13.12.1934
Efri deild: 60. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1980 í B-deild Alþingistíðinda. (2615)

124. mál, hlutafjárframlag fyrir h/f Skallagrím í Borgarnesi

Jón Auðunn Jónsson:

Ég hefi lýst við 2. umr. þessa máls ástæðum þeim, sem fyrir liggja um þessar ferðir í Norður-Ísafjarðarsýslu, og í hvert öngþveiti þetta mál er komið og getuleysi héraðsins til þess að standa undir þessum ferðum með sífelldum rekstrarhalla. Eins og ég gat um þá, var svo komið í fyrra, að félag það, sem hélt uppi þessum samgöngum, var búið að tapa öllu hlutafénu og meira til, eða um 70 þús. kr., og auk þess töpuðu einstakir menn tugum þús. af innieign, sem þeir áttu hjá félaginu. — Á haustþinginu 1933 lágu fyrir áætlanir um nýtt skipulag á þessum ferðum, og samgmn. Nd. tjáði sig samþykka því, að ríkið tæki ábyrgð á byggingarkostnaði skips fyrir félag, sem stofnað yrði í þessum tilgangi, og jafnframt að styrkurinn yrði hækkaður að mun. Þessi ályktun samgmn. Var síðan send ríkisstj., sem tjáði sig, að svo miklu leyti sem á hennar valdi stæði, mundu leggja til, að styrkurinn yrði hækkaður verulega, eða upp í 30 þús. kr. á ári, og einnig að ríkisábyrgð yrði veitt fyrir byggingarkostnaði slíks skips. Á þessum grundvelli var það, að sýslunefndin fór að gangast fyrir hlutafjársöfnun. Endirinn á því máli varð sá, eins og menn vita, að sýslubúar hafa stofnað hlutafélag og safnað hlutafé og þannig byggt á loforðum fyrrv. ríkisstj. og samgmn. á þinginu í fyrra. Er það sæmilegt Alþingi að bregðast héraðsbúum, þegar grundvöllur er þessi? Ég hygg, að það sé meðfram af því, að ýmsir hafa látið sér koma til hugar, að ríkið gæti sér að skaðlausu, og kannske jafnvel til þess að sleppa við frekari útgjöld, lánað vitaskipið Hermóð til þess að annast þessar ferðir á næsta ári. Ég hefi sagt mínum umbjóðendum þar vestra frá þessu, en þeir eru mjög hræddir við að taka á sig ábyrgð á rekstri svona stórs skips. Ég býst við, að þegar þeir þar vestra hafa heyrt undirtektir þingsins, þá hafi þeir farið að tala sig saman um þetta, því til Alþingis hefir nú rignt fjölda skeyta, ekki einungis frá sýslunefndarmönnum og hreppsnefndum Norður-Ísafjarðarsýslu, heldur líka úr öllum hreppum Ísafjarðarsýslu, og er það einróma krafa manna vestur þar, að byggður verði ca. 60 rúmlesta bátur. En nefnd þeirri, sem séð hefir um framkvæmd þessara mála fyrir vestan, lízt svo á, að rekstrarkostnaður Hermóðs hljóti að verða það mikill, að styrkveiting sú, sem verið hefir, hrökkvi skammt til þess að greiða þann rekstrarhalla, sem þeir telja fyrirsjáanlega á úthaldi Hermóðs. Og það hljóta allir að sjá, að ómögulegt er, að sýslusjóður Norður-Ísafjarðarsýslu, sem hefir ennþá talsverðan bagga frá gamla félaginu, eða um 8 þús. kr., og þar að auki hefir ákveðið að leggja í nýjan bát 5—10 þús. kr., geti tekið að sér þann bagga, sem leiðir af rekstrarhalla þessa skips. Mér er því ekki sjáanlegt, að það verði haldið uppi samgöngum um Ísafjarðarsýslu, nema því aðeins, að ríkisstj. vilji ganga inn á að leigja eða lána skipið vestur þangað, og að ríkissjóður þá taki á sig þann halla, sem verða kann af rekstri þessa skips umfram þá fjárveitingu, sem er veitt til þessara ferða í fjárlögum.

Ég hefi nú verið að bíða eftir svari hæstv. atvmrh. við bréfi, sem ég skrifaði honum að loknum umr. í fyrradag, því án þess að fá svar við því get ég ekki fallið frá þeim till., sem ég hefi borið fram á þskj. 647, sem eru þær minnstu kröfur, sem mínir umbjóðendur treystast til þess að fara fram á, til þess að þessu máli verði skipað á nokkuð viðunandi hátt.