16.11.1934
Neðri deild: 38. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1848 í B-deild Alþingistíðinda. (2708)

119. mál, tollundanþága fyrir tunnuefni og hamp

Emil Jónsson:

Örfá orð út af brtt. á þskj. 465. — Ég tel í raun og veru, að þessi brtt. eigi rétt á sér, en þó held ég, að hún þurfi athugunar við.

Hér er nú ein kassagerð starfandi. Forstöðumaður hennar hefir tjáð mér, að hann kaupi efni sitt af ýmsum timburverzlunum hér í bænum. Það yrði því eins og stendur næsta örðugt að hafa eftirlit með því, hvaða efni er notað hér til kassagerðar. Ég hefi spurt forstöðumann kassagerðarinnar, hvaða öruggt ráð hann gæti bent á til þess að ekki yrði farið í kringum ákvæði það, sem í brtt. felst, en hann kvaðst að svo stöddu ekki geta bent á óyggjandi ráð til þess.