26.11.1934
Sameinað þing: 13. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 194 í B-deild Alþingistíðinda. (262)

1. mál, fjárlög 1935

Þorsteinn Briem:

Ég vil fyrst svara því, sem hæstv. atvmrh. beindi að mér persónulega. Þetta tilefni er komið af því, að þegar hæstv. atvmrh. (þm. Seyðf., HG) talaði við mig á síðasta þingi um veginn yfir Fjarðarheiði, þá sagði ég við hann hér inni í ráðherraherbergi, hvort hann mundi ekki gera sig ánægðan með 70 au. kaup á tímann í byggð, en 75 au. á heiðum yfir vorið, en svo 10 aurum hærra yfir sumarið, eins og venja hefir verið til, og hann lét ekki í ljósi neina óánægju yfir því. (Atvmrh.: Nú skil ég ekki það, sem hv. þm. er að segja). Ég veit, að hæstv. atvmrh. man þetta samtal, þó að hann vilji ekki kannast við það nú, og hann lét ekki í ljós, að hann væri óánægður með þetta kaup, sem ég þá stakk upp á. Og ég hefði ekki tekið við hinu framboðna láni til vegagerðar á Fjarðarheiði, ef ég hefði búizt þar við verkdeilu. Annars get ég tekið það fram viðvíkjandi því, sem hv. atvmrh. talaði um vegavinnudeiluna, að ég tók það fram hér áðan, að ég var búinn að segja hv. 4. landsk., formanni Alþýðusambands Íslands, það í síma mörgum dögum áður en hann kom til mín í vor, að ég ætlaði að bjóða 80 aura kaup í sveitum, en 5 aurum hærra á heiðum. Það stóð svo á í fyrra með vegagerð, að það þurfti óvenju mikið fé til þess að halda vegunum við og endurbæta þá, vegna þess að margar brýr og vegir höfðu eyðilagzt í vatnsflóðum, og ég hafði yfir lítilli fjárveitingu að ráða, sem mér var veitt í fjárlögum til vegaviðhalds, svo það var erfitt að sigla þar á milli skers og báru. Og jafnframt leit ég svo á, að bændum væri enginn greiði gerður með því að hækka vegavinnukaupið. Þess vegna fylgdi ég fyrri venju, að spyrja fyrst og fremst héraðsstjórnirnar, hvað þær borguðu í sýsluvegum og miða við það.

Það var verið að blanda hv. fyrrv. forsrh. (ÁÁ) inn í þetta mál. Ég hafði sagt honum, að kaupið yrði 80 aurar í sveitum, en 85 á heiðum, og hefir hann því ef til vill sagt hv. 4. landsk. það sama og ég var sjálfur búinn að segja honum áður.

Viðvíkjandi hv. 9. landsk. þarf ég ekki að eyða mörgum orðum. Þessi gamli „flokkaflækingur“ og mesti bændahatari Alþingis hefir nú loksins fengið þá ósk sína uppfyllta að komast á þing, og það hefir hann komizt sem steinrunninn jafnaðarmaður. Hv. þm. var að tala um skuggagróður í sambandi við skipun barnaverndarráðsins, en þessi hv. þm. líkist sjálfur hinum ótútlegasta skuggagróðri, sem ég hefi þekkt. Að síðustu minntist hann á lesbókarmálið og fann mér víst það til foráttu, að ég hefði lagt áherzlu á, að Freysteinn Gunnarsson skólastjóri kæmist í lesbókarnefndina. Ég hygg, að þeir, sem þekkja málsmekk Freysteins Gunnarssonar, áfellist mig ekkert fyrir það, þó að hv. 9. landsk. geri það.

Þá skal ég víkja nokkrum orðum að hæstv. fors.- og landbúnaðarráðh. Hann svaraði aldrei þeirri spurningu minni, hvort það hefði verið tilætlunin, að Framsfl. brygðist í afurðasölumálinu, ef hann hefði ekki getað leyst það með sósíalistum. Hann var að tala um, með hverjum hefði átt að leysa það, eins og honum gæti ekki dottið í hug, að hægt væri að ná samkomulagi við nokkurn flokk nema sósíalista. Hæstv. ráðh. var að minnast á verðjöfnunargjaldið. Ég talaði um það í því sambandi, að stj. hafði ekki notað að fullu þá heimild, sem hún hafði til að leggja þetta gjald á. Og því fremur er skylt að veita verðuppbót úr ríkissjóði, þegar heimildin, sem stj. hafði skv. kjötsölulögunum til að leggja á verðjöfnunargjaldið, var ekki notuð til fulls.

Þá var hæstv. ráðh. að tala um, að ég hefði ekki leyst neitt af málum bænda. Mér finnst sízt sitja á þessum hv. þm. að segja þetta um þann mann, sem hefir undirbúið flest landbúnaðarmálin á því þingi, sem mest hefir gert fyrir landbúnaðinn.

