11.12.1934
Neðri deild: 56. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1949 í B-deild Alþingistíðinda. (2525)

114. mál, lögreglustjóri í Ólafsfirði

Frsm. meiri hl. (Garðar Þorsteinsson) [óyfirl.]:

Viðvíkjandi kostnaðinum, sem af þessu myndi leiða, vildi ég aðeins taka það fram, að þó að því sé slegið föstu á pappírnum, að þarna skuli greiddar 2000 kr. í árslaun, þá er það ekki svo að skilja, að það þurfi endilega að vera þau raunverulegu útgjöld, sem af þessu leiðir. Á það verður að líta, að með þessu fyrirkomulagi getur ríkissjóði sparazt allmikið á öðrum liðum, t. d. ferðakostnaður sýslumanns. Bátur af Akureyri út í Ólafsfjörð kostar ekki minna en 100 kr., og slíkan kostnað mætti oft spara. Það gæti líka verið gott fyrir ríkissjóð að hafa mann á staðnum til að annast fleiri störf, sem annars þyrfti að kaupa mann til. Það má vel vera, að kröfur um þetta komi úr fleiri kauptúnum, en Alþingi hefir nú þegar gefið tvö fordæmi, og virðist þó nauðsynin ekki hafa verið eins brýn, t. d. um Keflavík. Þangað má komast á einum klukkutíma úr Hafnarfirði í bíl, en ferð frá Akureyri til Ólafsfjarðar tekur marga klukkutíma á mótorbát. Auk þess getur sýslumaðurinn átt á hættu að verða þar veðurtepptur í marga daga, svo að þetta þolir engan samjöfnuð. Svipað hygg ég, að megi segja um Bolungavík, svo að ef þörf hefir verið á að setja sérstakan lögreglustjóra í þau þorp, sem þegar hafa fengið þessa heimild, þá er sú þörf vissulega miklu ríkari að því er snertir Ólafsfjörð.