27.11.1934
Neðri deild: 46. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2003 í B-deild Alþingistíðinda. (2696)

104. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Frsm. meiri hl. (Finnur Jónsson):

Ég get tekið undir það með hv. frsm. minni hl., að æskilegt er, að menn setji sig sem bezt inn í þetta mál, og sjálfsagt hefði verið heppilegt, að hv. frsm. hefði gert það sjálfur, áður en hann flutti þessar brtt.

Ég held, að enginn muni nú neita því, að ég hafi talsverðan kunnugleika á því máli, sem hér liggur fyrir. Auk þess studdist ég og hv. meðflm. minn við skýrslu um rannsókn á síldarbræðslustöðvunum, er við sömdum frv. Rannsókn þessi fór fram í haust að tilhlutun atvmrh., og var framkvæmd af kunnugum manni, Sveini Benediktssyni. Hún snerist, eins og skýrslan ber vott um, einkum um það, hversu síldarbræðslustöðvar þær, sem til eru, fullnægðu síldarvinnsluþörfum landsmanna. Skýrsla þessi virðist í alla staði óhlutdræg og samin af vandvirkni. En þar sem hún er löng og mikið af tölum í henni, mun ég ekki lesa hana alla, heldur aðeins nokkrar tölur og tilvitnanir, til stuðnings máli mínu.

Sumarið 1934 hefðu verksmiðjurnar getað brætt með 55 daga vinnslu 634700 mál, en bræddu ekki nema 452712 mál. Verksmiðjurnar hafa því brætt 181985 málum minna en þær gátu annað.

Meðalafli togara er um 8200 mál yfir sumarið sem leið. Verksmiðjurnar hefðu því getað tekið í viðbót við síld af 22 togurum, án þess að offyllast.

Næsta sumar er gert ráð fyrir, að verksmiðjurnar geti brætt um 992200 mál eða um 540000 málum meira en þær bræddu í fyrra, miðað við sama tíma. Þetta gefur sannarlega ástæðu til að athuga, hvort rétt sé að láta byggja nýjar síldarverksmiðjur af handahófi, án þess að sjá fyrir því samtímis, að til séu veiðiskip, sem fullnægja verksmiðjunum.

Í skýrslunni segir svo, m. a.:

„Til þess að afkastagetu verksmiðjanna næsta sumar, ca. 992200 málum, sbr. skýrslu nr. 2, yrði fullnægt, þyrfti bræðslusíldarafli þeirra skipa, sem líklegt er, að á síldveiðar fari, og bræðslusíld af útlendum skipum, sbr. skýrslu nr. 7, að aukast um samtals ca. 451499 mál, miðað við sama afla á hvert skip og fékkst í sumar. M. ö. o., bræðslusíldaraflinn á hvert skip að aukast um 83,5% að meðaltali, og það síldarmagn, sem verksmiðjurnar fengju af útlendum skipum, að aukast hlutfallslega eins.

Geri maður ráð fyrir góðu síldveiðisumri næsta sumar, ætti afli sömu skipa og voru á síldveiðum í sumar, að viðbættum afla þeirra skipa, sem sennilegt er, að bætist við, að nema ca. 681500 málum, sbr. skýrslu nr. 8. Leggi maður þar við 60% eða 165600 mál af áætlaðri afkastagetu Krossaness- og Raufarhafnarverksmiðjanna næsta sumar, sem þessum verksmiðjum er, samkv. norsku samningunum, heimilt að kaupa af útl. skipum, þá verður heildarbræðsluaflinn 847100 mál samkv. skýrslu nr. 8, eða 145 þús. málum minni en áætlað er, að síldarverksmiðjurnar geti brætt næsta sumar, miðað við 55 daga vinnslu.“

M. ö. o., að í bezta síldarsumri vantar 145 þús. mál til þess, að öll væntanleg veiðiskip geti fyllt verksmiðjurnar, og er þó gert ráð fyrir, að keypt síld af erlendum skipum aukist úr 90 þús. upp í 160 þús. mál.

