26.11.1934
Sameinað þing: 13. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 176 í B-deild Alþingistíðinda. (255)

1. mál, fjárlög 1935

Sigurður Einarsson [óyfirl.]:

Það hefir oft komið fram í ræðum þeirra tveggja hv. þm., sem talað hafa hér af hálfu Bændafl., að Alþfl. væri í raun og veru fjandsamlegur bændum landsins. Með afskiptum sínum af mjólkurmálinu hafi hann hafið þá herferð á hendur bændastéttinni, að líklegt sé, að það geti riðið búskap margra bænda að fullu. Báðir hafa þeir gefið það í skyn, að einskis góðs væri að vænta fyrir bændur frá Alþfl., nema flokkurinn fái önnur fríðindi til handa verkamönnum og sjómönnum.

Það kennir mikillar rangfærslu hjá báðum þessum hv. þm. í þessu efni. Alþfl. berst fyrir hagsmunum og góðri afkomu allra vinnandi stétta í landinu. Þetta kemur greinilega fram í stefnuskrá flokksins og einnig í þeirri afstöðu, sem flokkurinn hefir tekið til skipulagsmálanna. Þetta sýnir það og sannar, að ummæli þessara hv. þm. eru úr lausu loft gripin. Alþfl. gerir engan mun á mönnum eftir því, hvar á landinu þeir eru búsettir. Hann lætur sig það bara skipta, að menn verði ekki sviptir réttindum sínum. Alþfl. er ekki bundinn við neitt pólitískt skæklatog.

Hv. þm. V.-Húnv. talaði um þann vesaldóm, sem steðjaði að þeim stjórnmálafl., sem ynnu með okkur Alþfl.mönnum. Hann gat ekki skýrt þetta á annan veg en þann, að orka og starfhæfni okkar væri svo mikil. Hann virðist halda, að samvinna við okkar miklu og starfhæfu menn væri undirrót vesaldóms í stjórnmálum. Þetta er honum dálítil vorkunn, þó að einstætt sé. Hann hefir orðið svo vesall í Framsfl., að víkja varð honum burt. Það þótti ekkert lið í honum. Mér finnst ekkert sanngjarnara en að láta þar um gilda hans eigin skýringu — að undirrót vesaldómsins hafi verið orka og starfhæfni hinna gömlu félaga. Og þá er það heldur ekki furðulegt, þó að hann hafi hafnað í Sjálfstfl. Vesöld hans í framtíðinni verður, þegar svo er komið, að eiga sér aðrar orsakir en undanfarið. Hann byrjaði hér að kyrja sinn gamla söng, að bændur verði að fá framleiðslukostnað fyrir vöru sína. Þetta eru gælur hans framan í bændur. Hann heldur því fram, að svo fremi sem þetta fáist ekki nú þegar, þá muni bændur ekki geta borgað af kreppulánaskuldum sínum, hvað þá öðrum erfiðari. Hér sé ekki annars kostur en að velta öllu yfir á ríkissjóðinn, ef ekki sé að gert.

Því neitar vitanlega enginn, að bændur eigi erfitt, og þrátt fyrir allt, sem gert hefir verið, þá þarf samt meira að gera. Nú ætti þessi hv. þm. að gera sér grein fyrir því, að framleiðslukostnaður bænda er mjög mismunandi, eftir því við hvaða aðstöðu menn eiga að búa og hvar þeir eru í landinu.

Hv. þm. virðist ætlast til þess, að verðið sé misjafnt á sama stað, eftir framleiðslukostnaði bænda. Það er vitanlega alveg óframkvæmanlegt. Meira að segja vinir hans sjálfstm. myndu ekki kaupa af honum með hærra verði.

Hv. þm. V.-Húnv., þessi erkifjandi kaupgjaldsins til handa verkamönnum, heldur, að málið sé svo auðleyst, að það nægi að setja hátt verð á vörur þær, sem bændur framleiða. En hvernig á að fá fólk til þess að kaupa? Það má að vísu taka fyrir vörur frá útlöndum. En ef ekkert er til þess að kaupa fyrir, þá vandast málið. Það er ekki ráðið til þess að fá blómstrandi markað fyrir verðháar landbúnaðarafurðir, að spenna fastar sultarólina á öllum verkalýð við sjávarsíðuna.

Það sagði kaupmaður einn við mig á dögunum, að það væri nú eiginlega ekki víst, að það væri svo mikið upp úr því að hafa, að fólk hafi ekkert handa á milli. Hann leit á þetta mál frá sjónarmiði einstaklingsins, sem vill græða. Þessa lífsspeki hefir kaupmaðurinn lært á þessum tímum. Það verður líklega langt þangað til hv. þm. V.-Húnv. og hv. 10. landsk. ná kaupmanninum í þessu efni.

