19.10.1934
Efri deild: 16. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1854 í B-deild Alþingistíðinda. (2732)

75. mál, varðskip landsins og skipverja á þeim

Jón Auðunn Jónsson:

Ég hefi ekki getað orðið flm. þessa frv. og skal gera grein fyrir, hvers vegna. Eins og menn vita, eru launakjör þessara starfsmanna ríkisins sett með l. frá 1928, og var þá meiningin sú, og hefir líka verið svo í framkvæmd, að mennirnir, sem hér um ræðir, hafi nokkru ábyggilegri vinnu heldur en stéttarbræður þeirra hjá einstaklingum. Þetta hefir verið framkvæmt þannig, að þó að skipin hafi legið uppi mánuðum saman, þá hafa þessir skipverjar fengið sín laun. Annarsstaðar mun það vera venja, að sé skipi lagt upp yfir lengri tíma, er skipverjum sagt upp, og einnig yfirmönnum skipanna, að ég ekki tali um erlendis, þar sem menn eru afskráðir strax og þeir koma í höfn, svo að segja hvað stutta dvöl sem skipið hefir.

Það er rétt, að laun þessara starfsmanna ríkisins hafa lækkað, en það er í fullu samræmi við laun annara starfsmanna ríkisins. Það hefir, með því að dýrtíðaruppbót var lækkuð, orðið lækkun á launum allra starfsmanna ríkisins, og sú lækkun mun nema frá því á árinu 1922 nálægt 800 þús. kr. á ári fyrir ríkissjóð. Það er eðlilegt, ef miða á við, hve mikil dýrtíð er í landinu, að laun opinberra starfsmanna lækki með lækkaðri dýrtíð, því að öðrum kosti er sjáanlegt, að lenda muni í öngþveiti fyrir atvinnuvegum landsins. Ég tel, að það séu nokkuð tvísýnir hagsmunir fyrir þessa menn að fá þessa breytingu, því að ef svo væri, að þeir væru ráðnir með sömu kjörum og yfirmenn á skipum hjá öðrum atvinnurekendum, þá er sennilegt, að útgerðin mundi sjá sig knúða til þess, þegar hún vissi það fyrirfram, að skipið mundi liggja 2 til 3 mánuði aðgerðarlaust, að segja mönnunum upp, þar sem þeir væru ekki fastir starfsmenn ríkisins. Á þessu gætu þeir tapað eins miklu og meiru heldur en þeir ynnu með því að hafa sömu kjör og stéttarbræður þeirra á verzlunarskipum og strandferðaskipum. Verði þetta hinsvegar ekki gert, þá er hér um aukinn kostnað að ræða fyrir ríkissjóð, en nú er því miður svo ástatt, eins og hv. flm. gat um, að það er langt frá því, að ríkissjóður hafi getað haldið úti þessum nauðsynlegu gæzlutækjum. Það hefir orðið að draga úr eftirlitinu til stórra muna og til stórskaða fyrir landhelgisgæzluna, og þegar svo er ástatt, að ekki er hægt að halda uppi nauðsynlegri landhelgisgæzlu, þá er fyrir mínum sjónum erfitt að bæta við kostnaðinn og á þann hátt, að draga enn meir úr þeirri gæzlu, sem ekki fullnægir lægstu og nauðsynlegustu kröfum.

Um það, að hafa einn eða fleiri kafara á skipum, sem hafa útbúnað til að bjarga strönduðum skipum, þá er það vitanlega oft þægilegt og nauðsynlegt. En ég hygg nóg að hafa einn kafara, og jafnvel einn kafara fyrir bæði skipin, því að það hefir verið svo undanfarið, að aðeins annað skipið hefir verið á floti í einu, og ennfremur eru nú köfunaráhöld víða um land og sömuleiðis kafarar, sem hægt er að ná til með ekki miklum kostnaði. Ég tel því, að nægi alveg að hafa einn kafara, því að menn verða að reyna að spara í þessum efnum sem öðrum, svo að hægt sé að vinna hið allra nauðsynlegasta fyrir þjóðfélagið. Hitt væri æskilegt, að geta borgað góðum mönnum hátt kaup, sem ég efast ekki um, að þessir menn séu, og veit af viðkynningu við marga þeirra, að þeir eru, en það eru svo margir aðrir, sem vinna fyrir þjóðfélagið og bera mjög lítið úr býtum, og ennþá minna en þessir menn, að það væri mikið misrétti að samþ. þessar launahækkanir.