13.12.1934
Efri deild: 60. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1984 í B-deild Alþingistíðinda. (2638)

124. mál, hlutafjárframlag fyrir h/f Skallagrím í Borgarnesi

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Út af fyrirspurn hv. þm. N.-Ísf. um það, hvort ríkissjóður muni greiða meira en þann styrk, sem áætlaður er í fjárl. til Djúpbátsins, get ég ekki sagt annað en það, sem ég sagði í minni fyrri ræðu. Ég get ekkert ákveðið loforð um það gefið. Ef fyrir liggja t. d. meðmæli með því frá samgmn., þá verða þau að sjálfsögðu tekin til greina af ríkisstj. Ég get ennfremur bætt því við, að á þessu mun verða tekið með fullkomnum velvilja, því að það er kunnugt, hvernig hagar til með ferðir þar vestra og hvaða erfiðleikar eru þar fyrir hendi. En eins og ég hefi áður tekið fram, þá get ég ekki gefið nein loforð um þetta.