og þakka því hæstv. fjmrh. mjög innilega fyrir ágæta aðstoð.

En eftir þetta vænti ég, að allir skilji, að ég hefi í engu ofmælt um, að Framsfl. sé horfinn inn í sósíalistaflokkinn. Og nú þarf enginn lengur að trúa á grýluna, sem hæstv. ráðh. var að tala um. Nú nægir að trúa ráðh. sjálfum.

Þá ætla ég að víkja máli mínu að hæstv. atvmrh.

Hæstv. ráðh. sagðist vera mér þakklátur fyrir sannar lýsingar á ömurlegu ástandi og döprum horfum íslenzks atvinnulífs. En jafnframt lét ráðh. í ljós undrun yfir því, að ég færði slíkt fram á eldhúsdegi. Ég hlyti þó að skilja, að ekki væri um að sakast við núv. stj., hversu komið væri, en hinsvegar sannaði ræða mín, hversu mikla örðugleika ríkisstj. ætti við að stríða.

Það er nú að vísu snöggur blettur í þessum rökum ráðh., sá, að enda þótt ekki sé um að sakast við þessa hæstv. ríkisstj. sem ríkisstjórn hversu komið er íslenzku atvinnulífi, þá er öllum vitanlegt, að stjórnarflokkarnir hafa á margan hátt skaðað atvinnurekstur landsmanna, og eiga þess vegna sinn mikla þátt í því. hversu komið er. Hirði ég ekki að fara lengra út í þá sálma.

Hitt lýsir ólíku viðhorfi hæstv. ráðh. og mínu til þjóðmálanna, er hann sérstaklega lýsir undrun sinni yfir því, að ég notaði hið sjaldgæfa tækifæri til að ávarpa þjóðina gegnum útvarpið, til þess að tala við hana um kvíðvænlegustu örðugleikana, sem framundan bíða, alveg án hliðsjónar af því, hvort ég gat komið fleiri eða færri höggum á andstæðinga mína.

Enginn viðurkennir fúslegar en einmitt ég, hvílíkum geysilegum örðugleikum valdhafarnir eiga að mæta. En af þeirri staðreynd dreg ég bara allt aðrar ályktanir en hæstv. ríkisstj. Hún safnar saman liði sínu í þetta fylkingu til fullkomins fjandskapar við sérhvern þann, er aðra skoðun hefir í stjórnmálum. Ég aftur á móti tel þetta dauðasök sérhverrar ríkisstj. og krefst þess að stj. finni til ábyrgðar, gæti alls velsæmis og efli til samstarfs meðal beztu krafta þjóðfélagsins til úrlausnar á örðugustu viðfangsefnunum.

Þetta eru tvö gerólík viðhorf til stjórnmálanna á hættutímum þjóðfélagsins.

Mér fannst allt að því slá út í fyrir hæstv. ráðh., þegar hann bar mér á brýn, að með því að viðurkenna örðugleika sjávarútvegsins hefði ég gert eldhúsdag að útvegsmönnum og þeim, er fisksöluna önnuðust. Rétt eins og hæstv. atvmrh. þjóðarinnar einum allra væri ókunnugt um hið lága verðlag íslenzkrar framleiðsluvöru á erlendum markaði. Og rétt eins og hæstv. ráðh., einn allra, gengi þess dulinn, að ofan á þessa örðugu baráttu útvegsins við lágt verðlag framleiðsluvörunnar og dýrleik notaþarfanna, hefir ríkisvaldið, og þá fyrst og fremst stjórnarliðar. beitt svo óhóflegri skattpyndingu, að einsdæmi eru.

Eða var hæstv. ráðh. að gera eldhús að ísl. bændum, þegar hann drap á örðugleika þeirra? Eða var það Samb. íslenzkra samvinnufélaga, sem þeirri árás var beint gegn, af því það annaðist kjötsöluna?

Nei, svona einfeldnislega má ekki yfirmaður hinna sliguðu framleiðenda, sjálfur atvmrh. þjóðarinnar, tala. Ég hefi hvorki ætlað að gera né gert eldhús að útvegsmönnum eða bændum. Hinu neita ég ekki, að mér fannst kenna nokkurs kala í garð útvegsmanna hjá hæstv. ráðh. Hæstv. ráðh. sagði:

„Útvegsmenn hafa eingöngu hugsað um að afla sem mest, og ryðja svo fiskinum á sömu markaði. Einmitt í þessu er skammsýnin og glapræðið mest“.

