26.11.1934
Sameinað þing: 13. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 160 í B-deild Alþingistíðinda. (251)

1. mál, fjárlög 1935

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Ég held, að ég verði að láta Bændaflokksmenn mæta afgangi, en víkja strax að því, sem ég tel aðalatriði útvarpsumr. þeirra, sem hér fara fram.

Á ég þar við fullyrðingar hv. þm. G.-K. í sambandi við fyrirætlanir Alþfl. og Framsfl. um aðstoð við útgerðina til að koma skuldamálum hennar í lag, og svo um afurðasöluna. Hv. þm. sagði, að kaldyrði hefðu fallið frá mér í garð útgerðarinnar. Það er fjarstæða. Ég játaði, að lýsing hans á erfiðleikum útgerðarinnar væri í aðalatriðum rétt. En ég tók það fram, að ekki mætti gefa stj. sök á þessu, heldur þeim, sem stjórnuðu þessum málum, dáendum einkaframtaksins og hinnar frjálsu samkeppni.

Hv. þm. sagði, að það væri ekki útgerðarmönnum að kenna, hvernig komið væri, heldur skattaáþjáninni, sem útgerðin hefði orðið fyrir. Þetta er ekki nema hálfur sannleikur. Það er ekki hægt að segja, að þessi atvinnuvegur sé skattpíndari en aðrir, a. m. k. ekki að því, er kemur til tekju- og eignarskatts þess, sem við Alþfl.menn höfum að stefnuskráratriði og aðeins er lagður á skuldlausar eignir. Um útflutningsgjöldin gegnir að vísu nokkuð öðru máli, því að þau eru á lögð án tillits til efnahags, en þau höfum við Alþfl.menn alltaf barizt fyrir að fá lækkuð. — Ef segja skal allan sannleikann, verður meira að fylgja. Stjórnendur útgerðarmálanna hafa öðrum fremur leyft, að fé væri dregið frá útgerðarfyrirtækjunum og lagt í allt annað en útgerð. Ég nefni eitt dæmi, þó að það sé skylt hv. þm. G.-K., og vil ég þó engan veginn sveigja að hans fyrirtæki sérstaklega. Þetta fyrirtæki hefir tekið fé, svo hundruðum þús. skiptir, og lagt í stofnun landbúnaðarfyrirtækis uppi í sveit. Þó að ekki sé nema gott um það að segja, að jörðin sé ræktuð, þá er það skammsýni ein að draga fé frá þurfandi fyrirtækjum og leggja í önnur. Afrakstur útgerðarinnar hefir verið lagður í húsabyggingar og annað, sem ekki kemur útgerðinni beinlínis við. Það tjáir að vísu ekki að fást um það, sem orðið er, en það verður að segja allan sannleikann.

Ég gerði samanburð á okkur og Norðmönnum. Hv. þm. sagði, að fyrir dugnað íslenzkra útgerðarmanna hefðu Norðmenn verið hraktir af hverjum markaðinum eftir annan, svo að þeir hefðu neyðzt til að leita annara markaða, þar sem verðlag var lægra, þeir hefðu jafnvel orðið að taka upp nýjar verkunaraðferðir, til að verða samkeppnisfærir. Þarna er heldur ekki sagður nema hálfur sannleikurinn. Er enginn vafi á, að fleiri rök liggja hér að en þau, að íslenzkir útgerðarmenn hafi bolað Norðmönnum af markaðinum. Norðmenn hafa séð, að þeim var knýjandi nauðsyn að verka fiskinn betur, til þess að geta fengið sæmilegt verð fyrir hann erlendis, og selja þá heldur minna til annara landa. Það hafa þeir gert. Og þó er nú svo komið, samkv. orðum hv. þm. og þrátt fyrir allan dugnaðinn, að útgerðin er orðin öreiga vegna hins lága verðs. Og nú erum við til neyddir að gera sömu tilraunir og Norðmenn gerðu áður en þeirra útvegur var þannig kominn. Það er glapræði að binda markað sinn við 3 lönd, eins og hér hefir verið gert, og eiga svo ekki í annað hús að venda, ef þau bregðast. Það var heldur ekki laust við, að hv. þm. viðurkenndi þetta, þó að hann staðhæfði í hinu orðinu, að útgerðarmenn hér hefðu ekki vanrækt að leita nýrra markaða, benti t. d. á, að Kveldúlfur hefði varið mörgum hundruðum þúsunda til að leita nýrra markaða fyrir hraðfrystan fisk. En þetta sannar betur en nokkuð annað, hver nauðsyn er á að breyta til um sölu þessara afurða. En ef nauðsyn er á að koma fiski vorum hraðfrystum á markaðinn, þá er engin von til, að einn útflytjandi geti tekið á sig slíkar tilraunir. Kveldúlfur hefir lagt í þetta svona mikið fé, af því að hann hugsaði sér að skapa sér með þessum hætti gróðavænleg sambönd. En það er ekki þetta, sem þjóðinni er mest nauðsyn á. Ef útgerðarmönnum var þessi nauðsyn ljós, var þeim skylt að leita til hins opinbera um styrk til slíkra hluta, og búa svo um, að allir gætu notið þess árangurs, sem næðist. En það var ekki tilgangurinn. Þetta var hugsað sem fjárgróðamöguleiki eins hlutafélags, en ekki sem hagnaður fyrir þjóðina, og þegar tilraunir þessar báru ekki tilætlaðan árangur, voru þær látnar niður falla. Það var ekki leitað til þingsins, enda þótt fyrir væri fordæmi S. Í. S. um markaðsleit á frystu kjöti í Englandi, og styrkveitingu til félagsins í því skyni. Eins er um það, sem hv. þm. sagði, að félag hans hefði áður flutt 1500 tonn af saltfiski til Suður-Ameríku, en orðið síðan að hætta við það, vegna þess, að Norðmenn gátu boðið betri kjör. Hví leituðu þeir ekki til hins opinbera um fjárstyrk, til að geta haldið áfram? Þeir óttuðust, að ef ríkið gengi í þessa ábyrgð, þá yrðu þau skilyrði sett, að allir gætu notið þess markaðar, sem þarna yrði varðveittur, en þess óska þeir ekki.

