11.12.1934
Efri deild: 58. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1974 í B-deild Alþingistíðinda. (2608)

124. mál, hlutafjárframlag fyrir h/f Skallagrím í Borgarnesi

Jónas Jónsson [óyfirl.]:

Ég vildi aðeins segja fáein orð um þetta frv. — Það liggja fyrir brtt. frá hv. þm. N.-Ísf. og einnig frá hv. 4. þm. Reykv. Ég vildi segja það út frá brtt. hv. þm. N.-Ísf., að þegar við í fjvn. beittum okkur fyrir því að breyta landhelgisgæzlunni í það horf, sem hún nú er, að hafa annað stóra varðskipið í gangi allt árið og svo Þór, að þá var það eitt af því, sem við í meiri hl. n. gerðum ráð fyrir, að Þór annaðist flutning til vitanna á sumrin, og þannig mætti spara Hermóð, sem þá verður aðgerðalaus í sumar. Eins og nú er erfitt um marga hluti, þá finnst mér, að Ísfirðingar hljóti að skilja, að þótt þeim þætti betra að fá skip við sitt hæfi, þá sé sjálfsagt að reyna það eitt ár eða svo, hvernig gengi, ef landið lánaði þeim Hermóð, sem fjvn. mundi a. m. k. mæla með, að væri með eins góðum kjörum og frekast er hægt. Ég held auk þessa, að ef till. hv. þm. N.-Ísf. yrði samþ., þá sé mikil hætta á því, að frv. annaðhvort dagaði uppi eða yrði drepið, og þar sem Borgarnesbáturinn er undirstaða undir samgögnum milli Rvíkur og norðurlands og nokkuð mikils hluta vesturlands, og þar sem ennfremur hafa verið fest kaup á þessum bát og allar ráðstafanir gerðar í þeirri von, að þetta mál nái fram að ganga, þá hygg ég það mikið ólán, ef till. hv. þm. N.-Ísf. verður samþ., af því að það setur annað mál í hættu, og ef til þess kæmi, að óhjákvæmilegt væri að hyggja þennan Ísafjarðarbát fljótlega, þá munar það ekkert, hvort það er gert ári fyrr eða síðar, þar sem svo miklir erfiðleikar eru á að fá slíkt skip byggt.

Út af till. hv. 4. þm. Reykv. vil ég segja það, að hún setur málið sérstaklega í hættu, vegna þess að fjárframlag það, sem verið er að safna um Borgarfjörð, m. a. hjá fátækum hreppum og einstaklingum, er að miklu leyti bundið við, að þar sem féð verður að takast að láni hjá ýmsum, þá svari það einhverjum vöxtum, ef fyrirtækið gengur þannig. — Ég vonast þess vegna eftir því vegna málsins sjálfs, að hvorug brtt. verði samþ. að þessu sinni. Þó getur verið, að margt mæli með þeim. Það getur að því komið, að byggja þurfi bát til flutninga á Ísafjarðardjúpi, þó að von sé um að geta notað Hermóð. Það getur verið, að frá vissu sjónarmiði sé réttlætanlegt það, sem vakti fyrir hv. 4. þm. Reykv., en málið er komið í það horf, að ef till. verður samþ., setur hún það í hættu bæði hér á þinginu og heima í héraði. — Af þessum ástæðum mun ég greiða atkv. á móti báðum þessum till., þó að ég sé ekki á móti efni þeirra og skilji, hvers vegna þær eru bornar fram af þeim hv. þm., sem að þeim standa, en þær munu ekki gagna þeirra héruðum neitt, en geta gert þessu máli skaða.