19.10.1934
Efri deild: 16. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1855 í B-deild Alþingistíðinda. (2733)

75. mál, varðskip landsins og skipverja á þeim

Magnús Guðmundsson:

Ég skal ekki draga dul á það, að mér finnst, að launakjör sumra yfirmanna varðskipanna hefi verið svo slæm, að fyllilega sé þörf á að bæta þau að nokkru. Ég man eftir því, að t. d. laun 3. stýrimanns hafa oft verið lægri en laun almennra háseta, vegna þess að hásetar fá kaup fyrir eftirvinnu, en stýrimenn ekki. Það hafa líka komið kvartanir frá skipherrunum yfir því, hvað laun þeirra væru lág, og er ekki hægt að neita því, að þau laun, sem ákveðin hafa verið fyrir skipherra á varðskipum ríkisins, eru miklu lægri en laun skipstjóra á strandferðaskipum ríkisins. En ég ætla, að meiri hl. hv. n. muni eftir, hvernig á því stendur, að svona var farið að 1927. Þá voru, þvert ofan í gildandi l., færð niður laun þessara manna, og því hefir verið haldið síðan. Mér finnst því ekki nema réttlætisverk gagnvart þessum skipstjórum, að færa laun þeirra eitthvað í áttina við þau laun, sem borguð eru öðrum skipstjórum, sem ekki er hægt að álíta, að hafi vandasamari störf. Það er ekki hægt að neita því, að af þessu hljótast allmikil útgjöld fyrir ríkissjóð, því að það sjá allir. En ég vil leiða athygli að því, að það lítur út fyrir eftir fjárlagafrv. stj., að hún ætlist ekki til, að þeir, sem hafa 4000 kr. laun eða þar yfir, fái dýrtíðaruppbót, nema þess sé þörf, til jöfnunar við þá, sem eru lægri, en hafa dýrtíðaruppbót. Það verður náttúrlega að athuga, að ekki komist hér beint ósamræmi á gagnvart mönnum, sem hafa lagt meiri kostnað í nám en skipstjórar varðskipanna.

Ég tek eftir því, að í frv. er fellt burt, að skipverjar séu sýslunarmenn ríkisins, og er það þó í gildandi l. Þessu var alls ekki meiningin að breyta með því frv., sem flutt var í fyrra um þetta efni. Mér skilst, að þetta eigi svo að bæta upp með ákvæði 5 gr., um að skipverjar megi ekki taka þátt í kaupdeilum, en nú vil ég spyrja hv. frsm., hvað hann telji, að taka þátt í kaupdeilu. Telur hann það, að segja upp og fara, þegar samningar eru útrunnir, að taka þátt í kaupdeilu? Ég spyr að þessu af því, að frá byrjun hefir það verið tilgangurinn að sjá svo um, að þó að kaupdeila rísi upp út af kaupi sjómanna, geti ekki farið svo, að skipverjar á varðskipunum geri þau óstarfhæf, og þannig fari, að okkar eiginn fiskifloti og varðskip séu bundin hér við hafnargarðana, en útlendir togarar leiki lausum hala í landhelgi. Ég vil skjóta því til hv. flm. þessa frv., hvort þeir geti ekki fallizt á að nema burt ákvæðið úr 3. gr., um að það skuli vera sjútvn. þingsins, sem geri út um það, hvort stýrimaður hafi verið gerður löglega rækur. Mér sýnist það alveg óhæfa að taka þennan rétt — réttinn til að leita úrskurðar dómstólanna — burtu. Það er ekki hægt að telja, að sjútvn. þingsins geti verið hlutdrægar í þessum málum, því að það mun hér um bil alltaf vera svo, að meiri hl. sjútvn. er skipaður flokksmönnum þess ráðh., sem einmitt hefir framkvæmt brottreksturinn.

Í niðurlagi 6. gr. er talað um laun á skipum þeim, sem nú eru leigð til landhelgisgæzlu, og ákvæði um, að þar skuli samið við hlutaðeigendur. Þetta er ekki nógu skýrt. Hverjir eru þarna hlutaðeigendur? Eru það þeir, sem réðu mennina á bátinn og útveguðu hann? Er meining flm. sú, að þetta verði til þess, að menn séu ekki ráðnir á slík skip fyrir minna kaup en verkalýðstaxta? — Þá vildi ég benda á það ákvæði 7. gr., sem heimilar stj. að útbúa varðskipin með björgunartækjum. Þetta er úrelt heimild nú, þar sem búið er að setja björgunartæki í skipin, og endurnýjun þeirra þarf engrar lagaheimildar við. — Í 9. gr. er ákveðið, að ráðningarsamningur sjómanna falli úr gildi jafnskjótt og l. ganga í gildi. Ég kann illa við að hafa slíkt ákvæði í 1., og tel, að það eigi að fella burt.