Ég mun ekki fara öllu lengra út í þessa skýrslu, en vil þó lesa upp niðurstöður Sveins Benediktssonar. Hann segir að lokum:

„Niðurstaðan af athugunum mínum er sú, að afkastageta verksmiðjanna á næsta sumri muni, eftir væntanlega aukningu, talsvert meira en samsvara þeim bræðslusíldarafla, sem líklegt er, að fáist á þann flota, sem á síldveiðar fer, enda þótt gengið væri út frá góðu aflasumri.“

Í samræmi við þetta lagði þessi kunnugi maður til, að ekki væri byggð á þessu ári ný verksmiðja við Húnaflóa. Hann bar þetta fram í fiskiþinginu, og lagði fram rökstutt álit þess efnis, að síldarverksmiðjur þær, sem þegar eru til, gætu vel unnið úr síldaraflanum næsta sumar, jafnvel þótt mörg síldveiðaskip bættust við. Þótt allur togaraflotinn stundaði síldveiðar, myndi hann ekki gera betur en fylla verksmiðjurnar. En það eru engar líkur til þess, að svo fari, enda ekki heldur æskilegt. Það mun verða sjávarútveginum fyrir beztu, að flotinn skipti sér á sumrum á síldar- og ísfiskveiðum. Ég vil því vona, að hv. d. felli ekki niður það ákvæði frv., að banna einstökum mönnum að reisa nýjar verksmiðjur.

Ég harma það, að hv. þm. Vestm. skuli ekki hafa kynnt sér málið betur, áður en hann flutti brtt. sínar, en það myndi hann ekki hafa gert, hefði hann farið í hina sömu smiðju og ég, þ. e. kynnt sér skýrslu Sveins Benediktssonar.

Ég vil þá víkja nokkuð að brtt. minni hl. sjútvn.

Minni hl. gerir ráð fyrir, að stj. verksmiðjanna skuli vera kosin af Sþ., en formaður hennar skipaður af atvmrh. Ennfremur vill minni hl. fjölga um tvo í stj. verksmiðjanna, en í frv. er ætlazt til, að slíkt verði því aðeins gert, að ríkið bæti við sig verksmiðjum, svo að þörf verði fyrir þá fjölgun. Ég álít, að alveg nóg sé að hafa þrjá menn í stj. meðan ríkið reisir ekki verksmiðjur víðar en á Siglufirði. Ég get ekki heldur séð, hvaða ástæða er til þess að breyta gildandi verksmiðjulögum og láta Sþ. kjósa stj. L. var breytt 1933 í þá átt, að atvmrh. skipaði alla þrjá mennina, með því að slíkt fyrirkomulag þótti eðlilegt. Breyt. fluttu þá í Ed. hv. 2. þm. S.-M., hv. 3. þm. Reykv. og hv. 2. þm. Eyf. Í Nd. lagði sjútvn. einróma með því, að þessar breyt. næðu fram að ganga, en þá átti einmitt hv. þm. Vestm. sæti í sjútvn. Hvað hefir nú valdið þessari skoðanabreyt. hv. þm. Vestm.? Hvað er það, sem veldur því, að hv. þm. Vestm., sem fyrir 1½ ári lagði til, að stj. væri skipuð af atvmrh., leggur nú til, að hún sé kosin af Sþ.? Ég get ekki fundið neina aðra skynsamlega skýringu á þessum straumhvörfum hv. þm. en þá, að nú sé kominn annar atvmrh. Hinsvegar get ég ekki annað séð en að sömu ástæðurnar séu fyrir hendi nú eins og 1933, þegar báðar sjútvn. Alþ. lögðu með því, að atvmrh. skipaði þessa síldarbræðslustjórn. Ég skal þó taka það fram, að ég álít alls ekki æskilegt, að þessi stj. sé pólitískt einlit eða skipuð aðeins tveim flokkum í landinu, heldur að í henni séu menn úr öllum flokkum. — Aðra till. um verksmiðjustj. frá þessum tveim hv. þm. eru frekar til spillis, eins og þessi, sem ég hefi þegar nefnt, t. d. sú, að undanþiggja verksmiðjustj. því, að eiga aðsetur á Siglufirði yfir síldveiðitímann. Það hefir komið fyrir a. m. k. einu sinni, að heilt starfstímabil verksmiðjunnar var ekki nema einn úr stj. á Siglufirði. Þetta álít ég óheppilegt. Ég álít, að verksmiðjustjórnarstarfið eigi ekki að vera bein handa mönnum, heldur starf, sem þeir verða að gefa sig að. Þess vegna höfum við flm. sett það ákvæði í frv., að stj. skuli eiga aðsetur á Siglufirði yfir síldveiðitímann, nema þeir séu fjarverandi í erindum verksmiðjanna.

