26.11.1934
Sameinað þing: 13. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 197 í B-deild Alþingistíðinda. (263)

1. mál, fjárlög 1935

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Hv. síðasti ræðumaður mun hafa sent hv. þm. V.-Húnv. á hnotskóg, til þess að rannsaka, hvort hæstv. forsrh. tæki til máls á eftir. En þegar hann komst að raun um, að svo var ekki, sá hann sér fært að taka upp heillanga rollu af ýmsum atriðum, sem hann sagði, að hæstv. forsrh. hefði ekki svarað. En hæstv. forsrh. var búinn að reka þetta lið fyrir lið ofan í þennan hv. þm. Annars verð ég að segja það, að það væri ólíkt skemmtilegra fyrir þennan hv. þm. að láta hv. þm. V.-Húnv. tala um það í útvarpið, hvað hann sé rökfimur, heldur en að taka það sjálfur fram með berum orðum.

Það er aðeins eitt atriði, sem ég get ekki látið hjá líða að svara, sem hv. 10. landsk. minntist á í sinni fyrri ræðu, þegar hann þóttist vera að svara hv. þm. S.-Þ., og það var um vegavinnumálin. Þessi hv. þm. (ÞBr) var að reyna að gera það tortryggilegt, að hv. þm. S.-Þ. hefði vítt, að tekið hefði verið lán til vega- og brúargerða. Það, sem hv. þm. S.-Þ. var að vita í þessu máli, var ekki það, sem hv. 10. landsk. vildi vera láta, að þetta hefði verið gert, heldur hitt, að þessi fyrrv. hv. ráðh., 10. landsk., hefði látið undir höfuð leggjast að afla tekna til þess að standa undir þessu framlagi og gert þessar framkvæmdir fyrir lánsfé. Þennan hv. þm., 10. landsk., skorti manndóm til þess, þegar hann var ráðh., að láta tekjuaflanir fylgja þeim fjárframlögum, sem hann vildi láta greiða. En ræður þessa hv. þm. í þessum umr. hafa sýnt það, að hann hafði ekki annað en pappírsheimildir til að fara eftir, þegar hann var ráðh., sem hann svo ekki gat notað.

Þá vil ég minnast nokkrum orðum á sjálfstæðismenn, og skal ég reyna að koma ekki inn á nein þau atriði, af því að þetta er síðasta ræðan, sem þeir gætu verið óánægðir með að hafa ekki tækifæri til að svara.

Hv. þm. Borgf. fór nú rétt einu sinni að segja söguna af Grýlu, sósíalista-Grýlu, sem hann er alltaf að tuggast á. Hann sagði, að ég hefði sagt, að alla þá verzlun, sem eitthvað væri að hafa upp úr, ætti að þjóðnýta. Þetta er rangt; ég sagði aðeins, að ég vildi ríkisverzlun á einstaka vöru, sem eitthvað væri upp úr að hafa, en ég sagði ekki með einu orði, að það ætti að taka alla verzlun í hendur ríkisins, enda sæti ekki á okkur framsóknarmönnum að segja það, af því að við viljum samvinnuverzlun.

En ef það er sósíalistískt að hafa einkasölu á einstaka vöru, þá hefir hv. 1. þm. Skagf. gert sig sekan í þeirri ósvinnu, því að hann setti á stofn tóbakseinkasöluna, þó hann síðar væri kúgaður til þess að eyðileggja hana.

Ég verð að segja það, að mér kæmi ekki á óvart, þó það skeði eftir eitt eða tvö ár, að sjálfstæðismenn héldu því fram, að þeir væru með ýmsum þeim málum, sem þeir nú berjast mest á móti. Annað eins hefir nú skeð. T. d. í afurðasölumálinu. Þeir eyðilögðu það meðan þeir höfðu aðstöðu til, en þegar þeir hafa ekki lengur aðstöðu til að standa á móti því, segjast þeir alltaf hafa verið með því og séu með því. Þannig mun fara um hvert það mál, sem reynist vel. Þessum pólitísku „loddurum“ mun finnast það heppilegt fyrir sig að látast hafa verið með þessum málum á sama hátt og afurðasölumálinu.

Þá var hv. þm. Borgf. að reyna að dylja afstöðu Sjálfstfl. til skipulagsnefndarinnar, og tókst það heldur ófimlega. Hann var að tala um, að þeir vildu komast upp á „Rauðku“ og þá ætluðu þeir að kippa í taumana og ráða miklu um ferðina. Ég vil nú benda hv. þm. á það, að þeir munu síðastir komast á bak og setjast aftast, og ef þeir ætla að halda sér í eitthvað og ná einhverjum tökum, þá munu þeir verða að halda sér í taglið. En ég hefi ekki trú á því, að þeir ráði miklu um ferðina með því móti.

Annars er það svo, að þó að við gerum dálítið að gamni okkar í sambandi við þetta mál, þá er það alvarlegt mál. Það er alvarlegt, að Sjálfstfl. gekkst fyrir útvarpsumræðum um þetta mál til þess að sýna fram á, að Framsfl. væri runninn inn í Alþfl., en nokkrum dögum síðar eru aðrar útvarpsumr., og þá er hægt að upplýsa, að Sjálfstfl. er í þann veginn að tilnefna menn í þessa nefnd. Það er alvarlegt mál, þegar stór stjórnmálaflokkur gerir sig að slíku viðundri.

Ég er að verða búinn með minn tíma, en áður en ég lýk máli mínu get ég ekki á mér setið að rifja upp höfuðatriðin, sem mér hafa fundizt koma fram við þessar umr.

Það er þá fyrst, að komið hefir í ljós í fyrsta skiptið, að Sjálfstfl. hefir lýst því yfir, og það er orðið viðurkennt, að hann vill minnka kaupgetuna og standa á móti dreifingu hennar. Í samræmi við þetta flytur minni hl. fjvn., sem er skipaður fulltrúum þess flokks, till. um niðurskurð verklegra framkvæmda, og beinlínis rökstyður till. með því, að ef verklegar framkvæmdir verði eins og frv. gerir ráð fyrir, verði of mikið um atvinnu á næsta ári. Jafnframt þessu koma hv. stjórnarandstæðingar fram með till., sem mundu hafa þau áhrif, ef ætti að framkvæma þær eins og þær eru fram settar, að greiðsluhallinn yrði á fjárl. um 3½ millj. króna, og þó að þessi útkoma sé tekin, þá er gengið út frá því, að allar till., sem fram eiga eftir að koma frá einstökum þm., verði afgr. beint í pappírskörfuna.

Það hefir ennfremur komið fram, að hv. stjórnarandstæðingar standa á móti öllum tekjuöflunarfrv. stj. og sýna þar með innræti sitt gagnvart fjárhagsafkomu ríkissjóðs og verklegum framkvæmdum í landinu. Af þessu er það svo upplýst, að till. þeirra er ekki annað en loddaraleikur, leikinn fyrir kjósendur þessa lands.

Að svo mæltu býð ég góða nótt og þakka öllum þeim, sem hlýtt hafa á þessar umr. til enda.