13.12.1934
Efri deild: 60. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1982 í B-deild Alþingistíðinda. (2617)

124. mál, hlutafjárframlag fyrir h/f Skallagrím í Borgarnesi

Jón Auðunn Jónsson:

Mér þykir leitt, að hæstv. ráðh. hefir ekki tækifæri til þess að hlusta á það, sem ég þarf að taka fram í sambandi við ræðu hans. Ég vil í fyrsta lagi taka það fram, að á áætlun forstjóra Skipaútgerðar ríkisins er gert ráð fyrir 7 þús. kr. afborgun, og til fyrningar, umfram venjulegt viðhald, 4600 kr. Þetta eru 11600 kr., og þetta er fé, sem náttúrlega vinnst, eftir þessari áætlun, en sem alls ekki er reiknað með í hinni áætluninni, svo að áætlunarkostnaður Hermóðs er mun hærri en rekstrarkostnaður hins bátsins. Enda er það öllum mönnum skiljanlegt, að það er dýrara að halda úti 100 tonna gufuskipi heldur en 60 tonna mótorbát.

Nú hefir hæstv. atvmrh. ekki viljað gefa neinn ádrátt um það, að rekstrarstyrkur til Hermóðs yrði hækkaður upp úr 20 þús., en ég þykist sjá það fyrir, að sú upphæð muni ekki nándar nærri nægja, og ég veit, að sýslun. er ekki fær um að standa undir svo miklum rekstrarhalla, sízt nema þá að því fé, sem á að nota til byggingar nýs skips, verði eytt, og það er náttúrlega einn steinn í götu þess, að nokkurntíma fáist viðunanlegar samgöngur á Djúpinu. Ég fullyrði það, að sumir hv. nm. í samgmn. eru því meðmæltir, að ákveðið verði að borga hærri styrk en 20 þús. kr., ef rekstrarhalli verður. Þar get ég vitnað til form. samgmn. Ed., sem var á fundi í dag, þar sem aðeins voru staddir 5 af 8 nm. Og þar sem hér er um aðeins bráðabirgðaráðstöfun að ræða, sem að nokkru leyti er þvingað upp á sýsluna og þeim er mjög óviðfelldin, en sætta sig ef til vill við, til þess að ferðir þarna falli ekki alveg niður, þá er eðlilegt, að þeir séu dálítið tregir til þess, ef rekstrarhalli skyldi verða t. d. 10 þús. kr., að standa undir þeim bagga.

Ég sé mér því ekki fært að taka til baka brtt. mínar á þskj. 647, þar sem hæstv. ráðh. treystir sér ekki til þess að gefa nein vilyrði um aukið framlag úr ríkissjóði til rekstrar Hermóðs á næsta ári. En ég mundi hafa látið mér nægja, að hann hefði tekið vel í það, þó að hann hefði ekki sagt það með beinum orðum, að hann mundi greiða rekstrarhallann, ef t. d. samgmn. fengist til þess að samþ. það — og ég tel líklegt, að hægt sé að fá það samþ. af meiri hl. samgmn., að eitthvað verði greitt fram yfir þann styrk, sem nú er ætlaður til þessa, ef það sýndi sig, að rekstrarhalli yrði mikill. En ef engin von er um að fá neitt greitt upp í rekstrarhallann, þá tel ég þessu máli siglt í það strand, að ríkisstj. verði a. m. k. til þess að halda uppi póstsamgöngum, að taka málið algerlega í sínar hendur. Ég treysti mér ekki til þess á þessum grundvelli að falla frá þeim kröfum, sem ég hefi borið fram á þskj. 647, eftir eindregnum óskum sýslun. og héraðsbúa.