24.11.1934
Efri deild: 47. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1832 í B-deild Alþingistíðinda. (2628)

83. mál, útvarpsrekstur ríkisins

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) [óyfirl.]:

Það er rétt hjá hv. 1. þm. Reykv., að samkv. 3. gr. frv. er nokkurt misræmi í launum þeim, sem útvarpsstjóra eru ætluð, og launum. embættismanna ríkisins. Ég hefi því ekki á móti því, að brtt. hans við 3. gr. verði samþ., og til viðbótar því vil ég taka það fram, að fari svo, að samþ. verði b- og c-liðir 2. brtt. á þskj. 582, að niður falli að nokkru leyti dýrtíðaruppbót af launum embættismanna, og að samskonar ráðstafanir verði gerðar gagnvart öðrum starfsmönnum ríkisins, þá tel ég alveg sjálfsagt, að niður falli einnig dýrtíðaruppbót af launum útvarpsstjóra. En sem kunnugt er, hafa þær till. ekki verið samþ. enn. Annars skal ég ekki eyða tímanum í að ræða launakjör embættis- og starfsmanna ríkisins, en ég get tekið undir það með hv. 1. þm. Reykv., að þau séu mjög misjöfn. En sennilega koma þau til athugunar mjög bráðlega, því að ég geri ráð fyrir, að launamálanefndin verði búin að skila áliti sínu fyrir næsta þing, og þá verður hægt að taka mál þetta fyrir til rækilegrar athugunar, og því sé ég ekki ástæðu til að taka fyrir launakjör þessa eina manns sérstaklega nú. Af þeirri ástæðu er ég líka á móti brtt. hv. þm. Dal. um að lækka laun þessa embættismanns úr 7500 kr. í 6000 kr.

Þá fæ ég ekki heldur séð, að brtt. hv. l. þm. Reykv. við 4. gr. frv. sé til bóta. Hann vill halda því fram, hv. þm., að kirkjuráð, fræðslumálanefnd og háskólaráð eigi að hafa rétt til þess að útnefna menn í útvarpsráðið. Þetta tel ég rangt, því eigi að halda áfram á þeirri braut, að sérstakar stofnanir eða stéttir útnefni þessa menn, þá tel ég illt að gera upp á milli um það, hvaða stofnanir eða stéttir eigi að hafa þennan rétt. Frá sjónarmiði landsmanna almennt virðist mér alveg eins rétt, að sjávarútvegurinn og landbúnaðurinn ættu fulltrúa í þessu ráði eins og t. d. háskólinn og prestastéttin. Ég fæ því ekki annað séð, hvernig sem á mál þetta er litið, en að bezta leiðin verði sú, sem frv. gerir ráð fyrir, að helmingur þessara manna verði kosinn af útvarpsnotendum sjálfum, en hinn helmingurinn af sameinuðu Alþingi, og að stj. skipi svo oddamanninn.

Um 3. brtt. hv. þm. á þskj. 568, að fella niður viðtækjaverzlunina, skal ég ekki deila nú. Okkur skilur mjög þar á milli sem áður í verzlunarmálunum. En ég vil vekja athygli á því, að verði till. þessi samþ., þá verður jafnframt að sjá útvarpinu fyrir tekjum á annan veg, sem nema samkv. áætlun útvarpsstjóra nokkuð á annað hundr. þús. kr. Annars hefir viðtækjaverzlunin gefið góða raun. Viðtækin hafa verið ódýr, jafnvel tiltölulega ódýrari en erlendis, en hafa þó gefið útvarpinu góðar tekjur.

Að því er snertir ákvæðið til bráðabirgða, þá tel ég sjálfsagt, að hið nýja útvarpsráð taki strax við, þegar lögunum hefir verið breytt. Það er á engan hátt útilokað, að þeir, sem nú skipa útvarpsráðið, fái sæti í hinu nýja; hafi menn fellt sig við þá, má fastlega gera ráð fyrir, að þeir nái kosningu.

Samkv. framansögðu vil ég því leggja til, að 2., 3. og 4. brtt. á þskj. 568 verði felldar.