11.12.1934
Efri deild: 58. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1973 í B-deild Alþingistíðinda. (2607)

124. mál, hlutafjárframlag fyrir h/f Skallagrím í Borgarnesi

Magnús Guðmundsson:

Það virðast allir sammála um, að þetta frv., sem hingað er komið frá hv. Nd., nái fram að ganga, og ég er einn í þeirra tölu.

Hv. 4. þm. Reykv. vill þó ekki, að frv. fari héðan óbreytt, heldur fella niður það ákvæði, að borga megi hluthöfunum arð. Ég vil spyrja hann að því, hvernig hann geti búizt við, að menn vilji leggja fé í þetta fyrirtæki, ef þeim er bannað að fá nokkra vexti um mjög langan tíma, þó að svo færi, að fyrirtækið gengi vel. Að samþ. svona till. væri í rauninni ekkert annað en að bregða fæti fyrir frv., og þetta getur bókstaflega ekkert þýtt annað.

Það er viðurkennt yfirleitt, að strandferðirnar eigi að vera kostaðar af ríkinu, án þess að aðrir borgi neitt, og hið sama hlýtur að gilda um ferðirnar milli Reykjavíkur og Borgarness. Hvers eiga þá þeir að gjalda, sem hér eiga hlut að máli, ef þeim er fyrst gert að skyldu að borga 2/3 af öllum kostnaði af skipskaupunum, og síðan á að útiloka það, að þeir fái nokkra vexti af fé sínu, þó að fyrirtækið gangi vel? Hvaða vit er í þessu? Það er áreiðanlega nóg, sem þessir menn taka á sig af hlutverki þess opinbera með því að leggja fram svo mikið fé, þó að það sé ekki fyrirfram ákveðið, að það skuli vera arðlaust.

Annars ætlaði ég ekki að tala aðallega um þennan Borgarnesbát, því að flestir virðast vera sammála um hann, en ég vildi víkja fáeinum orðum að brtt. hv. þm. N.-Ísf. Um hans hérað er það af öllum viðurkennt, að þar eru samgöngur ómögulegar nema á sjó. Það er líka viðurkennt, að strandferðaskip ríkisins geta ekki fullnægt þessari þörf, og þá er ekki um annað að gera en sérstakan flóabát. Og það, sem hv. þm. fer fram á, er að það sama sé gert fyrir hans kjördæmi og allir viðurkenna, að eigi að gera við þennan bát, sem á að hafa ferðir milli Rvíkur og Borgarness. Mér finnst þessi tilmæli hans vera á ómótmælanlegum rökum byggð, ég sé ekki, að þingið geti staðið sig við að neita þessu, nema það finni þá jafnframt aðra leið, sem fullnægir samgönguþörfinni.

Hv. frsm. samgmn. hefir réttilega skýrt frá því, að Hermóður hefir áður um stundarsakir verið hafður til að halda uppi samgöngum á þessu svæði. En ennþá hefir hæstv. samgmrh. ekki gefið ákveðið svar um það, hvort Hermóður fæst á næsta ári í þessar ferðir, og væri ég sem hv. þm. N.-Ísf., þá mundi ég heimta skýrt svar um þetta. Það er nú komið að áramótum, og því þarf að afgera þetta bráðlega. Nú er komið að því að greiða atkv. um þessa till., og fyrr en ég hefi fengið skýr svör um, að það eigi að hjálpa Vestfirðingum og þeir eigi að fá þessar lífsnauðsynlegu samgöngur, greiði ég ekki atkv. á móti þessari till. Ég er hræddur um, að Hermóður verði of dýr í rekstri og tilboð um lán á honum sé óaðgengilegt. Ég skal skýra frá því, að þegar ég var ráðh., þá lánaði ég einu sinni Hermóð til þessara ferða um nokkurn tíma. Og áður en hinn umtalaði tími var liðinn, þá skiluðu Ísfirðingar honum aftur og sögðu, að hann væri of dýr í rekstri til þess að þeir gætu látið hann ganga, og ef svo er, þá er náttúrlega lítil hjálp í að senda þeim hann, nema það loforð fylgdi með, að ríkið vildi taka á sig þann halla, sem kynni að verða á rekstrinum, eða ákveðinn hluta af honum, og ef slíkt tilboð kæmi fram, teldi ég það mjög vel viðunandi. Auðvitað geng ég út frá að veita flutningastyrk jafnmikinn og áður hefir verið. Komi það svo fram, að rekstrarhalli verði mjög mikill, þá álít ég það sem sé skyldu ríkissjóðs að hlaupa undir bagga. Ég skil ekki annað en að hv. frsm. sé svo sanngjarn, að hann finni þetta og skoði þá þetta næsta ár sem nokkurskonar reynsluár um þetta fyrirkomulag. Ef þetta væri tryggt allt, þá skilst mér, að hv. þm. N.-Ísf. ætti að geta vel við það unað. En að hann geti gengið inn á að þessar till. séu felldar nú og þetta sé allt í óvissu, það get ég ekki séð, að sé sanngjarnt að ætlast til. Ákvörðun þessa máls getur ekki dregizt, því að það er nú komið fram undir áramót, og þar sem hér er um nauðsynlega samgöngubót að ræða fyrir þetta hérað, þá getur þingið ekki neitað um ákvörðun.

Ég viðurkenni það um Borgarnesbátinn, að hann hefir sérstöðu, en Norður-Ísafjarðarsýsla hefir líka sérstöðu, því að þar geta eiginlega engar samgöngur átt sér stað nema á sjó.

Mér finnst ekkert undarlegt, þó að ríkið taki þátt í stofnkostnaði flóabáta. Það hefir verið gert áður; það hefir f. d. verið veittur styrkur til að kaupa vél í flóabáta. Það er undarlegt, sérstaklega af ráðh., sem heldur svo mikið af ríkisrekstri, að hann skuli hafa nokkuð við það að athuga, að ríkið taki þátt í framlagi til Borgarnesbátsins, því að ef við athugum, hvernig er um strandferðirnar, þá sjáum við, að ríkið kaupir skipin að öllu leyti, borgar þau sjálf og stendur síðan undir öllum rekstrinum. Og hvers vegna á það ekki líka að vera svo í Norður-Ísafjarðarsýslu, sem engar samgöngur getur haft nema á sjó. Svipað má segja um Borgarnes-Reykjavík.

Ég lýsi því svo yfir að endingu, að ég greiði ekki atkv. á móti till. hv. þm. N.-Ísf., nema fyrir liggi greinileg yfirlýsing ráðh. um það, að það verði á viðunandi hátt bætt úr þessari flutninga- og samgönguþörf, sem er í Norður- og VesturÍsafjarðarsýslu.