14.11.1934
Neðri deild: 36. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1846 í B-deild Alþingistíðinda. (2693)

119. mál, tollundanþága fyrir tunnuefni og hamp

Frsm. (Guðbrandur Ísberg):

Í hafnarl. er gert ráð fyrir, að lagt sé vörugjald á allar aðfluttar vörur til hafnarinnar, nema þá alveg sérstaklega tilteknar vörur. Sama er ákveðið í reglugerðum hafnanna, þar sem nánar er tiltekið, hversu hátt gjald þetta skuli vera. Ef ákvæði þessarar brtt. verða lögfest, þá mun það valda talsverðum óþægindum, því að þau myndu grípa víða inn í, og er ekki víst, að hafnarnefndir ættu auðvelt með að átta sig á þessum hlutum, þar sem hér er um iðnað að ræða, sem að mestu leyti er ekki til ennþá, en rís upp síðar.

Ég er hv. þm. sammála um, að bæirnir ættu að gefa hér eftir, en okkur greinir á um annað atriði. Hann vill skylda bæina til þess, en ég vil fá þá til að gera þetta af fúsum vilja.

Viðvíkjandi orðum hv. þm. Vestm. vil ég geta þess, að ekki er rétt með farið, þegar hann segir, að frv. nái aðeins til efnis í síldartunnur. Það nær til efnis í allar tunnur, sem ætlaðar eru til umbúða um innlendar framleiðsluvörur. Og iðnn. undirstrikar í áliti sínu, að það skuli einnig ná til tunna úr málmi. Í öðru lagi er ég ósammála hv. þm. Vestm. að því leyti, að ég fel í sjálfu sér ekki of langt gengið, þó að farið sé fram á, að bæirnir gefi eftir gjöld sín á móts við ríkissjóð, því að bæirnir hafa fyrst og fremst gagn af þessum iðnaði, með því að hann veitir þangað atvinnu. — Að því er síldartunnugerð snertir, eru það aðallega 2 bæir, sem þar koma til greina, sem sé Akureyri og Siglufjörður.

En ég tek það fram, að ég vil, að bæirnir gefi þetta eftir af fúsum vilja, og að þeir séu ekki neyddir til þess með löggjöf, nema sýnt sé, að þess þurfi.