Þá væru Norðmenn dugmeiri, bætti ráðh. við. Þeir seldu fisk sinn um allar álfur.

Mig undrar það stórlega, að ráðh. verkalýðsins skuli gera það að árásarefni á útvegsmenn, að þeir hafa hagað framleiðslunni með sérstakri hliðsjón af því, að velta sem mestri atvinnu inn í landið. Og mig rekur í rogastanz, ef það í raun og veru er svo, að hæstv. ráðh. veit ekki, að á fáum árum höfum við margfaldað fiskframleiðslu okkar og með einstakri vöruvöndun og fyrir dugnað kaupsýslumannanna tekizt að selja hana alla á beztu mörkuðunum, nefnil. í Suðurlöndum, og með því að hrekja Norðmenn út af þessum mörkuðum. Dugnaðurinn, sem ráðh. var að lofa Norðmenn fyrir, er því dugnaður nöktu konunnar, sem neyðin kennir að spinna, dugnaður þess aðila, sem undir hefir orðið í baráttunni um bezta markaðinn og því verið neyddur til að sætta sig við lélegri markaði og lægra verðlag. En dáðleysið, sem ráðh. vítti Íslendinga fyrir, liggur aftur á móti í því, að hafa barizt til sigurs og sezt að þeim eldinum, sem bezt brann.

Við þetta bæti ég svo aðeins því, að Íslendingar hafa kostað miklu til tilrauna um fisksölu á nýjum mörkuðum og með nýjum verkunaraðferðum. Hefir sumt strandað á fjárskorti, en annað á því, að ríkisstjórnir og bankar keppinautanna taka á sig, þegar þess er þörf, ýmiskonar fjárhagsleg vandkvæði og áhættu af fisksölunni, sem við Íslendingar verðum ekki aðnjótandi. Þannig höfðu bæði hlutafél. Kveldúlfur og Alliance unnið upp mikinn markað fyrir harðþurrkaðan ísl. ufsa í Suður-Ameríku, en urðu að hætta þessari verzlun, vegna þess að bæði Englendingar og Norðmenn buðu mjög langan gjaldfrest, allt að því 12 mánuði, en stjórnarvöld þeirra landa og bankar tóku á sig þá erfiðleika og greiddu framleiðendunum tafarlaust andvirði fiskjarins.

Sömuleiðis hefir Kveldúlfur gert mjög þýðingarmiklar tilraunir um sölu á frystum fiski. Sendi félagið alls um 1500 smálestir af frystum fiski á erlendan markað. Kveldúlf skorti fjármagn til að fylgja þeim tilraunum eftir. Þess vegna hlaut hann venjulegt hlutskipti brautryðjandans og tapaði mörg hundruð þús. króna, en fékk í staðinn mikla reynslu, sem hann er fús að afhenda endurgjaldslaust sérhverjum þeim félagsskap, sem útvegsmenn með frjálsum samtökum koma sér upp til þess að ganga áfram á þeirri braut, sem Kveldúlfsmenn hafa öðlazt alveg bjargfasta trú á, að leiði til blessunar og velfarnaðar fyrir ísl. sjávarútveg.

Sjómenn, útvegsmenn og kaupsýslumenn, sem þrátt fyrir fádæma örðugleika hafa fjórfaldað fiskframleiðsluna á fáum árum og rutt henni braut inn á beztu og verðhæstu markaði heimsins, og samtímis kostað of fjár í margvíslegar tilraunir um framleiðslu og sölu fiskjarins, þurfa því ekki þögulir að drúpa höfði fyrir ádeilu þeirra andstæðinga, sem ekkert lið hafa lagt þjóðinni í baráttunni fyrir tilverunni og ekkert komið nærri framleiðslunni, nema með árásum pennans og tungunnar, og það alveg jafnt, þótt sú rödd hljómi úr sæti sjálfs hæstv. atvmrh. þjóðarinnar.

Það er ekki misskilningur, heldur tilraun til blekkingar, þegar hv. andstæðingar telja, að bágur hagur útvegsins sé gjaldþrotayfirlýsing einkaframtaksins og sönnun um ágæti þjóðnýtingar og einokunar.

