24.11.1934
Efri deild: 47. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1838 í B-deild Alþingistíðinda. (2633)

83. mál, útvarpsrekstur ríkisins

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Hv. 1. þm. Reykv. taldi það vera viðbáru hjá mér að telja málinu hættu búna að hrekjast aftur til Nd. En það vildi svo vel til, að þegar hann ætlaði að fara að rökstyðja þetta, kom hann með hinar beztu sannanir fyrir mínu máli. Hann benti á, að mörg þýðingarmikil mál lægu enn óafgr. fyrir þinginu. Það er einmitt þetta, sem ég á við. Ég geri ráð fyrir, að héðan af sé þingtímanum bezt varið til þeirra mála, sem endilega þurfa að fá afgreiðslu. Sþ. fer nú að fást við fjárl., og ég býst við, að störf í d. falli niður á meðan, og þó ýmsir kunni að leggja nokkra áherzlu á þetta mál, þá hefi ég aldrei heyrt það talið með þeim málum, sem þýðingarmest væru á þessu þingi. Ég býst því við, að það geti riðið málinu að fullu, ef á að fara tefja það mikið frá því, sem orðið er. (MJ: Það þyrfti ekki að taka nema 5 mín. í Nd.). Það er eftir því, hvernig Nd. lítur á þær breyt., sem hér eru gerðar. Það er náttúrlega engin hætta á ferðum, ef Nd. liti eins á málið og þessi d. En um það vitum við ekkert.

Viðvíkjandi því, sem 2 hv. þm. hafa fundið að því, að kona útvarpsstjórans hefði launaða stöðu hjá útvarpinu, þá er þetta byggt á þeirri gömlu skoðun, að gift kona sé ósjálfstæð vera að því er fjármál snerti. En þessi gamla skoðun er nú að breytast. Ég hefði t. d. ekkert við það að athuga, þó kona hv. þm. Dal. væri héraðslæknir í Dalasýslu, ef hún hefði læknispróf. Ég sé ekki, að það kæmi hans launum neitt við, eða að verra væri að gjalda henni laun heldur en einhverjum öðrum héraðslækni. Þetta er bara úrelt kredda. Þetta er náttúrlega ekki stórt atriði í þessu máli, en ég kann bara hálfilla við að draga þetta inn í umr.

Þá fannst hv. 1. þm. Reykv. það vera léleg röksemdafærsla hjá mér, að ef sérstakar stofnanir ættu á annað borð að hafa fulltrúa í útvarpsráðinu, þá ættu það að vera fleiri en verið hafa. Hann segir, að útvarpið sé háskóli þjóðarinnar og þess vegna þyrfti ekki fulltrúa frá landbúnaðinum og sjávarútveginum o. s. frv., því fulltrúarnir frá þessum fræðslustofnunum, kirkjunni og háskólanum, mundu að sjálfsögðu sjá fyrir því, að hæfir menn flyttu fróðleik um þessi efni. En hv. þm., sem er háskólakennari, er vel kunnugt um það, að háskólar skiptast í ýmsan deildir og að nauðsynlegt þykir að hafa fagmann í hverri deild. Og ef á að skoða útvarpið sem háskóla þjóðarinnar út frá þessu sjónarmiði, þá skil ég ekki, hvers vegna þarna þurfa ekki líka að vera búfræðingur, fiskifræðingur o. s. frv. Ef þessum mönnum, sem hv. þm. heldur fram, er trúandi til þess að sjá fyrir fullnægjandi fræðslu í landbúnaðar- og sjávarútvegsmálum og þesskonar, sem þeir eru engir fræðimenn í, hvers vegna er þá ekki alveg eins treystandi þeim mönnum, sem Alþ. velur til þess að sjá fyrir fræðslu í útvarpinu?

Það kenndi dálítils misskilnings hjá hv. þm. út af því, sem ég sagði viðvíkjandi þeim mönnum, sem kynnu að verða í útvarpsráðinu. Ég sagði eitthvað á þá leið, að þeir, sem að þessu frv. stæðu, gætu ekki komið í veg fyrir það, þrátt fyrir þessa lagabreyt., að þessir 3 menn yrðu kyrrir í útvarpsráðinu, ef aðrir vildu hafa þá þar. Ég skal taka dæmi. Ef 3 menn eru kosnir hér á Alþ., fær Sjálfstfl. a. m. k. einn, og hann gæti komið að hinum 2 við almennar kosningar útvarpsnotenda. Brtt. þessa hv. þm. er ekki um annað en að þessar 3 stofnanir hafi fulltrúa í útvarpsráðinu áfram. Ég hefi einmitt tekið það fram í fyrri ræðu minni, að ekki væri hægt að hindra það, að þessir menn yrðu kyrrir, ef menn óskuðu þess. Annars eru þetta ekki svo þýðingarmikil atriði, sem á milli ber, að ég vilji eyða lengri tíma en orðið er til þess að karpa um þau.