Þá hefir minni hl. n. viljað taka upp í verksmiðjulögin, að framkvæmdarstjórinn sé ráðinn til eins árs í senn. Okkur flm. finnst eðlilegra, að framkvæmdarstjórinn sé ráðinn til óákveðins tíma og hefði þá að sjálfsögðu 6 mán. uppsagnarfrest.

Í gömlu síldarverksmiðjul. er gert ráð fyrir því, að ríkisstj. sé heimilt að selja verksmiðju samvinnufél. síldveiðimanna, og eru um það ströng ákvæði. Þessum ákvæðum höfum við flm. að mestu leyti haldið. En minni hl. vill breyta þessu þannig, að í staðinn fyrir samvinnufél. komi félag síldveiðimanna, og auk þess þurfi þessi félagsskapur ekki að vera almennur eins og gert er ráð fyrir í okkar frv. og gamla verksmiðjufrv. Þessa brtt. hygg ég mjög til skaða, vegna þess, að með henni er ekki girt fyrir það, að verksmiðjur séu seldar tiltölulega fámennu félagi manna, en það álitum við flm. ákaflega óheppilegt.

Þá kem ég að brtt. minni hl. við 8. gr. frv. Þær hníga að því, að í staðinn fyrir, að við flm. gerum ráð fyrir, að eigendum sé greitt söluverð afurða, að frádregnum stjórnarkostnaði og öðrum venjulegum rekstrarkostnaði, þar með taldir vextir af stofnkostnaði, eins og hann er á hverjum tíma, afborgunum af stofnkostnaði, svo sem um er samið við lánveitendur eða ríkissjóð, komi, að stofnkostnaður með vöxtum greiðist með jöfnum greiðslum á 20 árum. Þessi brtt. er óþörf vegna þess, að þau lán, sem ríkissjóður hefir nú fyrir 2 stærstu verksmiðjurnar, eru einmitt 20 ára hin, og það er engin ástæða til, að ríkissjóður fari að heimta fljótari afborganir af síldarverksmiðjunum heldur en svo, að hann geti staðið skaðlausan straum af þeim lánum, sem hann tekur vegna verksmiðjubygginganna. Þó má geta þess, að verksmiðja dr. Pauls á að borga upp á 6 árum, og er það vitanlega of fljót afborgun. En mér hefir dottið í hug að leggja til, að á meðan þær afborganir færu fram, skuli ekki reiknast fyrningarsjóðsgjald af verksmiðjunni. Ég býst við að koma með það sem bráðabirgðaákvæði við 3. umr., ef frv. nær fram að ganga óbreytt. Þetta munar með því fyrningarsjóðsgjaldi, sem nú er í l., um 15 þús. kr. á ári. Hinsvegar má geta þess, að sú verksmiðja var mjög ódýr, og hennar rekstur er að mörgu leyti svo hagkvæmur, að verksmiðjan ætti að geta staðið straum af þessum afborgunum, en þó tel ég rétt að fella niður fyrningarsjóðsgjaldið meðan þessar afborganir fara svona ört fram.

Þá hefir minni hl. tekið upp í sínar brtt. það ákvæði, sem við höfum breytt í okkar frv. frá eldri l., um það að reikna fyrningarsjóðsgjald af verksmiðjunum 2% í staðinn fyrir 5%. Falla því okkar till. þar saman. Hinsvegar hefir minni hl. gengið það lengra en við í meiri hl., að þeir vilja alveg fella niður gjald í varasjóð. Mér finnst þetta vera óvarleg till. Gjaldið í varasjóð sýnist að vísu nokkuð hátt eins og það er í frv., en það er í raun og veru ekki eins hátt og það sýnist, vegna þess, að ekki hefir verið reiknað varasjóðsgjald af söluverði afurðanna, þegar búið er að vinna þær, heldur hefir ætíð verið reiknað af kaupverði síldarinnar.

