26.11.1934
Sameinað þing: 13. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 170 í B-deild Alþingistíðinda. (254)

1. mál, fjárlög 1935

Þorsteinn Briem:

Herra forseti! Mér þykir það hlýða að ávarpa forseta Sþ. einmitt í upphafi að þessum umr. Þ. e. a. s. 4. landsk., út af orðum, sem hann var að kasta til mín í dag. Ég vil mótmæla þeim ummælum hv. 4. landsk., að ég hefði í sumar tekið að mér fréttaflutning útvarpsins. Ég gerði ekki annað en það, að ég bað form. útvarpsráðs að láta mig vita eða vegamálastjóra, ef Alþýðusambandið bæði útvarpið að flytja fregnir af vegavinnudeilunni, og er það aðeins samkv. reglum útvarpsins um fréttaflutning, að báðir aðilar séu heyrðir áður en útvarpið flytur fregnir, sem ágreiningur er um. Ég vil líka nota þetta tækifæri til þess að mótmæla þeim óverðskuldaða og vísvitandi ósanna áburði Alþýðublaðsins og annara á vegamálastjóra, fyrir falskar skýrslur í sambandi við vegavinnudeiluna. Þetta eru því ósæmilegri ummæli, þar sem vegamálastjóri er viðurkenndur einhver reglusamasti og samvizkusamasti embættismaður þessa lands. Þegar um kaupdeiluna í vegavinnunni var að ræða, leit ég á það mái frá sjónarmiði bænda, sem flestir þurfa að kaupa út vinnu að einhverju leyti. Það eru fæstir þeirra, sem enga vinnu þurfa að kaupa. Ég vildi láta héraðsstjórnirnar hafa tillögurétt um vegakaupið og fylgdi í því þeirri gömlu reglu að láta sýslunefndir í héruðum ákveða vegakaupið í sýsluvegunum og miða kaupið í þjóðvegunum í sveitunum við það, en borga 5 aurum hærra í fjallvegum. En þá hófst vinnudeilan, ef deilu skyldi kalla. Það var ekki nema eðlilegt, þó hv. 4. landsk. þættist þurfa að taka til máls til þess að sýna, að hann hefði þó reynt að standa í ístaðinu eftir því sem hann var maður til. Jafnframt býsnaðist hann mikið yfir því, að ég væri mótfallinn verkamönnum, og vildi sýna, að ég væri þeim óvinveittur. En ég veit, að hv. þm. meinar þetta ekki. Um þessi mál voru aldrei neinir samningar gerðir, aðeins lauslegt samtal, svo hv. 4. landsk hefir þar ekki af miklu að státa. Áður en „verkfallið“ hófst hafði ég sagt hv. 4. landsk., að ég ætlaði að ákveða vegavinnukaupið 80 aura í sveitum, og leiddi þá af sjálfu sér samkv. venju, að það yrði 5 aurum hærra í fjallvegum. Það vill nú svo vel til, að ég get sannað, að ég var búinn að láta vegamálastjóra fá tilkynningu um, að þetta kaup yrði greitt, og biðja hann að benda tilkynninguna um kaupið til fulltrúa sinna og verkstjóra úti um land, áður en Jón Baldvinsson talaði við mig á föstudag 8. júní kl. 11 f. h., en þá áttu þessir „samningar“ að hafa byrjað. Höfðu símskeytin verið send um þetta þá um morguninn, sum kl. 8.15 og sum kl. 10.15. En vitanlega höfðu þau verið afgreidd frá skrifstofu vegamálastjóra daginn áður. Ég hefi hér fyrir framan mig staðfest afrit af nokkrum þessum símskeytum, sem ég skal, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp. — Ég hafði þau ekki hjá mér þegar ég talaði í dag, og því geymdi ég mér að svara þessu atriði þar til síðar.

