24.11.1934
Efri deild: 47. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1838 í B-deild Alþingistíðinda. (2632)

83. mál, útvarpsrekstur ríkisins

Þorsteinn Þorsteinsson:

Ég vildi aðeins geta þess, að mér kom það á óvart, að hv. frsm. n. skyldi snúast gegn mér með ávítur fyrir að minnast á fleira en vera bæri, þar sem ég minntist á laun konu útvarpsstjórans. Það lá fyrir að ræða um laun útvarpsstjórans, og þá var ekki fjarri lagi að geta um það, hvað mikil laun kæmu frá þessari stofnun inn í bú útvarpsstjórans, og að ég sundurliðaði þessar tekjur, finnst mér ekkert vítavert.

Ég skal geta þess, að við nánari athugun virðist mér rétt að halda fram brtt. minni, enda þótt minni nauðsyn sé á henni, ef 1. brtt. hv. 1. þm. Reykv. nær fram að ganga.

Í gær var verið að brýna okkur sjálfstæðismenn á því, að við bærum ekki fram neinar lækkunartill. á launum starfsmanna ríkisins. Nú hefi ég borið fram eina slíka lækkunartill., og er nú fróðlegt að sjá, hvernig stjórnarflokknum líkar það. Ég hefi fært rök fyrir því, að þessi till. sé mjög sanngjörn og sízt farið of langt niður á við, samanborið við laun embættismanna ríkisins, sem taka laun eftir launalögunum.