24.11.1934
Efri deild: 47. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1836 í B-deild Alþingistíðinda. (2631)

83. mál, útvarpsrekstur ríkisins

Magnús Jónasson [óyfirl.]:

Ég vil byrja á því, svo ég gleymi því ekki, sem hv. frsm. n. sagði síðast, að varla væri óhætt að samþ. breyt. á þessu frv., því þá væri undir hælinn lagt, að þingið gæti afgr. málið. Þetta er hin mesta fjarstæða. Hér liggur enn fjöldi mála, sem stj. mun sjálfsagt ekki láta verða óafgr. Nú er nýkomið hingað til Ed. frv. um tekju- og eignarskatt, mál, sem er svo umfangsmikið, að ekki er hægt að ljúka því nema á nokkuð löngum tíma, og má jafnvel búast við, að það taki breyt. hér, svo það verði að fara aftur til Nd. Það er algengt, að heill hópur af málum fer á milli d. síðustu daga þingsins og nær þó afgreiðslu. Ég á því bágt með að trúa, að ekki sé óhætt að samþ. breyt. á þessu frv.

Viðvíkjandi 1. brtt. minni vil ég aðeins segja það, út af því, sem hv. þm. Dal., flm. brtt. á þskj. 577, sagði, að þessar tvær brtt. geta alveg staðizt hvor hjá annari, vegna þess að þær eru ekki um sama efni. Ef hans brtt. er fyrst borin upp og samþ., þá gæti mín alveg eins verið tekin til greina, því að hans till. er um launaupphæðina, en mín er aðeins viðbót.

Viðvíkjandi því, sem hv. frsm. n. sagði um það, hvort hægt mundi vera að breyta launum núv. útvarpsstjóra, þá hefi ég ekki rannsakað það mál. Ég býst við, að það fari eftir því, hvernig samningar við hann eru gerðir. Ef samningarnir eru til ákveðins tíma, er sjálfsagt ekki hægt að breyta laununum fyrr en tíminn er útrunninn. En með minni viðbót, sem hv. þm. segir, að sé þýðingarlaus, er stj. þó a. m. k. uppálagt að endurnýja ekki samningana við hann, sem gæti orðið því til fyrirstöðu, að honum væru ákveðin laun í launalögum.

Viðvíkjandi þessu eftirlitsstarfi útvarpsstjórans við viðtækjaverzlunina, þá finnst mér n. hefði átt að spyrjast fyrir um það hjá forstöðumanninum, hvert gagn væri af þessu eftirliti, og hvort nauðsynlegt væri að halda því áfram, og hvað mikið ríkissjóður fengi inn aftur fyrir þessar 2 þús. kr. á ári, sem þetta „eftirlit“ kostar. Það væri nógu fróðlegt að vita, í hverju þetta eftirlitsstarf væri fólgið. Ég hefi ekki sem yfirskoðunarmaður landsreikningsins getað komizt að því, að það væri neitt. Þetta er bara grímuklædd launahækkun ofan á þau laun, sem eru þriðjungi hærri en sambærileg laun mundu vera hjá ríkinu eftir launalögunum. — Ég skal ekki fara að blanda mér mikið inn í þær umr., að kona útvarpsstjóra hafi nokkuð álitlega stöðu hjá útvarpinu, en þó má minna á, að þetta er ekki alveg óviðkomandi málinu. Það er víða, t. d. í Danmörku, vöknuð mjög sterk hreyfing um það, að gæta þess, að hjón hafi ekki bæði launaðar stöður hjá ríkinu. Það eru sérstaklega kennarar, sem hafa gert sterk samtök um það, að ef kennarar giftast saman, verði annaðhvort þeirra að láta af störfum. Þetta er alls ekki þýðingarlaust, þar sem maður veit, að fjöldi fólks gengur atvinnulaus, sem er alveg eins hæft til þess að vinna þessi störf. Það þykir því órétt, að menn geti þannig slegið saman tvennum launum, meðan heill hópum manna gengur atvinnulaus. Ég er t. d. alveg viss um, að í þessu tilfelli er fjöldi atvinnulausra kvenna alveg eins fær til þessa starfs eins og kona útvarpsstjórans, að hendi ólastaðri þó.

Hæstv. ráðh. bar fram það svar við minni spurningu um það, hvers vegna launin væru ákveðin svona há, að þar sem breyt. á launum yfirleitt stæðu fyrir dyrum, hefði sér ekki þótt rétt að breyta þessu um stundarsakir. Mér finnst þetta fullgilt svar. En ég vil þá spyrja, hvers vegna stj. hefir ekki fylgt þessari heilbrigðu reglu yfirleitt, og hvers vegna hún hefir þá ekki látið þessar leifar af dýrtíðaruppbót haldast óbreyttar þennan stutta tíma, jafnvel þó henni finnist ástæða til að breyta um.