Till. minni hl. n. ganga því eins og till. meiri hl. n. og flm. frv. í þá átt að búa þannig að rekstri ríkisverksmiðjanna, að hægt sé að borga nokkuð hærra verð fyrir síldina en gert hefir verið undanfarin ár. Með þeirri breyt., sem við flm. gerum ráð fyrir, munar þetta ekki svo litlu. Við gerum ráð fyrir því, að fyrningarsjóðsgjaldið verði lækkað á gömlu ríkisverksmiðjunum úr 5% niður í 2%, og mismunurinn á því gerir um 42 þús. kr. á ári, miðað við þessa árs vinnslu. Þá fellur niður afborgun og vextir til Siglufjarðarkaupstaðar, sem nemur 16 þús. kr. á ári. Auk þess munum við gera ráð fyrir, að fyrningarsjóðsgjald dr. Pauls-verksmiðjunnar falli niður fyrir þann tíma, sem afborganir eru að fullu greiddar, og nemur það 15500 kr. á ári. Þetta allt nemur 73 þús. kr. — Nú skal ég taka það fram, að því verður ekki með neinum rökum neitað, að bygging síldarverksmiðja ríkisins hefir gert það að verkum, að síldarútvegurinn hefir getað starfað undanfarin ár. Það er viðurkennt af öllum, að ef þessar verksmiðjur hefðu ekki verið starfandi, hefði síldarútvegurinn lagzt í rústir að miklu eða öllu leyti. Ég vil gera þær kröfur til ríkisins, að það græði ekki á þessari aðstöðu, sem það hefir fengið gagnvart síldarútveginum, en aftur á móti treysti ég mér ekki til þess að gera svo óvarlegar kröfur til ríkisins um þetta, að vel geti svo farið, að það tapi stórfé.

Ég ætla, að mér sé nokkuð treystandi að fara bil beggja í þessum kröfum, vegna þess að það fyrirtæki, sem ég stjórna, hefir á undanförnum 3 árum lagt til um 1/3 þeirrar síldar, sem eldri ríkisverksmiðjan hefir unnið. Og þær kjarabætur, sem farið er fram á eftir mínum till. og minna meðflm., til sjómanna, hefðu dregið þetta fyrirtæki á síðastl. 2 árum um 10 þús. kr. á hverju ári. Lækkun sú, sem fengizt hefir á síldartollinum á þessu þ. hefði dregið þetta sama fyrirtæki um 8 þús. kr. M. ö. o., þær kjarabætur fyrir sjómenn, sem ég er meðflm. að á þessu þ., mundu draga þetta eina fyrirtæki um 24 þús. kr. frá því, sem nú er. Þar af færu 12 þús. kr. til sjómanna og aðrar 12 þús. kr. til útgerðarinnar sjálfrar. Ég vil undirstrika þetta af því, að mér fannst hv. 6. þm. Reykv. vera að tala um, að við séum of kröfulitlir í garð ríkissjóðs fyrir hönd sjómanna. Ég tel, að á einu ári sé þarna unnið meira heldur en sjómenn hefði nokkurn tíma getað dreymt um, og að ekki sé rétt að krefjast meira á einu ári. Þær upphæðir, sem hér er um að ræða, hefðu dregið sjómenn á þessum skipum á síðastl. ári um 100 kr. á hlut, og ætla ég, að þeirra hlutur hafi verið um 600 kr. Þetta er því dálítil hækkun frá því, sem áður var, hækkun, sem er mjög sanngjörn, af því að þessum atvinnuvegi sérstaklega hefir verið af ríkisins hálfu ofþjakað með sköttum. Nú er komin á þessu nokkur breyt. fyrir atbeina þeirra tveggja þingflokka, sem nú mynda stj. Ég tel víst, að þessar kjarabætur hefðu alls ekki fengizt með öðru móti heldur en með samvinnu þessara tveggja flokka. Ég ítreka það, að þessar till., bæði um lækkun síldartollsins og eins um lækkun lögboðinna gjalda til síldarverksmiðjanna, ganga svo langt, að ég tel ekki rétt að fara lengra að sinni. Ég tel þó rétt að lækka nokkuð fyrningarsjóðsgjald af eldri ríkisverksmiðjunni og reikna það ekki hærra verði en sem svarar 1 millj., af því að verksmiðja af sömu stærð myndi ekki kosta meira uppkomin núna.

