03.11.1934
Neðri deild: 27. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1822 í B-deild Alþingistíðinda. (2573)

83. mál, útvarpsrekstur ríkisins

Sigurður Einarsson [óyfirl.]:

Það eru aðeins örfá orð í sambandi við ræðu hv. þm. Snæf. — Hann byrjaði ræðu sína á því, sem ég vildi kalla prestsverk. Hann fór að tala um það, hvort væri heppilegra orð, dagskrárstjórn eða útvarpsráð. Ég geri ráð fyrir, að menn mundu venjast hvoru orðinu sem er, og alveg eins og menn sögðu aldrei „útvarpsráð ríkisútvarpsins“ heldur aðeins „útvarpsráð“, þá munu menn aldrei segja „dagskrárstjórn ríkisútvarpsins“, heldur aðeins „dagskrárstjórn“, eins og hún er nefnd í frv., að undanteknum einum stað.

Um launuð aukastörf í sambandi við útvarpsstjóra þarf ég fátt að segja, því að hv. 1. landsk. hefir svarað því fyllilega. Ég gæti bent á embættismenn í þessu þjóðfélagi á svipuðum eða sömu launum og þeim, er hv. þm. Snæf. ætlar útvarpsstjóra með þessari till., og ekki einungis á sömu launum, heldur einnig í sambærilegum stöðum, þar sem þeir eru framkvæmdarstjórar fyrir það opinbera. Það þarf ekki annað en að líta á eitthvað af þeim gögnum, sem fjvn. hefir nú með höndum, til að sjá að þessir menn hafa margskonar launuð aukastörf með höndum.

Auk þess, sem hv. 1. landsk. benti á það í samanburði sínum um útvarpsstjóra og hæstaréttardómara, að þeir ynnu launuð aukastörf, þá vil ég benda á það, að í l. um útvarp — og eins í þessu frv. — er gert ráð fyrir, að útvarpsstjóri sé framkvæmdarstjóri, sem sér um, að það sé gert, sem dagskrárstjórn segir, að gera skuli. Á hann því alltaf fyllstu gagnrýni á hættu, ef honum tekst ekki sem skyldi. Hæstaréttardómari aftur á móti á að framkvæma viss atriði fyrir það opinbera og er vitanlega alltaf undir gagnrýni, þó að hans framkvæmdum verði ekki hnekkt.

Að því er snertir fjölgun þeirra, sem útvarpsnotendur skuli kjósa, þá eru það ekki djúp rök fyrir því, að útvarpsnotendur beri allan kostnaðinn. Landslýðurinn ber yfirleitt uppi allan kostnað af öllu því, sem gert er, svo að eftir þessari röksemd hv. þm. ætti þá allur almenningur að kjósa þá, sem framkvæmdu hvað sem gert væri, en það veit hv. þm., að er nú ekki gert. Svo er og það, að útvarpið hefir fleiri tekjugreinar en afnotagjöldin, t. d. fær það miklar tekjur af auglýsingum. Um lok þessa árs voru þær um 40 þús. kr.

Þá minntist hv. þm. á tryggð notenda við útvarpið og taldi æskilegt, að hún væri meiri. En hvaða stofnun er það, sem ekki mætti segja um, að æskilegt væri, að menn héldu meiri tryggð við hana? Annars má nokkuð ráða um tryggð manna við útvarpið af því, hve margir af þeim, sem gerzt hafa viðskiptamenn þess, ganga úr skaftinu, en þeir eru mjög fáir. Nú eru útvarpsnotendur um 9400, og sýnir það, að þessi stofnun á töluverðri tryggð að fagna í hugum þeirra manna, sem á útvarp hlusta.

Svo held ég, að það, sem hann sagði til mín persónulega, beri að skoða sem einhverja flokksskyldu meinta í sæmilegu bróðerni. Það hefir nú einu sinni komið fyrir, að þetta litla traust mitt átti að koma fram á alvarlegri hátt, en þá urðu rúml. 1000 útvarpsnotendur til að mótmæla því við útvarpsráð, eins og hv. þm. getur fengið að sjá, því að útvarpsráð hefir þau plögg með höndum.

Þetta er þá það helzta, sem ég vildi segja viðvíkjandi ræðu hv. þm. Snæf. Jafnframt því vil ég leggja áherzlu á það, að hér er í raun og veru um mjög lítinn skoðanamun að ræða. Útvarpsráð hefir haft frv. til athugunar og hefir ekki svo mikið út á það að setja, að það taki að gera ákveðnar till. um breyt., og hefir látið í ljós samþykki sitt yfir ýmsu, en minni gleði yfir öðru.