27.11.1934
Neðri deild: 46. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2012 í B-deild Alþingistíðinda. (2699)

104. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Það hefir komið í ljós við þessar umr., að það var ekki að ástæðulausu, þegar ég hélt því fram hér við umr. um kaup á síldarbræðsluverksmiðju, að þær verksmiðjur, sem til eru, þyrftu að fá afla til viðbótar því, sem þær hefðu haft úr yfir 20 togurum. Mér sýndist því, að varlega ætti að fara í kaup á verksmiðjum, því að fullerfitt mundi veitast að fá afla í þær verksmiðjur, sem þegar eru til eða verða til á næstunni, til þess að rekstur þeirra gæti borið sig.

Mér virðist nú, úr því að svona er komið, að hvetja verður til síldaröflunar eftir því, sem föng eru til, að þá sé ekki önnur leið til en sú, að reyna að draga sem allra mest úr þeim kostnaðarliðum, sem dregnir eru frá því verði, sem framleiðendur fá. Og þó að það sé um talsvert mikið fé að ræða fyrir síldarbræðsluverksmiðjurnar, þar sem varasjóðsgjaldið er, sem var síðastl. ár um 30 þús., þá getur það meira en unnið sig upp aftur fyrir þær, ef þær fá 10 þús. mál fram yfir það, sem annars mundi verða, og er það ekki mikið, þegar litið er á það, að þær síldarverksmiðjur, sem nú eru til, verða að fá a. m. k. á 4. hundrað þús. mál til þess, að rekstur þeirra geti borið sig.

Ég ætla ekki að ræða mikið um frv. það, sem hér liggur fyrir, eða brtt. við það, en ég vil þó taka það fram, að mér finnst stefna til vandræða með svona stór atvinnufyrirtæki eins og hér um ræðir, ef á að draga þau inn í pólitík meira en ástæða er til. Ég verð að segja það, að ég er því miður hræddur um, að framkoma þessa frv. miði fyrst og fremst að því, að hægt sé að breyta til í stj. verksmiðjanna. Því hefir verið haldið fram í blöðunum, að það sé óviðurkvæmilegt, að meiri hl. stj. sé í andstöðu við ríkisstj. En hvernig getur annað orðið, eftir því sem l. eru um þetta mál, en að það geti komið fyrir, að meiri hl. verkmiðjustj. verði í andstöðu við ríkisstj. Það hlýtur að verða svo alltaf, þegar skipt er um stj. í landinu. Ég get fallizt á það, að ef farið verður að skipa verksmiðjustj. eftir því, hvernig flokkum er háttað á þingi, þá sé eina rétta leiðin sú, að flokkar þingsins taki þessa ákvörðun og skipi verksmiðjustj. Æskilegast væri, að allir flokkar væru þá í sameiningu um það, án tillits til þess, hvort þeir eru stórir eða smáir. Ef á að fara eftir atkvæðamagni flokkanna, er sjálfsagt, að sá atkvæðastyrkur, sem á þinginu er, fái að njóta sín, og ef þessar brtt. verða samþ., þá er tryggt með því, að verksmiðjustj. verði í hvert skipti í samræmi við ríkisstj., en það hefir sérstaklega verið fundið að þeirri verksmiðjustj., sem nú er, að svo hefir ekki verið.

Það er þess vegna þetta tvennt, sem ég vil leggja sérstaka áherzlu á. Í fyrsta lagi, að stj. þessara fyrirtækja verði sem frekast er unnt haldið utan við pólitík, en ef það er ekki hægt, þá að þingflokkarnir hafi þar fulltrúa eftir því, hvaða atkvæðamagni þeir hafa yfir að ráða, og í öðru lagi, að með löggjöf verði lögð áherzla á að ýta undir þá, sem ástæðu hafa til þess að gera út á síldveiðar, til þess að verksmiðjurnar fái sem mest verkefni að vinna. En það er sjáanlegt eftir þeim skýrslum, sem frsm. meiri hl. var að lesa hér upp, að afkoma þeirra skipa, sem á síldveiðar hafa farið undanfarin ár, hefir ekki verið góð, og þær skýrslur út af fyrir sig hvetja ekki til slíkra framkvæmda. Það þarf að koma einhver ný von um meiri hagnað, til þess að hægt sé að fá þessa auknu framleiðslu, sem nauðsynleg er vegna verksmiðjanna sjálfra, svo að rekstur þeirra geti borið sig. Þetta er um leið stórkostlega þýðingarmikið mál fyrir atvinnulífið í landinu og fjárhagslega afkomu þjóðarinnar, um það að skapa sér valútu, en erfitt er nú að komast af með því, sem þegar er fyrir hendi og líkur eru til, að þjóðin hafi yfir að ráða.

Ég fer ekki út í ágreiningsatriði þau, sem hér hafa komið fram. Ég vil aðeins undirstrika það, að þó að verksmiðjurnar verði fyrir þeirri fjárhagslegu veiklun, að dregið sé úr varasjóðstillaginu, þá geta þær margfaldlega unnið það með aukinni framleiðslu og betri afkomu ríkisverksmiðjunnar. Því það er ekki tryggt með núverandi ástandi verksmiðjanna, að þær geti hagað svo rekstrinum, að þótt ákveðið sé í l., að leggja skuli 5% af ágóðanum í varasjóð, þá sé hægt að fullnægja því ákvæði. Það hefir komið fyrir, að þessu hefir ekki verið hægt að fullnægja nema að nokkru leyti. Og það getur svo farið, að ekki verði hægt að fullnægja því að neinu leyti. Þýðir því lítið að hafa í l. þetta ákvæði.