Sannleikurinn er sá, að þjóðin á það engu öðru en ágæti og burðarþoli einkaframtaksins að þakka, að enn er þó reynt að berjast í bökkum, og það eru engir aðrir en skammsýnir einokunarpostular, sem trúa því, að einokun á saltfiski og þjóðnýting flotans sé til bóta. Eða hverju ætla menn að bjarga með þjóðnýtingu og einokun? Ætla menn að hækka fiskverðið, eða lækka kolaverðið, eða skatta og tolla, eða vexti og annan tilkostnað? Nei, ekkert af þessu geta menn gert. En hitt, að lækka kaupgjaldið og svipta menn atvinnu, það getur einokun og þjóðnýting gert, og gerir, af því það verður ekki umflúið, vegna þess að mistökin verða fleiri og töpin meiri.

Ég kem þá að því málinu, sem mestu skiptir, máli, sem segja má, að allt velti á um framtíðarvonir Íslendinga, þ. e. a. s. viðreisn sjávarútvegsins og þeim ágreiningi, sem er milli sjálfstæðismanna og stjórnarliðsins um hver ráð liggi að því.

Hæstv. ráðh. varði alllöngum tíma í frumræðu sinni til þess að skýra afstöðu sína til skuldaskilasjóðs og fiskveiðasjóðs. Held ég, að hann hafi farið með rétt mál, en að því leyti óþarft, að það haggaði ekki ummælum mínum. Í 17 daga hugsaði ráðh. málið, og taldi síðan ókleift að lögfesta þau fyrirmæli á þessu þingi, hvað sem öðru liði.

Hæstv. ráðh. ber fyrir sig fjárskort, og telur, að það hafi verið skylda milliþinganefndarinnar í sjávarútvegsmálum að gera uppástungu um tekjuöflun. Ekki gerði kreppunefnd bænda það, og engri ásökun beindi hæstv. ráðh. eða aðrir til hennar út af því.

Ég hefi hinsvegar f. h. Sjálfstfl. lýst yfir, að Sjálfstfl. er reiðubúinn til þess að semja um nýjar álögur að einhverju leyti til að standast tekjumissi ríkissjóðs af þessum lögum, og auk þess ber Sjálfstfl. fram tillögur um 700 þús. króna lækkun á útgjöldum fjárlaganna. Langar mig að spyrja hæstv. ráðh., hvort þau útgjöld séu þarfari heldur en viðreisn sjávarútvegsins.

Ég hefi ekki annað sagt en að mál þessi mæti tregðu frá flokki hæstv. ráðh. En það er líka nóg til að verða þeim að falli. En andann sjá þeir, sem lesa grein Sigfúsar Sigurhjartarsonar í Alþýðublaðinu í gær, þar sem hann er með glósur um, að nú sé verið að kalla á ríkisvaldið til aðstoðar. Hvaða aðstoðar? Aðstoðar til þess að komast undan því, að ríkissjóður gleypi útveginn með húð og hári, leifi a. m. k. hárinu, heimili útveginum að nota útflutningsgjaldið sjálfur, sjálfum sér til viðreisnar.

Ég vil í þessu sambandi aðeins upplýsa hæstv. ráðh. um það, sem hann sýnist ekki hafa vitað, að skýrsla milliþingan. í sjávarútvegsmálum um vexti er ekki nothæf til þess útreiknings, er hæstv. ráðh. byggði á henni, vegna þess að hjá mjög skuldugum fyrirtækjum skar nefndin vextina niður í það, sem hún taldi fyrirtækið geta staðið undir.

Hv. 6. landsk. talaði um tvískipting útgerðarinnar. Hann vildi reyna að ráða bót á þörfum smáútgerðarinnar fyrst, en síðar á þörfum stórútgerðarinnar. Ég get fallizt á þetta til athugunar, þó ég álíti, að það geti verið varhugavert að afskipta stærri útgerð, þegar um fríðindi er að ræða, en hitta hana fyrsta, þegar leita þarf nýrra skatta, ekki vegna eigendanna, heldur vegna þeirra þúsunda, sem á útgerðinni lifa.

Annars er höfuðágreiningurinn milli Sjálfstfl. og stjórnarliðsins þessi:

Við sjálfstæðismenn krefjumst þess, að útvegurinn fái að reisa sig við af sjálfsdáðum. Ráðin eru skuldaskilasjóður, fiskveiðasjóður og lækkað verð notaþarfa útvegsins, einkum olíu. Saltfisksöluna viljum við hafa í höndum S. Í. F., eins og undanfarin ár, en með fiskiráðinu skipa forystu í baráttunni við nýja örðugleika.