Þá kem ég að því, sem hæstv. ráðh. sagði og hv. frsm. n. tók undir, að ef sérstakar stofnanir ættu á annað borð að nefna menn í útvarpsráð, þá væri ekki svo gott að ákveða, hvaða stofnanir það skyldu vera. Mér finnst þetta lýsa gagngerðum misskilningi á því, hvaða verk útvarpsráðinu er ætlað. Það er gengið út frá því, að útvarpið sé fræðslustofnun, sem á að taka til meðferðar öll þau efni, sem þjóðfélagið varðar. Þetta hefir verið gert. Búnaðarfélagið, Fiskifélagið og aðrar stofnanir, sem sótt hafa eftir því að koma fræðslu í útvarpið um sín sérstöku mál, hafa fengið það, án þess að eiga þar nokkurn fulltrúa fyrir sinn atvinnuveg. Hitt skal ég játa, að ef útnefna á 3 fulltrúa fyrir fræðslustofnanir í landinu, geti verið spursmál, hvort það eigi að vera barnakennarar, menntaskólakennarar eða háskólakennarar. En það á undir öllum kringumstæðum að vera fræðslustofnun, sem útnefnir þessa menn, því útvarpið er háskóli þjóðarinnar, en Búnaðarfélagið, Fiskifélagið og Alþýðusamband Íslands eiga þarna ekkert erindi. Þessar stofnanir eiga að útnefna víðsýna menn, sem svo vitanlega láta koma fram í útvarpinu fulltrúa fyrir þessar stéttir, og það hefir verið gert.

Ég skal ekki fara mikið út í till. mína um að leggja niður viðtækjaverzlunina. Þetta er alveg óskylt mál, og óviðeigandi að setja það inn í þessi l. Það er hreinasti misskilningur hjá hæstv. ráðh., að ef þessi verzlun er lögð niður, þurfi að sjá útvarpinu fyrir einhverjum öðrum tekjum. Mér dettur ekki í hug að ætla að rýra tekjur ríkisins á neinn hátt. Það verður að sjá fyrir tekjum að því leyti, að það verður að taka upp í fjárl. áætlanir um tekjur og gjöld útvarpsins. Það er eðlilegast, að tekjurnar renni í ríkissjóð, sem svo kostar útvarpið. Hitt er bara skúffupólitík, rétt eins og þegar menn hér áður fyrr, sem ekki voru sérlega reikningsglöggir, voru sendir í kaupstaðinn með aura fyrir þennan og aura fyrir hinn, og höfðu þá alla sér, í staðinn fyrir að slá þeim saman. Svona pólitík á ríkissjóður ekki að reka.

Um bráðabirgðaákvæðið skal ég ekki fara mörgum orðum. Það hefir engin ástæða verið færð fyrir því, hvers vegna þurfi að skipta um. Hv. frsm. n. sagði, að það mundu geta orðið sömu mennirnir aftur. Til hvers er þetta þá? Bara til þess að kjósa þá eftir öðru formi? Hann sagði, að þeir, sem stæðu að frv., réðu engu um það, hverjir þarna yrðu. Mér finnst þeir ráða miklu, þar sem þingið á að kjósa 3 menn og stj. að skipa formanninn. Það væri gaman að spyrja stj., hvort hún ætlar að skipa sama manninn fyrir formann aftur. Það hefir heyrzt, að tilgangur frv. sé nú einmitt sá, að skipta um formann útvarpsráðs, af því að hann hafi villzt af réttum brautum. Þetta er kannske eins og hvert annað bæjarslúður, en það mun sýna sig á sínum tíma, hvort þetta er rétt. Og þá færi maður að skilja þetta bráðabirgðaákvæði og hvers vegna það er svo áríðandi að skipta endilega strax um. Hæstv. ráðh. sagði, að þegar sett væri ný löggjöf, væri venja að láta hana koma strax í gildi. En mér finnst það bara blátt áfram hlægilegt í þessu tilfelli, að halda, að breyt. á kosningu manna í útvarpsráð hafi nokkurn hlut að segja. Það getur verið, að spilaðir verði Straussvalsar í staðinn fyrir Brahmsvalsa. En hvort þjóðin hefir nokkuð upp úr því, skal ég ekki segja. Ég geri ráð fyrir, að starfað verði eftir líkum reglum og áður, og það verða sennilega engar breyt. sem nokkru nema. Ef heppilegra þykir að velja útvarpsráðið svona, getum við sett þessi l., og ég verð að segja, að ég tel það ekki stórt atriði. Útvarpsráðinu er þröngt svið markað til þess að gera stórbreytingar, svo lengi sem útvarpið á að vera það, sem það nú er, háskóli fyrir þjóðina. Öðru máli væri að gegna, ef útvarpið ætti að vera pólitísk stofnun. Þá mundi náttúrlega breyt. á útvarpsráðinu hafa mikið að segja. En meðan útvarpið er hugsað sem skóli, sem flytur það, sem fróðir og vandaðir menn telja heppilegast fyrir þjóðina, er þetta að sjálfsögðu aukaatriði, að láta ekki útvarpsráð það, sem nú situr, enda út sinn starfstíma.