03.11.1934
Neðri deild: 27. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1816 í B-deild Alþingistíðinda. (2567)

83. mál, útvarpsrekstur ríkisins

Sigurður Einarsson [óyfirl.]:

Eins og sá hv. þm., sem síðast talaði, tók fram, eru hér komnar fram 2 till. á þskj. 244 og 248, sem eru sama efnis og því sama, hvor er samþ. Fyrri brtt. mín á þskj. 244, við 6. gr. frv., er mjög smávægileg. Hún miðar aðeins að því að tilgreina fyllra og ákveðnar, hverjum beri skylda til að greiða afnotagjald. Það er nú svo, að ekki svo fá félög og stofnanir hafa útvarpstæki, og getur leikið nokkur vafi á með greiðsluskyldu þeirra.

En í sambandi við seinni brtt. mína skal ég upplýsa, að það fé, sem útvarpið hefir til að miðla blindum mönnum, fullnægir hvergi nærri eftirspurn og þörf. Það væri því ekki vanþörf að ákveða greinilegar í reglugerð. hvernig með það eigi að fara, t. d. hvort ekki sé ástæða til að taka eitthvert tillit til efnahags eða annara ástæðna. Finnst mér rétt að hreyfa þessu máli nú, ef ástæða þætti til að setja ákvæði um það inn í frv.

Ég finn nú ekki ástæðu til að lengja umr. um þetta mál. En í sambandi við ummæli hv. þm. Snæf. út af bréfi útvarpsráðs til minni hl. n. langar mig til að segja nokkur orð. Útvarpsráð segir svo í bréfinu: „Útvarpsráðið er á einu máli um það, að í greininni komi alls ekki nógu skýrt fram, hvernig valdsviðið skiptist eða hvar ábyrgðin skuli raunverulega vera um starfsemi útvarpsins yfirleitt“.

Frsm. meiri hl. henti réttilega á, að 4. gr. l. og 5. gr. frv. væru alveg shlj. að efni, en frv. tæki þó nokkru fyllra og gleggra fram um óhlutdrægni gagnvart skoðanafrelsi einstaklinga, félaga og stofnana. Auk þess er tekið fram í 5. gr. frv., að útvarpsstjóri eigi sæti á fundum dagskrárstjórnar, undirbúi dagskrá og hafi daglega umsjón með framkvæmd hennar.

Vegna sérstaks kunnugleika á þessum málum langar mig til að gefa hv. þdm. nokkrar upplýsingar um, hvernig þetta hefir verið í framkvæmdinni að undanförnu.

Það hefir orðið starfsvenja, að útvarpsstjóri hafi haft undirbúning og umsjón með framkvæmd dagskrár. Aðstaðan hefir gert þetta óhjákvæmilegt. Þegar útvarpsráð tekur ákvarðanir um heildarniðurskipun efnis, er oft gert ráð fyrir erindum frá mönnum, sem þurfa að sækja langt að, og þarf því að eiga aðra menn vísa til vara, ef hinir forfallast. Þarf því að hafa vakandi eftirlit með, að þetta sé allt í lagi, og er það vitanlega að mestu gert með símtölum. Þetta verður útvarpsráð eða dagskrárstjórn að fela einum manni, og í praksis hefir þetta orðið svo, að skrifstofan hefir annazt það. Í frv. er þetta starf lagt undir umsjón útvarpsstjóra, og er það allt og sumt, sem í gr. felst. Fyrir ókunnuga gæti litið svo út, sem hér væri verið að rugla saman störfum útvarpsráðs og útvarpsstjóra, og vildi ég því gefa þessa skýringu. Ef litið er á 5. gr. frv., er þar tekið svo skýrt fram verksvið hvors um sig, útvarpsstjóra og dagskrárstjórnar, að meiri hl. fannst ekki geta leikið neinn vafi á um það, hver viðfangsefni hvorum er ætlað, eins og virðist koma fram í bréfi útvarpsráðs.

Eftir frv. er ætlazt til, að útvarpsstjóri hafi aðalframkvæmd um fræðslustarfsemi útvarpsins, svo sem að útvega menn til að flytja erindi, syngja o. s. frv., en leiti um það ráða og umsagnar dagskrárstj. Einnig er dagskrárstj. ætlað að ákveða fréttaflutning og fleira, er snertir dagleg störf. Munurinn á 4. gr. núgildandi l. og 5. gr. frv. er því í raun og veru ekki annar en sá, að frv. tekur af allan vafa um þessi atriði. Þar eru engin tvíræð orð eða hugtök, sem geti valdið misskilningi, eins og átt hefir séð stað um gildandi lög, þar sem það hefir valdið allverulegum ágreiningi, hver hafi yfirstjórn menningarlegrar starfsemi útvarpsins.

Ég hefi þá í stuttu máli sagt það, sem ég vildi helzt taka hér fram. Ég verð þó að minnast á eitt atriði. Hv. þm. Snæf. vitnaði í bréf útvarpsnotenda — S. Í. Ú. —, þar sem lagt er til, að fjölgað verði í útvarpsráði upp í 9. Þetta mun nú að vísu sýna áhuga fyrir starfsemi útvarpsins, en reynslan er sú, að það þykir fullumsvifamikið að hafa 7. — Annað áhugamál er samkv. bréfinu, að núv. útvarpsráð sitji út fullt kjörtímabil. Og það þriðja, að engir hafi störf við útvarpið, sem taka opinberan þátt í stjórnmálum. Ég býst við, að einnig sé tekið fram í bréfinu, að ríkja skuli óhlutdrægni, og áherzla sé lög á skoðanafrelsi, og sízt af öllu geri ég ráð fyrir, að stjórn S. Í. Ú. vilji skipta sér af eða skerða athafnafrelsi manna. Það mun því mega gera ráð fyrir, að ef stjórn S. Í. Ú. og útvarpsráð bæru saman bækur sínar, mundi þetta vegast nokkuð á. — Ég vil svo að lokum óska þess eins, að málinu verði skipað eftir því, sem öllum má bezt gegna. Skal ég svo ekki þreyta d. með lengri ræðu.