Ríkisstj. tekur skuldaskilasjóði og fiskiveiðasjóði ýmist með beinni andúð eða hlédrægri þögn. Hæstv. fjmrh. gekk jafnvel svo langt við 1. umr. málsins, að segja, að þessi frv. væru flutt í gríni, eins og hann orðaði það.

Fiskiráðsfrv. hefir sætt gagnrýni og árásum. Hæstv. atmrh. fann það til foráttu, að fiskiráðið skorti vald. Slík valdalaus nefnd kæmi að engu liði. Þessi hæstv. ráðh. fer með utanríkismálin. Hann hefir við hlið sér nefnd, utanríkismálanefnd. Að lögum hefir hún ekkert vald. En samt sem áður tekur hæstv. ráðh. engar ákvarðanir í utanríkismálum án þess að spyrja þessa nefnd. Og hann spyr ekki bara formsins vegna. Hann, og allir aðrir ráðh., sem með þessi mál hafa farið frá því 1928, að nefndin var stofnuð. hafa undantekningarlítið eða undantekningarlaust farið eftir öllu, sem nefndin hefir lagt til. Hvers vegna? Vegna þess, að nefndin er þannig skipuð, að óskir hennar og vilji eru lög fyrir ráðh.

Sama vakti fyrir mér með fyrirmælum um val fiskiráðsmanna, að óskir þeirra og vilji væru lög fiskframleiðenda. Annars hirði ég ekki að ræða þá hlið málsins, vegna þess að ef orka þótti tvímælis um vald fiskiráðsins, var auðvitað afarauðvelt að ráða bóta á því með breytingum á frumvarpinu. Þetta hefir nú hæstv. ríkisstjórn ekki viljað, en í þess stað borið fram frv. um fiskimálanefnd.

Mér er engin launung á því, að það er skoðun margra sjálfstæðismanna, að þetta frv. sé borið fram í þeim ákveðna tilgangi að koma hér á einkasölu á saltfiski, og á því leikur enginn vafi, að einmitt það vakir fyrir ýmsum þeirra, er að frv. standa. — Hæstv. ráðh. hefir aftur á móti neitað þessu hvað hann sjálfan áhrærir, og vil ég þá ekki gegn yfirlýsingu hans halda því fram, að hann hafi stefnt að þessu marki. Hitt skal ég aftur á móti sýna fram á, að þangað ber hann, hvort sem hann er sér þess meðvitandi eða ekki.

Mér hefir skilizt, að höfuðágreiningurinn milli hæstv. ráðh. og mín sé um það, hvort ákvæði þessa frv. muni styrkja eða veikja Sölusamband ísl. fiskframleiðenda. Ráðh. heldur því fram, að S. Í. F. styrkist. Ég hinu gagnstæða. En báðir erum við sammála um, að S. Í. F. hafi gert þjóðinni hið mesta gagn, og báðir munum við telja líklegt, að leysist S. Í. F. upp, taki einkasalan við fyrr en varir.

Skoðun sína byggir hæstv. ráðh. á því, að í gr. frv. er svo fyrir mælt, að hafi einhver saltfiskútflytjandi umráð yfir 80% af saltfiskframleiðslu landsmanna, þá getur hann orðið aðnjótandi sérréttinda. Það eru þessi sérréttindi, sem ráðherra ætlar, að muni reynast fiskframleiðendum ný hvatning til þess að fylkja sér um S. Í. F. En þetta er ákaflega mikill misskilningur, og ber margt til.

Í fyrsta lagi er það skilyrði sett fyrir slíkum sérréttindum, að S. Í. F. starfi á grundvelli samvinnulaganna frá 1921, eða setji sér a. m. k. lög og reglur, sem nýafstaðinn fulltrúafundur fiskframleiðenda felldi með nær öllum atkvæðum. Þetta eitt og út af fyrir sig nægir því til þess að útiloka S. Í. F. frá öllum sérréttindum, og eru þá þau meginrök hæstv. ráðh. fallin.

En, segir þá hæstv. ráðh.: S. Í. F. getur þó a. m. k. starfað alveg jafnt eftir sem áður. Í frumv. er ekkert, sem á nokkurn hátt getur spillt fyrir starfsemi S. Í. F.

Einnig þetta er líka hinn mesti misskilningur, eins og auðvelt er að sanna með alveg óyggjandi rökum.

