27.11.1934
Neðri deild: 46. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2011 í B-deild Alþingistíðinda. (2698)

104. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Frsm. meiri hl. (Finnur Jónsson):

Ég get verið stuttorður við að svara hv. 6. þm. Reykv. Í stað þess að halda sér við efnið, eins og hann gerði í fyrri ræðu sinni, þá tók hann upp sinn venjulega máltón og gaf upp alla vörn við að ræða málið með rökum. Ég hefi hér fyrir framan mig, á sömu skýrslu og ég gat um áðan, yfirlit yfir bræðslusíld á árunum 1927 til 1934, og hæsti bræðslusíldarafli á þessum árum er á árinu 1933, 501454 mál. Ég hygg, að verksmiðjur þær, sem verða til starfa teknar næsta sumar, geti brætt um 990 þús. mál. M. ö. o., það þarf skipastól til þess að fullnægja vinnsluþörf verksmiðjanna, sem nemur h. u. b. 490 þús. málum meira en 1933. Nú er meðalafli togara á beztu árum ekki yfir 15 þús. mál, eða m. ö. o., þó að bætt sé við á síldveiðar, á því hæsta bræðslusíldarári, sem komið hefir, 30 togurum með 15 þús. mála afla hverjum, þá gerir það ekki betur en að fullnægja vinnsluþörf þeirra verksmiðja, sem nú þegar eru til í landinu og verða til á næsta sumri. Segi svo hver sem vill, þegar bæði ríkið og einstaklingar eiga svo mikið undir þessu sem raun er á, að ekki sé ástæða til þess, í hvert skipti, sem reisa á nýja síldarbræðsluverksmiðju, að athuga, hvort skipastóll landsmanna hefir möguleika til þess að flytja svo mikla síld í verksmiðjurnar, sem nauðsynlegt er, til þess að þær geti borið sig.

Hv. 6. þm. Reykv. sagði, að það mundu tiltölulega fáir láta skip fara á síldveiðar, ef ríkið ætti að taka við allri síldinni. Ég veit ekki betur en að ríkisverksmiðjurnar hafi á hverju ári ekki getað tekið við allri þeirri síld, sem menn hafa viljað leggja þar upp. Hinsvegar er það vitanlegt, að togararnir geta ekki veitt síld fyrir það verð, sem hingað til hefir verið borgað fyrir hana. En þær till., sem við hv. þm. Barð. flytjum, miða að því, að hækka síldarverðið, til þess að togararnir geti farið á síldveiðar. Og ég ætla, að þeir geti veitt fyrir Norðurlandi með því að fá 12% hækkun, svo sem þeir ættu að fá eftir mínum till., eins og ég hefi leitt rök að, og hv. 6. þm. Reykv. hefir ekki reynt til þess að hrekja. Hv. þm. talaði mikið um það, hve síldarútgerð þeirra togara, sem hefðu lagt upp í verksmiðjur einstaklinga, hefðu skilað ágætum árangri. Mér datt þá í hug, að ég hefði við hendina skýrslu frá milliþn. í sjávarútvegsmálum, og að fróðlegt væri að vita, hvað þessi skýrsla segði um þetta atriði. Hún segir, að 1929 hafi 8 togarar stunduð síldveiðar, og rekstrarhalli þá verið 75 þús., 1930 10 togarar og rekstrarhalli 87 þús. kr., 1931 6 togarar og rekstrarhalli 83 þús. kr., og 1932 7 togarar og rekstrarhalli 88 þús. kr. M. ö. o., rekstrarhalli fer ekki á neinu ári niður úr 11 þús. kr. á skip, og þetta eru undantekningarlaust eða lítið skip, sem hafa lagt síldina upp í það, sem hv. 6. þm. Reykv. kallar eigin verksmiðjur.

Ég er alveg hissa á því, hvað hv. 6. þm. Reykv. er ókunnugur sínum eigin skýrslum, eða er það af því, að tilhneigingin hjá honum til þess að segja ósatt er svo rík, að honum er ómögulegt að fara eftir því, sem hann er sjálfur nýbúinn að staðfesta um þessi mál.

Hv. 6. þm. Reykv. fullyrti, að þetta frv. væri flutt eingöngu til þess að skipta um stj. verksmiðjanna. Ég verð að segja það, að vitanlega vakir það fyrir mér, en um hina aðra flm. get ég ekki sagt, að þessi stj. verði skipuð þannig framvegis, að flokkarnir eigi þar allir menn, en hinsvegar er, að aðaltilgangur frv. er sá, að hækka síldarverðið til sjómannanna. Það er einn liðurinn í þeirri baráttu, sem hefir verið hafin hér af Alþýðuflokksmönnum, til þess að reyna að búa betur að síldarútveginum en gert hefir verið á undanförnum árum af t. d. Sjálfstæðisfl. þau árin, sem hann hafði meirihl.aðstöðu á Alþingi.

Persónulegum hnífilyrðum hirði ég ekki um að svara, og eins get ég látið vera að eyða orðum að þeirri staðhæfingu hv. 6. þm. Reykv., að það sé alltaf tryggt, að ráðvendnin sé nóg hjá meðlimum Sjálfstfl. Þeim, sem þekkja fjármálasögu þeirra manna flokksins, sem undanfarin ár hafa setið hér á Alþ., þarf ekki neitt um þetta að segja, og þeir vita, að slík staðhæfing sem þessi er blátt áfram hlægileg.