Hér er þá fyrst skeyti til Árna Pálssonar verkfræðings, sem þá er staddur á Akureyri „Heimilað byggja Þverárbrú ákveðið bjóða 80 aura tímakaup sumarvinnu frá júlíbyrjun nema á Vaðlaheiði 85 aura, látið þetta berast til verkstjóranna. Reynið koma vinnu í akkorð. Vegamálastjóri“.

Til Kristjáns Hansens, Sauðárkróki. „Ákveðið bjóða 80 aura tímakaup frá júlíbyrjun. Æskilegt koma vinnu í akkorð. Nánar símtali. Símið ef nokkur breyting vinnustöðvun.

Vegamálastjóri“.

Til Steingríms Davíðssonar, Blönduósi. „Ákveðið bjóða 80 aura sumarkaup frá júlíbyrjun. Æskilegt koma vinnu í akkorð. Nánar símtali. Símið ef nokkur breyting vinnustöðvun.

Vegamálastjóri“.

Þetta var vegamálastjóri búinn að síma út áður en við Jón Baldvinsson töluðum saman, en ég hafði sagt honum nokkrum dögum áður, að kaupið í vegavinnunni væri ákveðið 80—85 aurar. Þetta er staðfest af skeytum vegamálastjóra. Skal ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa hér upp skeyti frá 19. júní.

„Briem ráðh., Stórholti. Sumarkaup ákveðið síðustu mánaðamót 80 aura sveitum 85 aura heiðum.

Vegamálastjóri“.

Þegar þetta skeyti er sent, er ég staddur vestur í Dalasýslu og fæ það til að staðfesta ummæli mín þar. Það hefir því komið greinilega í ljós, að kaupið var ákveðið áður en Jón Baldvinsson kemur að „semja“ við mig. Það breytti engu, þó ég gengi inn á að samþ. að tryggja lágmarkskaup í akkorðsvinnu. Því bæði vegamálastjóri og ég viljum styðja að akkorðsvinnu og teljum, að báðir aðilar græði á því. Ríkið fær meira fyrir sína peninga og verkamaðurinn fær hærra dagkaup, af því að hann vinnur yfirleitt betur. Ég þykist þá hafa að fullu svarað hv. 4. landsk.

Skal ég þá koma að hæstv. forsrh. Hann reyndi ekki að verja sig í þeim atriðum, sem ég kom inn á í ræðu minni, og voru þar þó nokkuð mörg atriði, sem hann hefði haft fulla ástæðu til að bera af sér, ef hann hefði getað. En í stað þess var hæstv. ráðh. með skæting um, að ég hefði brigzlað sér um hroka í dómarastörfum. En mér datt ekki í hug að minnast á dómarastörf hans. Þá minntist hæstv. ráðh. á eitthvert bréf, sem Sjálfstfl. hefði sent út, þar sem gefið væri í skyn, að Bændafl. mundi styðja Sjálfstfl. Ég hefi ekki séð þetta bréf og er mér efni þess alveg ókunnugt, en ég vil mótmæla því sem alveg órökstuddu og tilhæfulausu, að Bændafl. hafi nokkurntíma lofað Sjálfstfl. hlutleysi, auk heldur stuðningi Bændafl. vill fyrst og fremst styðja landbúnaðinn og mun því vinna með þeim, sem vilja hjálpa bændum.

