12.11.1934
Efri deild: 36. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1945 í B-deild Alþingistíðinda. (2511)

114. mál, lögreglustjóri í Ólafsfirði

Þorsteinn Þorsteinsson:

Ég skal ekki lengja mikið umr. — Ég hjó eftir því hjá hv. frsm. n., að nú væri launamálanefnd e. t. v. með nýjar till. í uppsiglingu. En einmitt þess vegna er meiri ástæða til að hika við að stofna þessi nýju embætti og hafa það óbundið þangað til till. n. eru komnar fram. Ef búið væri að staðfesta l., sem færu svo í bág við till. n., þá væri betur heima setið en af stað farið.

Um kauptúnin, sem á eftir koma, hygg ég, að manni sé óhætt að spá, að þau, sem hafa yfir 500 íbúa, komi næst. Ég tel alveg vafalaust, að það kemur fjöldinn allur af kauptúnum á eftir, því oddvitar verða tregari til þess að taka að sér embættið eftir því sem harðnar um hjá hreppunum að geta lagt fram fé og staðið í skilum. Það verður því alltaf leiðin að leita til ríkisins og skipa nýja embættismenn.

En ég vil endurtaka það, sem ég sagði áðan, að andstaða mín byggist alls ekki á því, að ég álíti Ólafsfjörð neitt óverðugri þess að fá lögreglustjóra en önnur kauptún.