S. Í. F. er stofnað fyrir forgöngu Kveldúlfs, svo mér er sæmilega kunnugt um, úr hvaða jarðvegi það er sprottið. Það var fyrst og fremst sú skoðun, að taumlaus samkeppni um fisksöluna leiddi til óbætanlegs böls fyrir framleiðendur, sem því olli, að stærstu fiskkaupmenn landsins voru fúsir til að leggja niður einkaverzlun sína og beittu sér fyrir allsherjarsamtökum um samsölu á fiski.

Mér hefir gefizt ágætur kostur á að fylgjast vel með starfsemi S. Í. F., og veit því sæmilega um kosti þess og galla, styrkleika og veilur. Tel ég óþarft að fjölyrða um þá hlið málsins, að öðru en því, að mér þykir rétt að skýra frá því, að innan vébanda S. Í. F. hafa frá öndverðu verið framleiðendur, sem af ýmsum og ólíkum ástæðum hefðu kosið, að fisksölunni væri hagað með öðrum hætti. Að þeir samt sem áður hafa fellt sig við sitt hlutskipti og falið S. Í. F. sölu síns fiskjar, stafar eingöngu af því, að því nær hver einasti þessara manna, og raunar allra fiskframleiðenda er andvígur einkasölu á saltfiski, og óttast að vonum, að eins muni geta farið um slíka einkasölu og fór um síldareinkasöluna. Hinsvegar óttast þeir líka af fyrri reynslu, að skefjalaus samkeppni um fisksöluna verði framleiðendum til tjóns. S. Í. F. hefir forðað frá voðanum á báða bóga, og í þakklátri viðurkenningu á því gagni, sem S. Í. F. hefir gert, hafa þeir framleiðendur, sem heldur hefðu kosið annað skipulag á fisksölunni, unað hag sínum, af því og á meðan þeir hafa ekki átt völ á neinu öðru skipulagi, sem þó skapaði sama öryggi og S. Í. F. gegn afleiðingum taumlausrar samkeppni eða einkasölubölinu. — Svona hefir þetta verið. En nú breytist þetta.

Með ákvæðum 4. gr. frv. er sérhverjum þeim, sem vill sprengja S. Í. F., beinlínis boðið upp á sérréttindi. Þar er svo fyrir mælt, að sá, sem hefir umráð yfir 20 þús. skpd. fiskjar, á kröfu á því að verða löggiltur fiskútflytjandi. Hefir hæstv. ráðh. skýrt frá því, að hann hugsi sér aðeins fámennan hóp löggiltra fiskútflytjenda, og fái þeir einir og engir aðrir sérleyfi til að flytja út allan fiskinn, en fiskimálanefnd ákveði verðlag og skapi að öðru leyti öryggi um þessa verzlun fyrir þá, sem hana reka.

Með þessu, með því að bjóða í senn öryggi og sérréttindi, held ég, að hæstv. ráðh. hafi tekizt að finna agn, sem mörgum verður á að gleypa, og a. m. k. nægilega mörgum til þess að S. Í. F. er úr sögunni, enda er það ósköp eðlilegt, að menn velji það skipulagið, sem rýmst er og mest athafnafrelsi leyfir, ef öryggið er jafnt. Og þótt ég sé þeirrar skoðunar, eins og ég síðar skal víkja nánar að, að hinir löggiltu sérréttindamenn muni ekki eiga sér langan aldur, heldur sogast fyrr en varir ofan í hyldýpi einokunarinnar, þá veit ég, að í öndverðu er skoðun manna á þessum efnum skipt, og trú margra á varanleik þessara fáu löggiltu útflytjenda meiri en mín. En einmitt af því stafar voðinn.

Mér er þess vegna alveg ljóst, að hæstv. ráðh. með þessu hefir komið S. Í. F. fyrir kattarnef. Nægi það ekki, hefir ríkisstj. hugsað fyrir varaliði í herferðinni gegn S. Í. F.

Í 5. gr. frv. stendur:

„Þeir, sem samkv. 4. og 5. gr. fá löggildingu nefndarinnar sem útflytjendur, verða að skuldbinda sig til að hlíta fyrirmælum hennar um framboð og lágmarksverð á fiski, sem seldur er til útlanda, um skiptingu markaðsstaða, útflutningstíma, afhendingu gjaldeyris og annað það, sem nefndin setur að skilyrði fyrir veitingu útflutningsleyfa samkv. lögum þessum“.