Þá talaði hæstv. ráðh. um, að Bændafl. væri að vekja tortryggni í garð Framsfl. En ég held, að Framsfl. veki sjálfur mesta tortryggni á sér með undirlægjuhætti við sósíalista. Hæstv. ráðh. vék að Búnaðarfél. Íslands með mjög ósæmilegum árásum á menn utan Alþingis. Þó einhverjar deilur kunni einhverntíma að hafa verið innan veggja Búnaðarfélagsins, varð ég þess ekki var í minni stjórnartíð, þá var samvinnan milli þess og ráðuneytisins mjög góð. Ég minnist þess að vísu, að ég sæi einhverntíma mynd í „Speglinum“, þar sem Páll Zóphóníasson er að tuskast við einhvern mann. En ég tók það sem hvert annað „Spegils“-spaug. — Þá fullyrti hæstv. ráðh., að Búnaðarfélag Íslands væri óstarfhæft og enga samvinnu við það hægt að hafa. Þessu mun verða svarað af öðrum. Síðar sagði sami hæstv. ráðh., að enginn af starfsmönnum Búnaðarfélagsins hefði verið heima í vor. En ég vil segja, að þeir hafi aldrei verið færri en 3 heima. Hitt er vitanlegt, að sumir af starfsmönnum félagsins eru ekki heima heil sumur. Þurfa ráðunautarnir víða að fara og undirbúa ýmsar verklegar framkvæmdir, mæla fyrir ræktun og öðrum mannvirkjum og veita bændum almennar leiðbeiningar í sínum atvinnurekstri.

Til að sýna, hvað sumir ráðunautarnir væru lengi að heiman, var sagt, að þeir þyrftu að senda börn sín eftir kaupinu. Ég veit nú ekki til, að neinn af starfsmönnum félagsins eigi börn á því reki nema Páll Zóphóníasson, og þykir mér undarlegt, að framsóknarráðherra skuli vega þannig að eigin flokksbróður og er þá að vonum, þó aðrir verði fyrir áreitni af hendi hans.

Hæstv. ráðh. sagði, að ekki væri hægt að leita álits hjá Búnaðarfélagi Íslands. Ég fekk þar aldrei annað en skýr og glögg svör og góðar tillögur. Að hæstv. ráðh. lætur undir höfuð leggjast að leita álits og umsagnar Búnaðarfélagsins um landbúnaðarmál, er ekki til bóta fyrir landbúnaðinn. Og bændur telja illa séð fyrir forustu búnaðarmálanna, ef ráðh. ætlar að ráða þeim sjálfur án aðstoðar sér færari manna, eins þeirra, sem eru í þjónustu Búnaðarfélagsins.

Þá skal ég minnast á afskipti Búnaðarfélags Íslands af skozku nautgripunum. Það er rétt, að ég skrifaði Búnaðarfélaginu og bað það að annast um kaup á þessum gripum. Það fól svo umboðsmanni Sambands ísl. samvinnufél. að annast þetta ásamt einum þekktasta manni í búnaðarfélagsskap Skota, dr. Main. Umboðsmaður S. Í. S. lét auðvitað dýralækni skoða gripina erlendis, og fylgdi þeim dýralæknisvottorð hingað. Strax og gripirnir komu hingað voru þeir skoðaðir af dýralækni, og gaf hann þeim heilbrigðisvottorð. En eftir nokkurn tíma kom í ljós, að dýrin höfðu húðkvilla, sem hefir alllangan meðgöngutíma og er algengur erlendis. Í fyrstu taldi dýralæknir sjúkdóminn varla með sjúkdómum og áleit, að sólin mundi lækna hann að mestu, en þó betra, að einhver smyrsl væru notuð. En svo leið sumarið, að ekki tókst að lækna þau, og þar sem komið var haust, þótti ekki borga sig að einangra þau yfir veturinn og var þeim því slátrað. Þó svona atvikaðist var hér gætt fyllstu varfærni, og er því ómaklegt af hæstv. forsrh. að ráðast á S. Í. S. eða trúnaðarmann þess í þessu máli.

Þá hefir verið minnzt á kjötsöluheimildina skv. lögum frá 1933 og hve vafasöm hún er, og að meiri líkur eru fyrir því, að henni hefði verið hrundið með dómi. En ef svo hefði verið litið á, að heimildin væri til, var það hlutverk S. Í. S. og Sláturfélags Suðurlands, að vera þar velt á verði og láta til sín heyra, ef um hefði verið að kenna vanrækslu frá minni hendi. Þar sem þetta eru fulltrúar fyrir þá stétt, sem hér átti mest í húfi, hefðu þeir sjálfsagt ekki látið standa á sér, ef þeir hefðu talið sig geta bent á úrræði til umbóta.