Aðrar brtt. minni hl. eru heldur smávægilegar, eins og þær, að hækka megi það verð, sem á að greiða eigendum við afhendingu, upp í 85% af áætlunarverði síldarinnar nýrrar. Ég álít þetta dálítið óvarlegt, en mundi þó geta sætt mig við 80%.

Ein brtt. minni hl. er ekki annað en hreinn útúrsnúningur. Það er till., sem byggist á því, að aldrei eigi að greiða sjómönnum hærra verð fyrir sína síld en eftirstöðvar af áætlunarverði. Í 8. gr. frv. stendur: „Eigendum skal greitt söluverð afurða þeirrar síldar, sem tekin er af þeim til vinnslu, að frádregnum stjórnarkostnaði“ o. s. frv. Og ennfremur: „Áætlunarverð síldarafurða, ákveðið samkv. þessu og með hliðsjón af 6. gr., má greiða eigendum með allt að 70% við afhendingu síldar til vinnslu, en eftirstöðvarnar, ef nokkrar verða, eftir að reikningsskil hafa verið gerð um sölu hvers árs.“ Vitanlega er átt við eftirstöðvar söluverðs, eins og stendur í upphafi þessarar gr., en ekki eftirstöðvar áætlunarverðs, enda hafa flm. séð, að þessi fullyrðing var hæpin, því þeir hafa, til þess að geta látið þennan útúrsnúning standast, leyft sér að bæta orði í sviga inn í málsgrein, sem þeir annars hafa tekið með gæsarlöppum upp úr frv. Þó í smáu sé, sýnir þetta löngun minni hl. n. til þess að sýna frv. í öðru ljósi heldur en það er hér fram borið.

Ákvæðið um, að bændur skuli hafa pantað síldarmjöl fyrir 15. ág., er vitanlega smáatriði. Áður var gert ráð fyrir því, að þeir pöntuðu síldarmjöl fyrir 31. júlí, en því höfðum við flm. breytt í 15. ágúst.

Ég skal nú ekki tefja tímann mikið lengur. Ég held, að ég hafi með minni ræðu sýnt fram á, að till. minni hl. n. í þessu máli eru sprottnar af meiri misskilningi og skorti á því að hafa kynnt sér alla málavöxtu en maður skyldi ætla, þegar maður sér þetta langa nál. þeirra. Þeir hafa að sjálfsögðu haft aðgang að sömu upplýsingum og ég, og ég geri ráð fyrir, að þeim hafi verið innan handar að snúa sér til ríkisverksmiðjustj. og fá hennar álit um það, hve heppilegt væri að byggja síldarverksmiðjur algerlega út í bláinn. Þeir hefðu líka getað fengið upplýsingar um það, að óvarlegt sé að fella niður varasjóðsgjaldið með öllu. — Ég veit, að við viljum allir, flm. frv. og hv. minni hl., miða að því sama í þessu máli, að hækka nokkuð síldarverðið til sjómanna. Ég álít, að sú hækkun, sem frv. fer fram á, sé það, sem hægt er með sanngirni að krefjast, en hinsvegar séu till. þær, sem hv. minni hl. hefir lagt fram í þessu máli, ósanngjarnar í garð ríkisins, sem hefir tekið á sig svo mikla áhættu sem hér er raun á orðin, og mun halda áfram að hafa mikla áhættu af þessum atvinnurekstri, til þess að hann ekki leggist í kalda kol. — Ég mælist því til, að d. felli till. hv. minni hl. sjútvn., að þessum ástæðum athuguðum.