Bið ég nú hv. hlustendur að athuga, að fiskimálanefndin, sem á að hafa allt þetta vald, er skipuð 7 mönnum, og er vali þeirra þannig hagað, að meiri áherzla virðist hafa verið lögð á að tryggja rauðan flokkslit en fagþekkingu. Þessa nefnd, svona skipaða, á S. Í. F. nú fyrst að biðja um löggildingu. Segjum, að þessari Rauðku þóknist að veita það. Hvað er þá fengið? Hverju mega þeir Richard Thors, Ólafur Proppé, Kristján Einarsson, Magnús Sigurðsson og Helgi Guðmundsson þá ráða? Ekki mega þeir bjóða út fisk nema með leyfi Rauðku. Ekki verðleggja hann, nema með leyfi Rauðku. Ekki ráða, í hvaða markaði hann fer, nema með leyfi Rauðku. — Hafi nú Rauðka allra mildilegast leyft sölu og ákveðið verðið og markaðslandið, þá mega samt sem áður fyrrnefndir fimm trúnaðarmenn fiskframleiðenda ekki ofmetnast og halda, að þeir ráði öllu. Enn er nefnil. eftir að spyrja Rauðku, hvenær senda megi fiskinn og hvað hún vilji, að gert sé við andvirðið. Loks mega fimmenningarnir ekki gleyma, um leið og þeir kveðja þennan valdamikla húsbónda, að spyrja, hvað „annað“ húsbóndinn setji að skilyrði fyrir útflutningsleyfi.

M. ö. o.: fimmmenningarnir eru með þessum lögum algerlega sviptir öllu valdi. Ég verð því að telja alveg víst, að þeir reynist ófáanlegir til þess að starfa áfram sem einskonar vikadrengir hjá Rauðku, enda væri það siðferðislega rangt af þeim. Margir framleiðendur, sem borið hafa og bera traust til þeirra, mundu ef til vill fela þeim umboð sín áfram. Móti slíkum umboðum geta fimmmenningarnir ekki tekið, blátt áfram af því, að vald Rauðku tekur öll ráð úr þeirra höndum, og þekking þeirra og vit veitir því alls enga tryggingu fyrir sæmilegum árangri, en það er einmitt sú þekking og það vit, sem framleiðendur ætla að fela forsjá sinna mála með því að fá fimmmenningunum umboð sín. Það væri því hrein og bein blekking við þá framleiðendur, sem ekki eru nægjanlega kunnugir hinni nýju löggjöf, ef fimmmenningarnir tækju við umboðunum. Hinir, sem þekkja, hvernig allt er í pottinn búið, vita, að slíkt umboð er þýðingarlaust, og bjóða það því ekki fram.

Ákvæði 5. gr. um fullkomin yfirráð fiskimálanefndar mundu því ein og út af fyrir sig fella S. Í. F. að velli.

Það er því ekki eitt, heldur margt, sem veldur, að fyrsta afleiðing af þessu frv. ríkisstj. verður sú, að S. Í. F. hverfur úr sögunni, og hæstv. ráðh. getur verið alveg rólegur um það, að S. Í. F. verður ekki kviksett.

Með því að hampa löggildingu og sérréttindum til útflutnings framan í þá, sem ráða yfir 20 þús. skpd., og með því að gera fimmmenningana, sem stjórna nær allri fisksölunni, að valdalausum vikadrengjum fiskimálanefndar, hefir ráðh. áreiðanlega tekizt að ganga frá S. Í. F. steindauðu. Og hafi hæstv. ráðh. gengið þess dulinn, hefir hann látið aðra hugsa þetta mál fyrir sig, og verið einstaklega slysinn í valinu.

Hv. frsm. tók að sér það göfuga hlutverk að rægja S. Í. F. og fór í því skyni alrangt með heimildir. Kvað hann heila landshluta hafa orðið afskipta með útflutning, og vitnaði í því skyni í ræðu form. S. Í. F., Rich. Thors. Sleit hann þar út úr samhengi allt, sem verða mátti málstað hans til stuðnings, en sleppti öllu öðru. Á morgun mun ég leggja fram skýrslu, er sýnir útflutninginn eftir fjórðungum, svo hljóðandi:

Austfirðingafjórðungur ........ 51%

Vestfirðingafjórðungur ........ 62 —

Norðlendingafjórðungur ........ 52 —

Sunnlendingafjórðungur .........68 —

Þá vildi hann reyna að gera h/f Kveldúlf tortryggilegt í sambandi við sölu á Barcelona-markaði, og gaf í skyn, að af 4800 t. hefði Kveldúlfur átt 4000 t. Þetta er rangt. Kveldúlfur átti einungis 1400 t., og það svo mikið af því, að hann hafði yfir að ráða fiski, sem mest var eftirsóttur á þessum markaði.