Þá kom hæstv. ráðh. með allmiklar blekkingar viðvíkjandi kjötútflutningnum og markaðshorfunum. Ég sagði, að það hefði verið nóg markaðsrúm fyrir allt kjöt, sem við gátum selt haustið 1933. En ráðh. var að tala um innflutningstálmanir, sem væru bæði í Noregi og Englandi. Það er að vísu rétt, að það eru innflutningstakmarkanir í báðum þessum löndum, þannig, að við getum ekki flutt þangað nema ákveðið kjötmagn í hvern stað. En þessar innflutningshömlur eru svo rúmar, að við gátum selt allt það kjöt, sem við höfðum markaðshæft, til Englands, og helmingi meira en við höfðum þörf fyrir í Noregi. Hitt er vitanlegt, að það er enginn markaður fyrir saltkjöt í Bretlandi, og að við höfum engin tök á því a. m. k. enn sem komið er að framleiða eingöngu freðkjöt. Þetta er því, eins og vant er, algerlega út í hött hjá hæstv. ráðh.

Þá nefndi hæstv. ráðh. afurðasölunefndina og átaldi, að ekki hefði verið búið að halda nema einn fund fyrir kosningar. Mun honum þó vera kunnugt, að sá maðurinn, sem sízt mátti vanta, framkvæmdarstjóri S. Í. S., Jón Árnason, var mikið af þeim tíma utanlands. Enda reið mest á að vinna fyrst úr þeim skýrslum, sem ég hafði látið safna um kjötsöluna innanlands, og ýmsum öðrum gögnum, sem ég hafði safnað og fyrir lágu. Ég hygg, að afurðasölunefndin eigi sízt skilið, að hæstv. forsrh. kasti steini í hana fyrir störf hennar.

Hæstv. forsrh. talaði um, að ég hefði ekki greitt vaxtatillag. Ég veit ekki til þess, að það hafi nokkurntíma komið fyrir í minni ráðherratíð, að staðið hafi á því, að vaxtatillag, sem heimilað hefir verið samkv. lögum um þetta efni, hafi verið greitt úr ríkissjóði til bænda á réttum tíma.

Þá minntist hæstv. ráðh. á það, að ég hefði ekki greitt kjötuppbótina áður en ég fór frá. Ég hefi áður skýrt frá því, hvers vegna ég gerði það ekki. Það stafaði af því, að skýrslur þær, sem þurfti að nota til þess að greiða eftir, voru ekki tilbúnar frá hendi útflytjenda í tæka tíð fyrir stjórnarskiptin. En hæstv. ráðh. segir, að peningar muni ekki hafa verið til, svo að hægt væri að greiða þetta. Hæstv. ráðh. talar nú digurbarkalega um það, hversu ríkisreksturinn hafi verið í miklu ófremdarástandi, þegar hann hafi tekið við. Því er til að svara, að greiðsluhallinn var minni, þegar við skiluðum af okkur heldur en þegar við tókum við. Meira að segja var greiðsluhallinn hjá okkur, þegar við fórum frá og vorum búnir að borga allar aðalgreiðslur til útlanda; ekki eins mikill og þegar við tókum við, þó að þá væri eftir að greiða aðalafborgun og vexti af erlendum lánum.

Hvað sem hæstv. ráðh. eða hv. þm. S.-Þ., sem manna sízt ferst að tala um fjármál, segja um ríkisrekstur fyrrv. stj., þá sýna landsreikningar, sem hér liggja fyrir, að skuldirnar voru ekki meiri við síðustu áramót heldur en þær voru um árslok 1930. Skuldirnar voru færðar til í stjórnurtíð fyrrv. stj., en þær uxu ekki. Þetta sýna síðustu landsreikningar. Hitt er aftur á móti eðlilegt, að ríkistekjurnar komi ekki inn fyrr en síðari hluta árs. T. d. má minna á það, að 1930, þegar tekjur ríkissjóðs voru um 20 millj. króna, þá komu aðeins 5 millj. króna í ríkissjóð fyrir 1. júlí. — Af þessu, sem nú var sagt, sést, að það er ekkert óeðlilegt, þótt ríkissjóður verði að hafa það eins og bóndinn í þessu efni. Hann verður oft að taka bráðabirgðalán eða smávíxil, þegar hann gerir innkaup um vorlestir eða greiðir verkafólki sínu laun, þangað til hann fær tekjur sínar seinni hluta árs.

