11.12.1934
Efri deild: 58. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1968 í B-deild Alþingistíðinda. (2602)

124. mál, hlutafjárframlag fyrir h/f Skallagrím í Borgarnesi

Jón Auðunn Jónsson:

Ég hefði eiginlega þurft að ná tali af hæstv. atvmrh. Mér skilst, að ómögulegt sé að afgr. málið á þennan hátt, nema vissa sé fyrir, hvernig póstferðum um N.-Ísafjarðarsýslu verður hagað næsta ár. Mér er ekki kunnugt um, að hæstv. ráðh. hafi gengið inn á að láta vitabátinn Hermóð til þessara ferða. Eins og ég gat um áður, er það sama og leggja þessar ferðir niður, ef ekki er séð fyrir farkosti. Það er verið að svipta sýsluna gersamlega öllum möguleikum til samgangna.

Þar sem hæstv. atvmrh. er nú að koma í d., vil ég skjóta því til hans, hvort það sé rétt, sem kom fram hjá hv. 4. þm. Reykv., að það mundi vera ákveðið, að Hermóður yrði lánaður h/f Vestfjarðabátnum eða sýslufélagi N.-Ísafjarðarsýslu til ferða um sýsluna á næsta ári, því án þess álít ég hreinasta gerræði að drepa þessar till., þegar 15 aðrar sýslur hafa fengið í styrki til strandferða og flóabáta yfir 40 þús. kr. á ári að jafnaði, auk landsamgangna, sem N.-Ísafjarðarsýsla hefir engar. En þó að N.-Ísafjarðarsýsla hafi ekki fengið nema 19 þús. kr. á ári, má ekki bæta við hana 3 þús. til þess að sýslan geti eignazt sæmilegan bát. Ég verð að segja, að mér finnst það vera meira en lítið gerræði, nema hæstv. stj. eða ráðh. geti boðið eitthvað í staðinn, því annars er ómögulegt að halda ferðunum uppi næsta ár. Það hefir heyrzt, að ætti að lána Hermóð í þessar ferðir, en mér er ekki kunnugt um, hvort það er rétt, að óska eftir, að hæstv. atvmrh. vildi gefa ákveðnar upplýsingar um það. En Hermóður er of stór og verður því alltaf meira tap á honum en minni bát, jafnvel þó Hermóður væri lánaður leigulaust, sem vitanlega væri sjálfsagt. Það er 60 tonna bátur, sem við þurfum. Hér liggur fyrir umsókn um styrk til 60 tn. báts, og eru allir aðilar sammála um, að það sé heppilegasta stærð, svo hægt sé að telja sæmilegan farkost. 100 tn. bátur er of stór fyrir eitt sýslufélag, nema styrkurinn yrði hækkaður um 15—20 þús. kr.

Eins og ég hefi getið um áður, telja sumir, að nota megi tvo 20 tn. báta. Gengi þá annar um Djúpið í daglegum reglubundnum ferðum, en hinn annaðist flutninga fyrir norðurhreppana, sem einnig hafa mikla þörf fyrir bættar samgöngur. En þá er algerlega óleyst verkefni um samgöngur fyrir Vestur-Ísafjarðarsýslu, sem hefir fengið 12—15 ferðir á ári. En tveir bátar verða alltaf tiltölulega dýrari en eitt stærra skip, jafnvel þó ætlazt sé til að hafa 6—10 tn. bát til þess að annast afurðaflutning, t. d. mjólk bænda við Djúpið, svo að þeir hafi ferðir, sem byggja má á, þegar ekki falla ferðir með stærra skipinu. En þær eru oft, ef þær verða jafnörar og að undanförnu, um 200 á ári, 130 í Djúpið, en hinar í norðurhreppana og vestursýsluna. Áætluninni var haldið óbreyttri, en á síðasta hausti varð að fá aukabát til þess að flytja sláturfé, sem kjötverðlagsnefnd vildi ekki veita leyfi til að slátra heima. Ég verð því að segja, að án þess að hæstv. ráðh. geti og vilji gefa fullt loforð um að lána vitaskipið Hermóð, án endurgjalds, verður málið í hinu mesta öngþveiti um mannflutninga og vöruflutninga, og engir póstflutningar. Verða þá aðeins notuð smáskip, og hver potar út af fyrir sig um langar vegalengdir og úfinn sjó fyrir opnu hafi. Slíkar ferðir verða dýrar og ófullnægjandi, og sé ég ekki annað en endirinn verði sá, að ríkisstj. verði að taka málið í sínar hendur og leggja til sæmilegan farkost. Ég geri ekki ráð fyrir, að hv. þm. ætlist til þess, að svo sé búið að sýslunni, að menn fái aldrei póst, hafi enga flutninga og engar ferðir séu fyrir þá, sem þurfa að ferðast, þar sem allar ferðir verður að fara á sjó. Ég er meira en hissa, ef hv. þdm. geta ekki samþ. 3 þús. kr. styrk á ári í næstu 10 ár, þegar ég hefi sýnt, að styrkur til 15 sýslna hefir verið 40 þús. kr. á ári til flóabáta og strandferða. Það er nokkur von um að fá hlutaféð til muna aukið, ef ríkið vildi hlaupa undir bagga á þann hátt, sem farið er fram á, en ég tel enga von til þess að öðrum kosti, vegna þess að menn telja vonlaust, að hægt sé að halda uppi samgöngum nema ríkissjóður styrki lítillega þessi bátakaup.