01.11.1934
Neðri deild: 25. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1987 í B-deild Alþingistíðinda. (2654)

104. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Flm. (Finnur Jónsson):

Það kom fram við umr. um annað mál hér í d., að ekki væri rétt að bæta við síldarverksmiðjur þær, sem fyrir eru í landinu, án þess jafnframt að gera ráðstafanir til þess að auka skipaflotann. Ég viðurkenndi þá, að það væri full ástæða til að taka þetta til athugunar, og í frv. er einmitt gert ráð fyrir því, að ekki megi reisa verksmiðjur eða stækka þær, sem fyrir eru, nema að fengnu leyfi atvmrh. — Á síðastl. sumri var bætt mikið við síldarverksmiðjur hér, m. a. við síldarverksmiðju þá, sem Norðmenn eiga á Krossanesi. En það, að bætt var við þá verksmiðju, hefir gefið Norðmönnum tækifæri til að selja hér meiri síld en áður, þar sem verksmiðjan getur með viðbótinni samið við fleiri skip en áður. Í frv. þessu, sem við höfum flutt hér, ég og hv. þm. Barð., er ennfremur gert ráð fyrir því, að ríkisstj. hafi, að öðru jöfnu, forkaupsrétt að þeim síldarverksmiðjum, sem þegar eru reistar. Þar sem ríkissjóður hefir svo mikilla hagsmuna að gæta á sviði síldarútvegsins virðast þessi tvö ákvæði alveg sjálfsögð og nauðsynleg í l. Eins og nú standa sakir er gert ráð fyrir því, að stj. síldarverksmiðjunnar skipi 3 menn, en við höfum í þessu frv. gert ráð fyrir því, að fjölga mætti þeim upp í 5, ef aukið sé við verksmiðjuna þannig, að nauðsynlegt þyki að fjölga stjórnarmeðlimunum. Í þessu frv. eru að öðru leyti nokkur nýmæli, þar sem tekið er fram, að stj. verksmiðjunnar skuli hafa aðsetur og varnarþing á Siglufirði, en þar eru flestar ríkisverksmiðjurnar, og er þetta því eðlilegt. Í stj. ríkisverksmiðjunnar hafa stundum verið skipaðir menn, sem aldrei hafa komið til Siglufjarðar yfir síldveiðitímann. Þetta hefir gert það að verkum, að stj. hefir ekki verið ályktunarfær tímum saman. Með frv. er úr þessu bætt, ef að l. verður, því að stj. er skylduð til þess að dvelja yfir síldveiðitímann á Siglufirði, nema stjórnarmeðlimir séu fjarverandi í erindum verksmiðjunnar. Nokkrum atriðum er hér breytt, sem verulegu máli skipta frá því, sem er í eldri l. T. d. er svo ákveðið í gildandi l., að ekki þyrfti að tilkynna útgerðarmönnum, hvort þeir fengju að leggja upp síld í verksmiðjuna fyrr en komið var langt fram í júnímán., en hér er gert ráð fyrir, að þeim sé tilkynnt eigi síðar en 1. júní ár hvert, hvort þeir fá viðskipti hjá verksmiðjunni eða ekki. Það hefir sýnt sig mjög bagalegt, hve seint hefir komið vitneskja frá verksmiðjunni um þetta, en frv. er ætlað að bæta úr því.

Ákvæðum, sem eru í l. um afborganir og fyrningarsjóð, er hér breytt. Nú er gert ráð fyrir því, að verksmiðjurnar borgi sig niður á 20 árum, en greiði auk þess 5% af stofnkostnaði í fyrningarsjóð, en þetta samsvarar því, að verksmiðjurnar tvíborgi sig á 20 árum. Þar sem verðlagið er orðið svo lágt sem nú er, virðist ekki nein sanngirni í að leggja svona miklar kvaðir á þá, er leggja upp síld í verksm., eins og gert var, og var þessu því breytt. í frv., þannig, að fyrningarsjóðsgjaldið er fært úr 5% í 2%, sem samsvarar því, að fyrningarsjóður verksmiðjunnar nemi verksmiðjuverðinu á 50 árum. Af öðrum nýmælum í frv. má nefna breyt. á tímatakmörkunum, sem sett hafa verið fyrir búnaðarfél. og bændur um pöntun á síldarmjöli og afgreiðslu á því. Þá hafa og verið sett hér inn í frv. ákvæði um reikningsskil. Það hefir komið fyrir, að reikningar verksmiðjunnar hafa ekki verið endurskoðaðir fyrr en að haustinu. Það er allt of seint og engin ástæða til að draga það svo lengi. Ennfremur er ákvæði um það, að reikningarnir skuli birtir í stjórnartíð árlega, en hingað til hafa þessir reikningar ekki verið birtir. Þar sem hér er um opinbert fyrirtæki að ræða, þykir rétt að ákveða, að þeir skuli birtir á sama hátt og t. d. reikningar bankanna.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um málið, en legg til, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og sjútvn.