11.12.1934
Efri deild: 58. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1953 í B-deild Alþingistíðinda. (2557)

108. mál, iðnlánasjóður

Magnús Jónsson:

Það getur vel verið, að ég hafi ekki lesið þetta frv. nógu vel. Ég veit, að það á að lána féð út. En mér skilst, að þessi 14 millj. kr. eigi að halda áfram að greiðast í iðnlánasjóð, hvort sem um er að ræða beina fjárveitingu til þess í fjárl. eða ekki. En lánin, sem ríkissjóður tekur til þess, verður hann þó alltaf að endurgreiða. Hvort sem hér er um að ræða lán eða ekki lán, þá skilst mér, að hér sé um að gera stofnfé fyrir lítinn vísi að iðnaðarbanka, sem í framtíðinni á að verða stór. Ég er svo sem ekki að amast við þessu. Öðru nær. En ég vildi aðeins láta það í ljós, að mér finnst, að stj. eigi að sýna fullkominn jöfnuð og setja sömu kröfur, hvort sem það er útvegurinn eða aðrir atvinnuvegir, sem í hlut eiga, og jafnt fyrir því, hvort flm. mála eru úr stjórnarflokkunum eða stjórnarandstæðingar. Það tjáir ekki fyrir stj. að bera því við sí og æ, þegar um mál okkar sjálfstæðismanna er að ræða, að ekkert fé sé fyrir hendi, þess vegna verði málið svæft; en á hinn bóginn er það tekið fullgilt sem tekjuöflun fyrir málefni stjórnarsinna, ef þeim er látin fylgja heimild til stj. um að taka féð að láni. Og þá finnst stj. sjálfsagt að láta málið ganga fram. — Lántaka er náttúrlega tekjuöflun í bili; en stj. er misjafnlega nægjusöm með það úrræði, eftir því hver í hlut á.