11.12.1934
Neðri deild: 56. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1949 í B-deild Alþingistíðinda. (2524)

114. mál, lögreglustjóri í Ólafsfirði

Frsm. minni hl. (Bergur Jónsson) [yfirl.]:

Út af því, sem hv. frsm. meiri hl. var að tala um, að það væri léttir fyrir sýslumennina að fá þessa aðstoð í starfi sínu, skal ég aðeins geta þess, að ég lét það ekki hafa nein áhrif á afstöðu mína. Það gæti náttúrlega verið þægilegt fyrir mig að fá svo sem þrjá lögreglustjóra í þorpin í minni sýslu, en ég tel, að menn verði líka að líta á þann kostnað, sem af slíku mundi leiða, og mér sýnist ástæðulítið að vera þannig að hrúga upp embættum, sem vel má komast hjá. Það má vel vera, að Ólafsfjörður hefði einhver þægindi af þessu fyrirkomulagi, en ég býst við, að fleiri kröfur mundu koma á eftir, og gæti þá orðið erfitt að ákveða, hvar staðar skyldi nema.