Þá var hæstv. ráðh. að gefa í skyn, að fyrrv. stj. hefði búið illa í hendur núv. stj. um fjármálin. Ég vil í því sambandi minna á þá stóru hagsbót fyrir þetta land, sem fyrrv. ríkisstj. kom á, þegar hún gat breytt ókjaraláninu frá 1921 í annað lán með svo góðum kjörum, að það sparar ríkinu og ríkisstofnunum nær því tvær milljónir króna. Annars er ekki kominn tími til að segja um það, hvort núv. hæstv. stj. tekst betur með fjármálin en fyrrv. stjórn, en það væri óskandi, að svo yrði.

Það var yfirleitt fátt, sem hæstv. forsrh. svaraði í sinni ræðu. Hæstv. forsrh. reyndi yfir höfuð að fara í kringum ádeiluatriðin í ræðum mínum, af því að honum var það sýnilega um megn að svara þeim.

Ég skal nú aðeins minna á nokkur atriði, sem hæstv. forsrh. hefir ekki einu sinni reynt til að svara eða verja hér undir þessum umr.

Hann hefir fyrst og fremst ekki svarað því, hvort hann hafi búizt við uppsögn frá sósíalistum, ef fulltrúa Búnaðarfélags Íslands hefði ekki verið sparkað úr kjötsölunefndinni. Hann hefir heldur ekki ennþá svarað, hver afstaða hans er til kjötuppbótarinnar, eða þeirri spurningu, sem hv. þm. V.-Húnv. bar fyrir hann. Hæstv. ráðh. hefir ekki reynt til að verja það, að kjötverðið var hér í Rvík lægra í september í ár heldur en á sama tíma í fyrra. Hæstv. ráðh. hefir ekki heldur reynt að verja þá setningu, sem hann sagði, að hann kynni ekki við að taka við till. um nauðsynjamál bænda frá Bændafl. Hann hefir ekki reynt til að verja þá spillingu, sem er í því fólgin að vilja ekki líta á málin sjálf, heldur aðeins hverjir eru flm. þeirra og hvernig þau horfa við frá flokkslegu sjónarmiði. Hæstv. ráðh. hefir heldur ekki reynt að verja reikninga hv. 2. þm. N.-M. út af mjólkurmálinu, sem ég bar brigður á, að væru réttir, né að hrekja mína reikninga í sambandi við hina óverjanlegu verðlækkun mjólkurinnar. Hann hefir varla reynt að verja hina ótímabæru mjólkurlækkun.

Þá reyndi hæstv. ráðh. heldur ekki að mótmæla, að það hefði verið landbn., sem endurbætti frv. hans um fasteignaveðslán og bætti við það ákvæði um vaxtatillag, sem hann lét alveg vanta í frv. sitt eða stjórnarinnar. Hann reyni ekki heldur að hrekja þau rök mín, að ekki hefði verið heimilt í fyrrahaust að fara eftir lögum nr. 90 frá 1933, um skipulagningu kjötsölunnar, undir þeim kringumstæðum, sem þá voru fyrir hendi, og hafði ég í því sambandi fært fram sterk rök, eftir að ég hafði borið mig saman við merkan lögfræðing um það efni. Hæstv. ráðh. reyndi ekki að andæfa orðum mínum í því sambandi, um að engin ósk hefði komið frá Sambandi ísl. samvinnufélaga eða Sláturfél. Suðurlands um, að þessi vafasama heimild yrði notuð eða að gefin yrðu út bráðabirgðalög haustið 1933, og bar þó þessum tveimur aðilum að benda mér á í tíma, ef þeim hefði þótt ég eitthvað vanrækja í þessu efni. Hann reyndi ekki að verja framkomu sína og flokks síns gagnvart jarðræktarlagafrv. né öðrum nauðsynjamálum, sem Bændafl. hefir borið fram. Hann reyndi og ekki heldur að verja ranglætið í úthlutun vegafjárins. Það getur verið, að hæstv. ráðh. reyni að malda í móinn móti þessu, þegar ég er ekki lengur til andsvara.

En hvað segið þið, bændur, um þessi og þvílík rökþrot? Hvað segið þið um það, að sá maður, sem á að vera forsvarsmaður landbúnaðarins, reynir ekki að bera hönd fyrir höfuð sér í jafnmörgum atriðum og ég hefi nú bent á?

Ég get ekki talað lengur, því að minn tími er á þrotum, en ég vil óska bændastétt Íslands sigurs í sinni erfiðu baráttu. Ég vil óska, að hvernig sem fer um ríkisstj. landsins, þá megi atvinnuvegirnir blómgast, og með þeirri ósk býð ég góða nótt.