Þetta er meginmunurinn á skoðunum hv. þm. og mínum. Hann telur einkaframtakið hafa leyst vandræðin ágætlega. En reynslan hefir sýnt, að það er ekki fært um að leysa þau, og þetta hefir líka hv. þm. sýnt í ræðu sinni.

Þá vík ég nokkrum orðum að skuldaskilasjóði útgerðarmanna. Verð ég að segja, að ég harma það mjög, hvernig hv. sjálfstæðismenn hafa flutt þetta mál. Þeir halda því t. d. fram, að stjórnarflokkarnir séu andstæðingar málsins. Slíkt er mjög óheilbrigt. Þá vil ég geta þess, að einn af hv. flm. þessa frv. flytur jafnframt annað frv., þar sem gert er ráð fyrir, að fé því, er verja skyldi til skuldaskilasjóðs, sé jafnframt varið til annara hluta.

Ég vil þó vona, að lánast megi a. m. k. að koma skuldaskilum bátaútvegsmanna í sæmilegt horf. Um það, hvers vegna ég óska, að þetta sé þannig klofið í sundur, leyfi ég mér að vísa í ræðu hv. 6. landsk. Verður að taka tillit til þess í þessu máli, hvort um einstaklinga er að ræða eða fyrirtæki með miklu hlutafé og sterkum mönnum, er að þeim standa.

Í sambandi við þær fullyrðingar, að bændan., sem flutti frv. um kreppulánasjóð, hafi ekki gert ráð fyrir tekjuöflun til að mæta gjöldunum, vil ég geta þess, að þar er tvennu ólíku saman að jafna. Til kreppulánasjóðs eru nú í fjárl. áætlaðar 250 þús. kr., en í frv. um skuldaskilasjóð er gert ráð fyrir 1 millj. kr. útgjöldum þegar á 1. ári. Og þó að skuldaskil séu nú mjög aðkallandi fyrir útgerðina, þá er þetta þó ekki aðalatriðið. Aðalatriðið er, að það takist að tryggja reksturinn þannig, að hann beri sig ár frá ári og velti ekki upp á sig skuldum jafnóðum. Ég vil benda hér á þýðingarmikil atriði eins og sameiginleg innkaup á nauðsynjum útgerðarinnar, svo sem salti, olíu og veiðarfærum, sameiginlegar lántökur og svo það, sem er aðalatriðið: afurðasöluna.

Hv. þm. G.-K. fullyrti, að frv. hans um fiskiráð væri viturlegasta lausn málanna, sem bent hefði verið á. Þetta er alveg rangt. Ég skal lesa frv. í meginatriðum. Þá er fyrst um verkefni fiskiráðs. Í 2. gr. frv. stendur:

„Verkefni fiskiráðsins er að rannsaka og gera till. um breyttar og nýjar aðferðir um framleiðslu og sölu sjávarafurða, útvegun nýrra markaða og annað, sem lýtur að vexti og viðgangi sjávarútvegsins“.

