01.11.1934
Neðri deild: 25. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1990 í B-deild Alþingistíðinda. (2657)

104. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Ólafur Thors [óyfirl.]:

Hv. þm. Ísaf. sagði, að ég hefði lagt sér upp í hendurnar rökin fyrir frv. En ég hygg, að það hafi verið lítið hugsað hjá honum, og skal ég nú sýna fram á það. Það mun vera rétt, sem ég sagði áðan, að það eru ekki sérstök líkindi til þess nú, að á næsta sumri verði síldveiðar stundaðar af nægilega mörgum skipum til þess að fullnægja þörfum þeirra verksmiðja, sem þá verða til í landinu, ef haldið verður áfram og lokið við byggingu þeirra verksmiðja, sem nú er verið að reisa, og hygg ég, að þær tölur, sem ég nefndi áðan í því sambandi, séu réttar. En af því leiðir ekki, að þetta frv. eigi rétt á sér eða styðjist við þörf þjóðarinnar og rökréttan hugsunarhátt. Því að sannleikurinn er sá í þessu máli, að í þessu lýsir sér hin hættulega og í alla staði skaðlega kenning, að einstöku menn eða þingmeirihluti geti verið forsjón þjóðarinnar á öllum sviðum. Gangur þessara mála er sá, og ég vil sérstaklega beina huga hv. þm. Ísaf., sem er form. sjútvn., að því, af því að honum ber skylda til þess að stöðva ekki með nokkru móti eðlilegan vöxt sjávarútvegsins, að ef síldarverksmiðjurnar verða fleiri en þörfin krefur á hverjum tíma, eins og útlit er fyrir, að verði næsta sumar, þá mun aukin samkeppni milli verksmiðjanna hækka verðið á aflanum, sjómönnunum til handa. Það er að vísu full þörf á þeirri hækkun, en hún getur orðið óeðlileg, það játa ég. En hvað er svo næsta stigið? Það, að þessi hækkun örvar fleiri útgerðarmenn til þátttöku í síldveiðunum næsta sumar á eftir. Það getur orðið til þess, að fleiri verksmiðjur verði reistar og síðan fleiri skip gerð út. Þetta er hið eðlilega, óþvingaða lögmál í þessum efnum. Og að það er beint hættulegt að grípa inn í eða reyna að hafa áhrif á þetta lögmál, stafar aðallega af tvennu. Í fyrsta lagi af því, að þótt ekki séu horfur á, að á næsta sumri stundi fleiri skip veiði en svo, að nokkuð skorti á fullnægingu á þörfum þeirra verksmiðja, sem fyrir verða þá, þá er það staðreynd, að til eru óteljandi mörg skip óhagnýtt, sem geta og mundu stunda þessar veiðar, ef þeim eru sköpuð til þess eðlileg skilyrði. Þetta er önnur stoðin, sem rennur undir það, að það sé ekki hægt að grípa hér inn í. Hin er sú, að vegna aðsteðjandi örðugleika sjávarútvegsins á öllum sviðum, þorskveiðum, salt- og ísfiskveiðum, þá er ljóst, að nauðsyn ber til að beina útveginum meira að síldveiðunum en verið hefir. Líkur benda til, að á næstu árum verði okkur nauðugur sá kostur að skerða eitthvað þorskveiðarnar. En við það skapast þörf fyrir hagnýting mannsorkunnar á sviði síldveiðanna, og eins og sakir standa nú, eru ekki líkur til, að þeir örðugleikar séu á sölu þeirra framleiðsluvara, að þeir standi þeirri þróun fyrir þrifum. Þetta verða menn að athuga, þegar þeir taka afstöðu til þessa frv., sem hér er til umr. Samkv. frv. er ekki annað sagt en það, að það megi ekki byggja slíkar verksmiðjur nema með leyfi atvmrh. Það ákvæði er út af fyrir sig að því leyti skaðlegt, að maður getur hugsað sér, að atvmrh. hafi ekki á öllum tímum víðsýni til þess að skilja hið sanna eðli þessa máls, og líkindi til þess, að slíkt ákvæði, er í l. er, dragi heldur úr eðlilegum vexti þessa atvinnurekstrar, en það er skaðlegt vegna þess, að hugsunin bak við þetta ákvæði er skökk. Það er nefnilega ekki rétt, úr því fyrirsjáanlegt er, að aðrar þjóðir eru að setja skorður við þorskveiðunum hér við land, að sú hugsun fái að dafna hér á þ. og koma fram í löggjöfinni, að það beri í þessu efni einungis að miða við það, að verksmiðjurnar, sem fyrir eru, hafi sem bezta afkomu tryggða á öllum tímum. En það er hugsunin, sem liggur á bak við frv. Ég legg áherzlu á og endurtek, að þótt næsta sumar séu líkur til, að verksmiðjurnar fái ekki allan þann afla, sem þær geta unnið úr, þá leiðir það til aukinnar samkeppni; sú aukna samkeppni leiðir til hækkaðs verðlags til sjómannanna og aukinnar útgerðar; sú aukna útgerð leiðir til aukinna verksmiðjubygginga. Þetta er undir venjulegum kringumstæðum hin eðlilega þróun, en undir þessum kringumstæðum, sem við nú lifum undir, þegar verið er að skerða annan aðalatvinnurekstur okkar, þá er hún alveg augljós. Hv. þm. til leiðréttingar vildi ég skjóta þessu fram. Ég gæti svo spurt hann um það, hvort það hafi verið að yfirlögðu ráði, að hann beitti sér fyrir því, að ríkið fór að leggja í nýjan kostnað við síldarbræðslu á Siglufirði. Það er næstum því skoplegt, að ekki skuli vera liðnir nema nokkrir mán. síðan við lögðum því lið hér, að ríkið legði fram fé til þess að leysa þá þörf, sem var á aukinni síldarbræðslu nyrðra. Svo koma sumir af hinum sömu mönnum og vilja banna öllum öðrum að leysa þörfina. Hinsvegar vil ég leiða athygli að því, að ef þessi hugsun, sem liggur á bak við frv., um að girða fyrir óeðlilega samkeppni milli verksmiðjanna, á að færast yfir á önnur svið atvinnulífsins, þá má miklu frekar segja, að þörfin kalli á slíkar framkvæmdir á sviði þorskveiðanna. Það má spyrja hvers vegna? Alþm. samþ. hvað eftir annað, að ríkið veiti aðstoð til þess að kaupa ný skip, sem ætlað er að stunda þorskveiðar um leið og öllum er ljóst, að ekki eru fyrir hendi nein skilyrði til að selja aflann, sem líkur bendi til, að fáist á þessi skip, sem fyrir eru í landinu. Þetta er atriði, sem bæri að athuga með löggjöf, þótt ég hyggi nú, að þetta mætti tryggja með bankastarfseminni í landinu. En hitt er skaðlegt undir núv. kringumstæðum, að ætla að setja l., sem hefta eðlilega þróun á sviði síldarútgerðarinnar, jafnvel þótt einhver hætta sé á því, að verksmiðjurnar hafi ekki fyllilega nóga síld á hverjum tíma, til þess að afkoman væri sem allra bezt. Hér eru tveir aðilar, sem þarf að tryggja: verksmiðjurnar og einkum þó útgerðina sjálfa. En eftir því, sem hv. flm. lýsti tilgangi frv., hefir hann ekki komið auga nema á annan aðilann, ekki þann, sem sízt mátti gleyma.