Hæstv. ráðh. talaði um, að ég hefði ætlað að leysa afurðasölumálið með sjálfstæðismönnum. Bændafl. hefir alltaf lýst yfir því, að hann ætli að fara eftir málefnum, en ekki eftir flokkum. Hann mun aldrei bindast samtökum við neinn þann flokk, sem ekki vill styðja landbúnaðinn og afurðasölumálin m. a. Ég vil spyrja hæstv. forsrh., fyrst hann gaf í skyn, að Sjálfstfl. væri óvinveittur afurðasölumálinu, hvort Framsfl. ætlaði þá að svíkja í afurðasölumálinu, ef Sjálfstfl. hefði ekki viljað styðja Bændafl. í því að koma þeim fram. Það er svo mikill hluti af sjálfstæðismönnum hér á þingi fylgjandi þessu máli, að stöðvun á því var óhugsandi, nema með því móti, að Framsfl. hefði brugðizt. Ætlaði Framsfl. að gera það að skilyrði fyrir stuðningi við kjötsölumálið, að hann gæti komizt í flatsængina með sósíalistum?

Þá drap hæstv. ráðh. á mjólkursölumálið. Ég hefi fengið upplýsingar hjá bónda einum í nágrenni við okkur, viðvíkjandi þessu efni. Hann hefir 8 kýr. Hann segir, að mjólkurlækkunin muni sig 30 kr. á mán. Um leið og hann verður að tapa þessari upphæð, eða 360 kr. á hverju ári, vegna þessarar mjólkurlækkunar, verður hann að greiða 30 kr. meira en áður vegna þess að verðið á fóðurbæti hefir hækkað á þessum sama tíma. Samkv. þessu tapar hann þá 60 kr. á mán., miðað við ástandið í fyrra, eða samt. 720 kr. á ári. Munar þetta engu fyrir bónda, sem hefir 8 kýr og engan annan bústofn?

Þetta, sem nú var sagt, sýnir, hvílíkt glapræði það var að lækka mjólkina á meðan enginn ávinningur var kominn af framkvæmd mjólkursölulaganna að öðru leyti. Þetta er þá umhyggjan fyrir bændum, enn sem komið er. Ég vona, að hæstv. landbrh. taki sér fram. Það veitir sannarlega ekki af.

Hann sagði, að ég væri hálfur í málum. Honum ferst. Hann er sjálfur ekki einu sinni hálfur fulltrúi bændanna. Hann er meira en hálfur genginn inn í flokk, sem ekki er fulltrúi fyrir bændur. Sósíalistarnir eiga meira en helminginn af honum, svo að hann á sig ekki einu sinni hálfan sjálfur.

Ég mun nú ekki tala meira við hæstv. ráðh. í þetta sinn. Hann hefir tekið það ráð að flýja til beggja handa, bæði til sósíalistanna og til hv. þm. S.-Þ., til þess að fá hjálp. Annars er ekki nema eðlilegt, að hv. þm. S.-Þ. líki ekki vel að vera alltaf settur hjá. Hann var settur hjá, þegar hann vildi verða forsætisrh., og hann var settur hjá frá því að verða formaður skipulagsnefndar. Það hefði samt verið sjálfsagt, þar sem hann er form. þess flokks, sem meiri hl. hefir í stjórnarliðinu. Hann fékk ekki einu sinni að vera í meiri hl. í nefndinni. Þetta sýnir greinilega, að vegur þessa hv. þm. hefir lækkað frá því sem áður var.