Í ræðu sinni við eldhúsumr. á föstudaginn var komst hv. þm. aftur á móti svo að orði:

„ .....Margt af því, sem þar er nefnt, hafa menn skrafað um sín á milli og verið sammála um, að rétt væri að reyna. En við það hefir líka setið. En nú er svo komið, að ekki dugir lengur að láta við svo búið standa. Nú verða athafnir að fylgja orðum, nú verða Íslendingar að leggja inn á nýjar leiðir í meðferð, hagnýtingu og sölu sjávarafurða. Í þessu skyni verður tafarlaust að hefja skipulagðar, víðtækar og e. t. v. fjárfrekar tilraunir undir forystu vitrustu og fróðustu manna á þessu sviði“.

Hv. þm. segir réttilega, að nú dugi ekki orð eða skraf eða skrif. En samt ætlast hann til, að málunum verði við bjargað með því að setja niður n., sem hefir ekki vald til þeirra athafna, sem hann viðurkennir þó, að nauðsynlegar séu. Hv. þm. segir, að starf þessarar n. eigi að vera hliðstætt starfi utanríkismálan. Slíkt er fjarstæða. Utanríkismálan. hefir ekkert framkvæmdavald, en það verður sú n. að hafa, sem á að skipa málum útvegsins.

Ég skal ekki hallmæla sölusambandi íslenzkra fiskframleiðenda. Það hefir gert mikið gagn. En hitt dreg ég enga dul á, að ýmsar misfellur hafa orðið á starfi þess. Það hefir t. d. verið illa séð, að þar þurfa til þess setið sjálfkjörnir framkvæmdarstjórar.

Um þau orð hv. þm. G.-K., að hv. 6. landsk. hafi farið með róg um fisksölusambandið, vil ég segja það, að þetta eru óverðskulduð ummæli. En mér er hinsvegar kunnugt um, að mikil óánægja hefir verið yfir því í ýmsum landshlutum, hvernig útflutningnum hefir verið niður skipt af hálfu samlagsins. Og þótt hv. þm. vilji draga úr þessu með því að nefna hlutfallstölur, sem eflaust eru réttar, þá er um það að segja, að slíkar tölur sýna lítið, meðan ekki er upplýst, hver leggur inn fisk þann, sem seldur er.

Sölusambandið hefir nú starfað í 3 ár, en það hefir engar tilraunir gert um nýjar verkunaraðferðir eða opnun nýrra markaða. Skal ég kalla til vitnis Richard Thors, aðalfulltrúa sölusambandsins. Á fulltrúafundi sölusambandsins 31. okt., þar sem fulltrúi frá Austfjörðum leggur fram till. þess efnis, að haldið verði áfram tilraunum um útflutning á hraðfrystum fiski, segir Richard Thors, að varla væri hægt að vænta þess, að stjórn S. Í. F. gæti styrkt þessa framkvæmd sem nokkru næmi. Hún hefði ekki annað fé til umráða en þau 2%, sem henni væru ætluð til þess að standast kostnað af rekstri fyrirtækisins. Ef tilraunin ætti að verða annað en hreint kák, yrði hún mjög fjárfrek, og hætt við, að þessi útflutningur gæti ekki orðið arðberandi fyrst um sinn. Líklegt væri, að verðjöfnunarsjóður tæki bráðlega til starfa, og mundi þetta frekar heyra undir starfssvið hans.

Það sama áréttar svo annar fulltrúi, og svarar Richard Thors því:

„Stjórn S. Í. F. hefir ekki vald til að styrkja slíka tilraun sem þessa“.

Síðan las hann upp 13. gr. bráðabirgðafyrirmælanna um starfsemi S. Í. F., sem er á þessa leið:

„Til þess að standast kostnað af rekstri félagsins, launum stjórnenda, skrifstofuhaldi etc., skal stjórninni heimilt að halda eftir af brúttóverði alls selds fiskjar 2% — tveim af hundraði. Ef ástæður leyfa, er stjórninni heimilt að verja einhverjum hluta þess fjár, er þannig aflast, til að greiða bætur út af fiskkaupum, ef þeim er þannig varið, að félagsmanni verið ekki gefin sök á skaðanum. Verði afgangur af fé þessu að starfstíma félagsins loknum og allur kostnaður hefir verið greiddur, skal skipta honum milli félagsmanna í réttu hlutfalli við andvirði þess fiskjar, er þeir hafa selt, fyrir milligöngu félagsstjórnarinnar“.