Þegar nú S. Í. F. er dautt, munu ýmsir byggja vonir sínar á takmörkuðum fjölda löggiltra útflytjenda. Ég vil ekki bregðast þeirri skyldu að segja sem er, að ég er öldungis sannfærður um, að það er a. m. k. mjög miklum vandkvæðum bundið, að samræma sölutakmarkanir í neyzlulöndunum við það skipulag, svo að allir framleiðendur geti sæmilega við unað. Og áreiðanlega verður það ekki reynt til lengdar undir forystu ráðh., sem trúir á ágæti ríkiseinkasölunnar. Það mun reynslan sýna.

Ég er því alveg sannfærður um, að frá banabeði S. Í. F. eru ekki nema örfá spor yfir í vöggu einkasölunnar, en þaðan eru aftur örfá skref yfir í rústirnar. Þetta er skoðun okkar sjálfstæðismanna, og raunar margra annara líka. Hæstv. ráðh. tekur á sig þunga ábyrgð, með því að beina saltfiskverzluninni inn á þessa braut, mjög þunga.

Og hvaða ástæða var til þess? Undanfarin 3 ár hefir S. Í. F. haft nær alla saltfiskverzlunina með höndum. Milljónatugi hefir þjóðin grætt á þeirri starfsemi. Nú fyrir tæpum mánuði kom í fyrsta skipti saman fulltrúafundur. Hann samþykkti ný lög og starfsreglur fyrir S. Í. F. Umboðsmenn fyrir yfirgnæfandi meiri hluta framleiðenda og framleiðslu voru ánægðir, og sá fulltrúinn sem helzt deildi á S. Í. F., sagði, að S. Í. F. „hefði verið og ætti að vera sverð og skjöldur framleiðenda“, svo ég noti hans eigin orð, og að „Austfirðingar mundu ekki leggja það versta til málanna, þegar til kæmi að halda utan um samtökin“, bætti hann við.

Ekki svo mikið sem ein einasta rödd mælti einkasölunni bót. Ofan á þetta kemur svo hæstv. ráðh. með einkasöluna sína. Af hverju? Af því að umboðsmenn fyrir örlítið brot framleiðendanna urðu undir með tillögur sínar, vildu um starfsreglur S. Í. F. ganga lengra en gert var, í áttina til samvinnufélaganna. Þessa menn skorti mýkt til að beygja sig, biðlund til að bíða eftir þeirri þróun, sem reynslan sýndi farsælasta.

Af þessum ástæðum á nú að svínbeygja hinn stóra meiri hluta til hlýðni við hinn litla minni hluta, enda þótt fyrirsjáanlegt sé, að af því leiði einkasala á saltfiski. Er það mikill kjarkur, meðan ekki er moldað hræið af síldareinkasölunni, þeirri þjóðarskessu, sem alla húðfletti og mergsaug, sem nærri henni komu, en steyptist síðan fyrir björg með háðung og skömm. Var afkoma síldareinkasölunnar svo bág og bölvuð, að enda þótt sjómenn hefðu gefið alla vinnu sína og útgerðarmenn lánað skip sín endurgjaldslaust og staðizt þó allan kostnað við rekstur þeirra í heilar tvær vertíðir, þá hefði þetta fyrirtæki samt orðið gjaldþrota.

Þetta er ekki fordæmi að fylgja. Þetta er víti til að varast, og ég játa, að mig brestur kjark til að horfast í augu við framtíðina, ef eins hörmulega skyldi takast um fisksöluna.

Ég sagði áðan, að hæstv. ráðh. tæki með þessu á sig þunga ábyrgð — mjög þunga. Slík ábyrgð reynist ef til vill ekki of þung hæstv. forsrh. eða hæstv. fjmrh. En hún mun reynast of þung sérhverjum hugsandi manni, er finnur til áábyrgðar.

Mér kemur því ekki á óvart, þótt þær drápsklyfjar sligi hæstv. atvmrh. áður en lýkur.