Ég vil taka það fram, að Alþfl. er meiri vinur bændanna með stefnu sinni um jafnvægi afkomunnar til sjós og sveita en þessi niðursetningur íhaldsins hér á þingi, því að án þessa jafnvægis verður hvorugum aðila borgið.

Nú vil ég víkja nokkrum orðum að hv. 10. landsk., Þorsteini Briem, þessum manni, sem með óvenjulegri hrekkvísi og fláttskap ætlaði að gera þetta þing óstarfhæft. Honum hefir tekizt hálfilla að vinna fyrir bændur. Bændur hafa lagt sinn dóm á það. Flokkur hans fekk svo slæma útreið við síðustu kosningar, að auðséð er, að bændur treysta þessum hv. þm. ekki til þess að leysa úr málum sínum.

Hv. þm. leiddi hjá sér að fara út í vegavinnukaupið. Þar er hann varnarlaus — einber tregðan, skilningsleysið, hikið og hálfmennskan. Hann segist hafa sent skeyti um það, að vegavinnukaupið yrði ákveðið 80 aur. um klst. Það er ekkert sagt með því að senda skeyti og segja, að æskilegt sé, að vinnan verði unnin sem ákvæðisvinna, en annars verði nánar rætt um þetta í símtali. Hvenær átti það símtal að fara fram?

Þegar litið er á þetta og fleiri aðgerðir hv. þm. sem ráðh., þá verður manni það ljóst, að þetta flokksbrot hans er steindauður flokkur, steinrunninn flokkur. Hann er nátttröll í íslenzkri bændapólitík. Ég vona, að þetta sé svo nákvæmlega orðað, að ekki þurfi að bæta um orðalagið.

Það situr illa á þessum hv. þm. að vera andvígur þeirri stj., sem nú fer með völd, fyrir aðgerðir hennar í afkomumálum hinna vinnandi manna í landinu.

Þegar þessi hv. þm. var menntamálarh., þá féll það í hans hlutskipti að tilnefna formann barnaverndarnefndar. Einn af kennurunum vissi, að hann hafði í hyggju að skipa óvinsælan mann, alþekktan fyrir trúarofstæki, í þetta formennskuembætti. Þá skrifar kennarinn gagnrýni á þessari fyrirætlun ráðh. Ráðh. verður þá að senda einn af skósveinum sínum, Ásmund Guðmundsson, til þess að biðja kennarann að draga aftur réttmæta gagnrýni — í blaði — gegn því, að maðurinn, sem hann ætlaði að skipa, hagaði sér ekki eins og „banditt“.

Þá kom fyrir skólanefnd Rvíkur, að barnaskólinn ætti að búa við alóhæfan leikfimisal til að kenna nauðsynlega leikfimi. Skólanefndin var þá svo stjörf, að hún rak frá þrjá leikfimikennara, eingöngu af því að þeir vildu ekki kenna í þessum ónothæfa sal. Málið var svo borið undir þennan skörulega ráðherra. Sérfræðinganefnd var látin skoða gólfið í salnum, sem var dæmt ónothæft. En þessi ráðh. hafði ekki einu sinni hugsun á að vita skólanefndina. Það átti að halda áfram að kenna með sama sleifarlaginu og áður.

Einu sinni fór skólaráðið þess á leit, að skipuð væri nefnd til að endurskoða lesbækur fyrir barnaskóla. Þorsteinn Briem, fyrrv. ráðh., tjáði sig fúsan til að skipa þriggja manna nefnd, og liggur fyrir bréflegt svar frá honum um það. Hann biður um útnefningu skólaráðs á þessum þremur mönnum. En þegar skólaráðið hafði gert það og kosið þrjá menn, sem honum voru ekki að skapi af pólitískum ástæðum, þá sendir þessi þáverandi ráðh. einn skósvein sinn á fund skólaráðs með tilmælum um það, að það sætti sig við, að hann bæti við tveim mönnum í nefndina. Jafnvel í svo smávægilegu atriði sem þessu, að standa við orð sín og bréf um skipun þriggja manna nefndar, hefir þessum hv. þm. reynzt ómögulegt að haga sér eftir lögmálum siðaðra manna, að halda sitt orð. Og hann gengur hér á bak orða sinna eingöngu fyrir það, að hann ljóst við, að þessir þrír menn mundu ekki vilja fylgja honum inn á þær menningarlegu skuggagötur, sem hann þá hélt sig á.

Tími minn er þrotinn, svo að ég verð að láta frekari svör bíða þangað til síðar.