01.11.1934
Neðri deild: 25. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1990 í B-deild Alþingistíðinda. (2656)

104. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Flm. (Finnur Jónsson):

Ég þarf í sjálfu sér ekki að svara miklu því, sem hv. þm. G.-K. sagði, en finn þó ástæðu til að þakka honum fyrir þau rök, sem hann lagði að því, að frv. næði fram að ganga. Hann benti á það réttilega, að það hefði verið bætt svo við síldarverksmiðjurnar á síðastl. ári, og enn yrðu framkvæmdar svo miklar viðbætur á næsta ári, að líkindi bentu til, að aflinn yrði ekki nema 60—70% af því, sem verksmiðjurnar gætu unnið úr. Ég held, að hv. þm. G.-K. hafi þarna gengið fulllangt í því að sanna þörfina á að samþ. frv. Ég held, að meiri síld fáist en hv. þm. G.-K. áætlar, með því að setja fleiri togara á síld, en það mun vera ætlun þeirra, sem byggja verksmiðjurnar a. m. k., og þá greinir okkur ekki svo mjög á. Við erum sammála um það, að það sé full þörf á að athuga, hvort fiskiflotinn geti fullnægt þeirri þörf, sem verksmiðjurnar skapa fyrir síld til vinnslu. Frv., sem hér liggur fyrir, miðar einungis að því. Það miðar ekkert að því, að hefta einstaklingsframtakið í þessum málum, að svo miklu leyti sem bygging síldarverksmiðja ekki fer út í hreinu og beina vitleysu. Og ég vænti, að hv. þm. G.-K. sé mér sammála um, að ef reistar væru fleiri verksmiðjur en svo, að þær gætu unnið úr þeim afla, sem a. m. k. í góðu síldarári kynni að koma á land, þá myndi stefna að því, að nokkur hluti verksmiðjanna stæði uppi án þess að hafa nokkra síld til vinnslu, og það er bæði skaði fyrir þá, sem síldarvinnu stunda, og ríkissjóð. Svo stór skaði, að full ástæða er til að athuga það og láta ekki reisa síldarverksmiðjur alveg forsjárlaust og fyrirhyggjulaust. Mér dettur ekki í hug að halda, að nokkurn tíma verði sú stj. í landinu, að hún takmarki byggingu síldarverksmiðja, ef fiskiflotinn er nægur til þess að veiða fyrir verksmiðjurnar. En hver sú ríkisstj., sem hér situr, mun áreiðanlega athuga það vegna hagsmuna ríkissjóðs, að ekki verði reistar verksmiðjur alveg út í bláinn. Ég ætlast ekki til, eða við flm., að það sé lagður nokkur annar hemill á framtak einstaklinganna en sá, sem nauðsynlegur kann að þykja til þess að bjarga sjávarútveginum frá því að lenda út í öngþveiti vegna of margra verksmiðja.