02.11.1934
Neðri deild: 26. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1808 í B-deild Alþingistíðinda. (2545)

83. mál, útvarpsrekstur ríkisins

Frsm. minni hl. (Thor Thors):

Ég hefi minnzt á það við hæstv. forseta, hvort ekki sé fáanlegt, að máli þessu verði frestað vegna þess, að minni hl. allshn. á von á umsögn útvarpsráðs um þetta frv. Það hefir verið farið fram á, að þeirri umsögn verði hraðað, og vænti ég þess, að hún geti komið í dag. Ég vil í sambandi við þessa ósk leyfa mér að lesa hér bréf, sem minni hl. allshn. hefir fengið frá form. útvarpsráðs um þetta, með leyfi hæstv. forseta. Bréfið er dags. 30. f. m. og er á þessa leið:

„Til svars bréfi yðar 27. þ. m., þar sem þér æskið álits útvarpsráðs um frumvarp á þskj. 129, vil ég taka fram, að ég hefi rætt málið nokkuð við útvarpsráðsmenn, án þess að tækifæri hafi gefizt til þess að halda fund um það. Hafa útvarpsráðsmenn látið í ljós, að þeir telji ýms veigamikil atriði í frv. þurfa nánari athugunar við, og óska að mega láta í ljós frekara álit um frv. áður en lokið er þriðju umræðu um það í neðri deild.

Virðingarfyllst

Helgi Hjörvar formaður“.

Útvarpsráðið hefir nú haldið þennan fund og hefir falið tveim mönnum að gera brtt. við frv., þeim Pálma Hannessyni rektor og Helga Hjörvar. Vegna þess að ég geri ráð fyrir, að í upplýsingum frá þessum mönnum geti verið ýmislegt, sem æskilegt er, að berist hv. þdm. til eyrna áður en þeir afgr. þetta mál, vil ég eindregið endurtaka þau tilmæli mín til hæstv. forseta, að hann fresti umr. um málið þar til umrætt álit er komið frá útvarpsráði.