Hv. þm. talaði um, að Sjálfstfl. vildi eiga varalið. Það hefir verið talað um það, að fyrrv. forsrh. væri varaliðsmaður hæstv. stj. Ég átti líka að hafa verið varaliðsmaður og form. í einhverjum samningi, sem aldrei hefir verið til. Bændafl. er óbundinn flokkur, sem ekki þarf að vera fylgisveit annars flokks, eins og Framsfl. Það kemur aldrei til mála, að Bændafl. vilji taka upp samvinnu við aðra en þá, sem vilja vinna að því að hjálpa landbúnaðinum.

Hv. þm. S.-Þ. tók sér það verkefni að tala um fjármál. Ja, — fjármál! Þá fer nú skörin að færast upp í bekkinn, þegar hann fer að tala um fjármál.

Hv. þm. bar fyrrv. stj. brigzlum fyrir það m. a., að annarhvor okkar Magnúsar Guðmundssonar fyrrv. dómsmrh. hefði greitt Einari Jónassyni, fyrrv. sýslum., 1000 kr., eða hvað það nú var. Fyrrv. forsrh. talaði við mig um þetta atriði áðan og bað mig að geta þess, að hann hefði greitt konu E. J. þessa upphæð. En hann gerði það ekki, fyrr en hann var búinn að fá samþykki aðalflokkanna til þess. Og hvern hefir hv. þm. þá að ásaka?

Ég sagði áðan, að ríkisskuldirnar hefðu ekki aukizt síðan 1930, en lánin hefðu aðeins færzt til, m. a. þannig, að tekið var lán til vegagerða. Það var ennfremur tekið lán til brúargerða á Þverá og Markarfljóti. Vill hv. þm. S.-Þ. ávíta fyrrv. stj. fyrir það, að hafa veitt Rangæingum þessa miklu samgöngubót? Ég man ekki betur en að hv. þm. hafi látizt vilja vera vinur þeirra Rangæinga. Og mikið hefir hann hrósað sumum frambjóðendum flokks síns fyrir það, að þeir hafi stutt að því, að lánsheimildin fékkst til þessara brúargerða. Hvers vegna hefir hann nú snúið við blaðinu?

Þá var hv. þm. að ávíta mig fyrir það, að ég hefði stutt brúargerð í Skaftafellssýslum. Hann hefir líka stundum viljað vera vinur Skaftfellinga. Eða er vináttan ekki fyrir hendi nema rétt fyrir kosningar?

Ennfremur ásakaði hv. þm. S.-Þ. mig fyrir það, að hafa komið á vegasambandi við Austurland. Þegar ég tók við stjórn, var vegasambandið ekki komið lengra en að Húsavík. Í minni ráðherratíð var bílvegasambandið lengt frá Húsavík til Reyðarfjarðar og Seyðisfjarðar. Fylgismenn hv. þm. í Múlasýslum eiga að taka eftir þessu, hvernig hann umsnýst nú yfir því, að Austfirðingar hafa fengið þessa langþráðu samgöngubót.

Sama mætti segja um vegabæturnar, sem ég tók lán til, í Þingeyjarsýslum, Eyjafjarðarsýslu, á Vestfjörðum og nálega í hverri einustu sýslu landsins. Það er hart að heyra Jónas Jónsson, hv. þm. S.-Þ., telja eftir þær vegagerðir, sem allir landsfjórðungar njóta þannig góðs af. Það er hart að heyra hv. þm. S.-Þ. áfellast aðra fyrir, að ríkissjóður skyldi þurfa að taka lán til þessa, þar sem hv. þm. á manna mest sök á því, hvernig fjárhag ríkisins er nú komið. Enginn maður hefir beinlínis leikið sér með fé ríkissjóðs eins og hann. Enginn maður hefir verið eins fyrirhyggjulaus í fjármálum eins og hann, og enginn maður er eins fjarri því að hafa hið minnsta vit á fjármálum eins og hann.