12.11.1934
Neðri deild: 34. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1960 í B-deild Alþingistíðinda. (2580)

124. mál, hlutafjárframlag fyrir h/f Skallagrím í Borgarnesi

Thor Thors:

Ég vil einungis þakka þeim hv. dm., sem talað hafa í þessu máli, fyrir vinsamlegar undirtektir við brtt. okkar hv. þm. Barð. — 1. flm. þessa máls, hv. þm. Mýr., kveðst geta fallizt á að greiða þessari till. atkv., og ég veit, að 2. flm., hv. 11. landsk., mun gera hið sama. Þeir 3 hv. þm. úr samgmn., sem talað hafa, hafa allir haft orð á því, að þeir legðu ekki kapp á að fá sínar brtt. samþ. Ég vil upplýsa hv. þm. V.-Sk. um það, að það var í öndverðu talið varhugavert að binda með l., að þetta skip skyldi annast Breiðafjarðarferðir, en stjórn h/f Skallagríms var búin að ganga inn á það atriði, þó ekki allskostar ánægð. En í morgun átti ég tal við form. félagsins í Borgarnesi, og hann sagði, að þeir væru fullkomlega ánægðir með að binda þetta eftir að viðaukatill. okkar hv. þm. Barð. kom fram. Okkar till. ber þó ekki að skilja svo, að þessar ferðir skuli falla niður, ef séð er fyrir þessu á annan hátt; það verður þá a. m. k. að vera á annan jafnfullkominn hátt. Við leggjum áherzlu á, að þessu sé ekki breytt fyrr en þessu skilyrði er fullkomlega fullnægt. Um það, hve margar ferðir farnar verða, þá hefir lágmarkið verið 4 ferðir, en voru í ár færðar upp í 8. Við ætlumst til, að ferðirnar verði a. m. k. 4, en ef ástæður leyfa, þá er það tilætlunin, að ferðunum verði fjölgað frá því lágmarki. Eftir þeim góðu undirtektum, sem till. okkar hafa fengið hér, vænti ég þess, að hv. d. samþ. þær með miklum meiri hl. atkv., og vil ég mælast til þess, að till. okkar verði bornar fyrst undir atkv.