11.12.1934
Efri deild: 58. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1977 í B-deild Alþingistíðinda. (2610)

124. mál, hlutafjárframlag fyrir h/f Skallagrím í Borgarnesi

Sigurjón Á. Ólafsson:

Ég mun ekki blanda mér inn í neinar deilur um þetta. Ég hefi áður við umr. um þetta mál tekið fram mína afstöðu til þess. En við það, sem ég hefi áður sagt um málið, ætla ég að bæta því, út af ummælum hv. þm. N.-Ísf., að ég tel mál þetta afgr. á mjög sómasamlegan hátt með því að láta Hermóð annast þessar ferðir um Ísafjarðardjúp. Hermóður er eitt hið bezta skip, vel útbúið, og ég geri ráð fyrir, að það þurfi ekki að verða óbærilega dýrt í rekstri. Ég álít það rétt, sem hæstv. atvmrh. sagði, að ekki sé nú hægt að fá aðra lausn á þessu máli en þá, að nota Hermóð til þessara flutninga.

Þá vil ég segja örfá orð út af ummælum hv. 1. þm. Skagf. um mína brtt. Skal ég segja þeim hv. þm. það, að ég hefi áður fyrr á þingi, í ekki ósvipuðu máli, lýst afstöðu minni einmitt til þess, hvort greiða eigi hluthafaarð hjá þeim fyrirtækjum, sem ríkið styrkir, þ. e. m. ö. o., að ríkið leggur fram það fé, sem úthlutað er í arð. Álít ég það mjög óviðeigandi og ranga aðferð. Nú er ætlast til þess, að Borgarnesbáturinn fái 20 þús. kr. beinan styrk, sem flóabátur. Getur vel farið svo, að rekstrarafkoman verði svo góð með þessari styrkupphæð, að fært þyki að greiða hluthafaarð, en þá er það ríkið, sem greiðir hann.

Í öðru lagi vil ég benda hv. þm. á það, að ýms héruð á landinu hafa orðið að leggja á sig þungar byrðar vegna samgöngubóta á sjó. Mér er ekki kunnugt um, að þeir menn, sem lagt hafa fram fé til að halda uppi ferðum Skaftfellings, hafi nokkurn tíma fengið greiddan arð af því fé, þótt ríkið hafi styrkt þetta fyrirtæki.

Út af því, sem hv. þm. N.-Ísf. hefir talað um baráttu héraðsbúa þar vestra fyrir að halda uppi ferðum þar, vil ég taka það fram, að ekki hafa þeir fengið arð af því fé, sem þeir hafa lagt fram til þessara ferða. Þess vegna sé ég ekki ástæðu til að greiða hluthöfum í Skallagrími arð af hlutafé af þeim styrk, sem félagið fær frá ríkinu.

Hv. þm. sagði, að strandferðir væru kostaðar af ríkinu. Það er rétt, að flóabátar yfirleitt eru ekki reknir af ríkinu. Það getur verið, að það væri heppilegast, en það liggur bara ekki fyrir nú.

Hv. þm. sagði, að Hermóður mundi verða nokkuð dýr í rekstri. Hv. frsm. n. hefir nú fært nokkur rök fyrir því, að samkv. áætlun, sem legið hefir fyrir samgmn., eru ekki neinar líkur fyrir því, að Hermóður verði dýrari í rekstri heldur en sá bátur, sem Vestfirðingar hafa í hyggju að byggja. Hið eina, sem mundi e. t. v. verða kostnaðarmeira við útgerð Hermóðs, er, að kolaeyðsla yrði útgjaldafrekari en olíueyðsla. Á Hermóði þarf ekki meira fólkshald heldur en á 60 tonna mótorbát. En Hermóður er stærra skip og getur flutt í ferðinni talsvert meira en 60 tonna bátur gæti gert.

Þá hefir það verið sagt, að ég setti mál þetta í hættu með till. minni um að fella niður að greiða arðinn. En ég verð að segja það, að það skiptir nokkuð öðru máli, hvort nú á að bæta inn í frv. ákvæði um 90 þús. kr. ábyrgð eða fella á niður smáarðgreiðslu. Ég býst við, að þótt hv. þm. N.-Ísf. telji sér tryggt fylgi í Nd. um þetta mál, þá sé það vafasamt, ef þessar 90 þús. kr. eru með. (JÁJ: Það er ekkert vafasamt ).