13.12.1934
Efri deild: 60. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1984 í B-deild Alþingistíðinda. (2619)

124. mál, hlutafjárframlag fyrir h/f Skallagrím í Borgarnesi

Jón Auðunn Jónsson:

Það er rétt, sem hv. 4. þm. Reykv. sagði, að það kom til tals í n., að svo gæti farið, að ríkissjóður yrði að taka að sér rekstur skipsins, og þá yrði Skipaútgerð ríkisins falið að sjá um rekstur þess, og yrði það þá auðvitað rekið sem strandferðaskip og á kostnað strandferðanna, því að að vissu leyti eru þetta strandferðir, sem hér um ræðir, en í eiginlegum skilningi ekki flóaferðir. Allir flutningar, bæði manna- og vöruflutningar, eiga að fara fram á þessu skipi, en aftur á móti er t. d. mb. Skaftfellingur eingöngu vöruflutningaskip, en mannaflutningar og póstflutningar fara fram á landi.

Ég get ekki tekið þessar till. mínar aftur, nema ég fái einhverja von um það, að það verði hlaupið undir bagga af hálfu ríkisins, ef rekstrarhalli verður mikill á skipinu og kostnaður fer mjög fram úr því, sem skipið vinnur sér inn, að viðbættum þeim styrk, sem í fjárl. er ætlaður til Djúpbátsferða.