Af þessu er það ljóst, að það er ekki tilgangur sölusambandsins að gera slíkar tilraunir, því að slíkar tilraunir verða ekki gerðar nema af stofnun, sem hefir vald. Og þetta er verkefni fiskimálan. Í 2. gr. frv. um fiskimálan. segir svo:

„Fiskimálan. hefir með höndum úthlutun verkunarleyfa og útflutningsleyfa á fiski og löggildir saltfiskútflytjendur. Hún skal gera ráðstafanir til þess, að gerðar séu tilraunir með nýjar veiðiaðferðir og útflutning á fiski með öðrum verkunaraðferðum en nú eru mest tíðkaðar. Hún skal hafa forgöngu um markaðsleit og tilraunir til að selja fisk á nýja markaði og annað það, er lýtur að viðgangi sjávarútvegsins. Getur ríkisstj. veitt n. fé úr markaðs- og verðjöfnunarsjóði í þessu skyni með samþykki sjóðsstjórnarinnar“.

Þetta er verkefni n., og er það annað og meira en að hafa yfirumsjón með saltfiskútflutninginum, sem ætlazt er til, að sé í höndum eins af aðalsaltfiskútflytjendunum, ef hann vill gangast undir skilyrði þau, sem til eru tekin í 4. gr. frv., en þar segir:

„Félagið skal vera opið öllum fiskframleiðendum, þannig, að félög þeirra, sem ná yfir eina eða fleiri veiðistöðvar eða tiltekið svæði, hafi rétt til þátttöku og sendi fulltrúa á fundi þess. Útgerðarmenn og útgerðarfélög, sem ráða yfir 3000 skpd. saltfiskjar eða meiru, skulu eiga rétt á að gerast meðlimir og mæta eða láta mæta á fundum félagsins. Æðsta vald í félagsmálum sé hjá félagsfundum. Við kosningu fulltrúa til félagsfunda skal hver þátttakandi hafa atkvæðisrétt, er eigi miðast nema að nokkru leyti við fiskmagn. Sama gildir og um atkvæðisrétt á félagsfundum, enda fari þar enginn með meira en 1/20 af atkvæðamagni félagsins fyrir sjálfan sig og aðra“.

Ef nokkuð er að marka orð hv. þm., þá vil ég ekki trúa því, að hann eða hans flokksmenn vilji ekki sætta sig við þessa skipun málanna. Ef svo er, hlýtur eitthvað annað að liggja á bak við en hann vill láta í veðri vaka.

Hv. þm. segir, að þetta frv. sé borið fram til þess að sprengja fisksölusamlagið, að það muni freista þátttakenda til að slíta öllu sambandi við samlagið. En þær freistingar eru þá eins til nú þegar.

Þegar kemur fram á næstu vertíð, á þá að leyfa öllum að verka eins og þeim sýnist og selja fisk til Suðurlanda? Á að láta þetta reka á reiðanum, þó að vitanlegt sé, að þessi lönd geta ekki tekið við öllum þeim fiski, sem við getum haft á boðstólum?

Hv. þm. varð tíðrætt um, að þetta fyrirkomulag mundi sliga atvinnuvegina. Mér er fullkomlega ljós sú ábyrgð, sem á stj. hvílir í þessu efni. En málinu verður ekki bjargað með því að láta reka á reiðanum. Það er einmitt það, sem þessi hv. þm. vill, þrátt fyrir hjal hans um nauðsyn á umbótum, að allt sé látið reka á reiðanum eins og áður. En nú er ekki tóm fyrir meiningarlaust skraf um þessa hluti; hér er fyrst og fremst þörf á athöfnum. Það er knýjandi nauðsyn að hefjast handa um breyttar og bættar verkunaraðferðir, útvegun nýrra markaða og skipulag á sölunni. Ég skal aðeins drepa á till. mína um útnefningu manna í fiskimálanefnd. Sú nefnd skal vera þannig skipuð, að Landsbankinn tilnefnir einn manninn, Útvegsbankinn annan, Félag botnvörpuskipaeigenda þann þriðja, Fiskifélagið þann fjórða, sá fimmti skal skipaður af Sambandi ísl. samvinnufélaga, sá sjötti af Alþýðusambandi Íslands, og hinn sjöundi af atvmrh. Ég skýt því undir dóm hlustenda, hvort verr mundi séð fyrir skynsamlegri forstöðu þessara mála eftir mínum till. heldur en eftir till. andstæðinganna í frv. um fiskiráð.