11.12.1934
Efri deild: 58. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1970 í B-deild Alþingistíðinda. (2604)

124. mál, hlutafjárframlag fyrir h/f Skallagrím í Borgarnesi

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) [óyfirl.]:

Ég álít, að sú leið, sem hér er gengið inn á, að ríkið taki hluti í flóabátunum, sé ákaflega varhugaverð. Ég óttast, ef það er gert hér, að þá megi búast við kröfum í sömu átt úr flestum sveitum landsins. Um brtt. hv. þm. N.-Ísf. get ég sagt, að það væri eðlilegt, að hún kæmi fram, eins og frv. var afgr. frá Nd.

Út af fyrirspurn hv. þm. N.-Ísf. um, hvort ákveðið væri að lána Hermóð endurgjaldslaust, get ég svarað því skýrt og skorinort, að um það hefir engin ákvörðun verið tekin, og engin tilmæli um það komið til ríkisstj. Ef beiðni kæmi um það frá félaginu og umsögn samgmn., mun það verða tekið til athugunar.

Að því er snertir sjálfa brtt., geri ég ekki ráð fyrir að geta greitt henni atkv.; sumpart vegna þeirra ástæðna, sem ég gat um í upphafi, og í öðru lagi er mér ekki fullljóst, hvort það er rétt að hafa 60 tonna bát. Ég er kunnugur og þekki allvel til þar vestra og tel jafnvel ekki rétt, að heppilegast sé að hafa stórt skip og lítinn bát í viðlögum. Ég held, að betra væri að hafa smábáta til nauðsynlegra afurðaflutninga og daglegra ferða, en leigja heldur stærra skip stöku sinnum til lengri ferða og þegar um meiri flutninga væri að ræða.

Til viðbótar verð ég að segja um brtt. hv. þm. N.-Ísf., að mér sýnist 1. og 2. brtt. rekast á. Hv. þm. gerir, að mér skilst, ráð fyrir, að 60 tn. bátur kosti 90 þús. kr. Ennfremur er gert ráð fyrir í 2. brtt., að ríkið leggi fram 30 þús. kr. í hlutafé og ábyrgist 60 þús. kr. Er þá ekkert hlutafé innborgað? Eða er það tilætlunin, að ríkissjóður borgi allt? Eða er það e. t. v. eins og mér helzt skilst, að Vestfjarðabáturinn h/f hafi ekkert innborgað hlutafé, en búist við að fá það innborgað síðar og ætli þá að láta það ganga til lækkunar á ábyrgðarskuldinni jafnóðum og það innborgast?

Ég hefi svo ekki meira að segja um frv. Í sambandi við brtt. á þskj. 769 er ekki því að leyna, að ég geri ráð fyrir, að menn verði tregir til að leggja fram hlutafé, ef hún verður samþ. (MG: Ætli það geti ekki skeð?). En sé önnur leið fær án ríkisábyrgðar, þá er hún betri. Og mér þykir undarlegt, ef efnahagur félagsins er góður og loforð um 50 þús. kr. framlag frá ríkinu, ef ekki er hægt að fá lán án ríkisábyrgðar, og væri það betur.