20.10.1934
Efri deild: 17. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1857 í B-deild Alþingistíðinda. (2737)

75. mál, varðskip landsins og skipverja á þeim

Frsm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Þar sem umr. um þetta mál lauk í gær, var lítið eftir annað en að svara ýmsum spurningum, sem hv. 1. þm. Skagf. beindi aðallega til okkar flm. Ég skal leyfa mér að svara þessum hv. þm., sem ég nefndi.

Hann talaði fyrst um skipstjórana. Eiginlega var það ekkert annað en það, að þeir hefðu með l. 1927 verið settir á þessi launalög, en ég held, að því hafi verið slegið föstu með lögunum 1928. Ég skal játa það fúslega, að þeim hefir verið gerður nokkur misréttur með því að setja þá skör lægra heldur en aðra skipstjóra, sem sigla hér við land, en það mun hafa byggzt á því, að hér væri um svo trygga stöðu að ræða, sem jafngilti hverju öðru föstu embætti. Með þessu frv. á að breyta þessu og gera skipstjóra varðskipanna jafna öðrum skipstjórum, að undanskilinni strandferðauppbót, sem skipstjórar strandferðaskipanna hafa.

Í öðru lagi spurði hv. 1. þm. Skagf. um, hvað væri átt við með því, að skipverjar mættu ekki taka þátt í kaupdeilum. Í lögum um þetta efni eins og þau eru nú er ákvæði um, að starfsmenn ríkisskipanna megi ekki taka þátt í verkföllum, og það varði ábyrgð að lögum eins og gildir um embættismenn ríkisins. Ég skal taka það fram, að ég hefi alltaf litið svo á, að þeir, sem á varðskipunum ynnu, gætu alls ekki tekið þátt í kaupdeilum, sem kynnu að rísa á milli starfsfólks verzlunarskipanna og atvinnurekenda, auk þess sem það á ekki að þurfa, því að þeirra laun eru ákveðin af þeirra stéttarfélagi með samningi, sem yrði þá gerður við viðkomandi atvinnurekanda.

Ég er hv. þm. sammála um það, og hefi alltaf verið það, að það sé óheppilegt, að þessir menn þyrftu að standa í kaupdeilum, meðfram vegna þess, ef slíkt skyldi henda, að deila yrði við eigendur fiskiflotans og verzlunarflotans samtímis, að þá yrði þó að halda varðskipunum í gangi til þess að verja landhelgina fyrir útlendingum. Ég hefi alltaf verði fylgjandi því, að þessir menn þyrftu ekki að taka þátt í kaupdeilum, sem stéttarbræður þeirra á öðrum skipum ef til vili þyrftu að gera. Þessari skoðun hefi ég alltaf fylgt fram síðan á Alþingi 1928, og alltaf fylgt henni innan þess stéttarfélags, sem ég er starfandi við. Ég ætlast einnig til, að starfsmenn varðskipanna verði ekki heldur settir til þess að skipta sér af kaupdeilum hjá öðrum sem lögregla, því að ég tel það óheppilegt, að þeir séu settir til þess að vera sem nokkurskonar her, til þess að berja á stéttarbræðum sínum, sem kynnu að standa í kaupdeilu. Þess vegna meina ég með þessu ákvæði frv., að þeir taki ekki þátt í neinskonar kaupdeilum.

Þá talaði hv. 1. þm. Skagf. um ákvæði frv. um áfrýjunarrétt skipstjóra til sjútvn. Þetta ákvæði stóð í l. frá því 1928, og ég tók það upp úr lögunum eins og það var, og frá mínu sjónarmiði sé ég ekkert athugavert við það. En hitt er annað mál, hvort þeir eigi að hafa beinan aðgang til dómstólanna. Ég hygg þó, ef ágreiningur yrði á milli dómsmrh. og skipstjóra varðskipanna, að þau atriði gætu legið fyrir, að skipstjórarnir gætu skotið sínu máli til dómstóla landsins. Ég hygg, að þetta ákvæði sé sett með það fyrir augum, að enginn ráðh. geti beitt rangindum gagnvart skipstjóra á varðskipi, án þess að það væru aðrir dómbærir menn sem um það fjölluðu. En hv. 1. þm. Skagf. gerði ráð fyrir því, að sjútvn. á hverjum tíma yrðu svo flokksbundnar viðkomandi ráðh., að það yrði hæpinn dómur, sem þær legðu á málið. Ég vil ekki fallast á það. Þó að ég sé fylgismaður núv. stj., mundi ég ekki þola af neinum ráðh., að hann beitti skipstjóra rangindum. Ég sem einn af sjútvnm. mundi alls ekki binda það við flokksfylgi, þó að ég væri í dómarasæti, og svo held ég, að fleiri myndu vera.

Þá spurði hv. þm. um, hvað væri átt við með „samningum við hlutaðeigendur“ í 6. gr. frv. Ég skal fúslega upplýsa hv. þm. um það. Það er átt við þá, sem sumpart leigja skipin og sumpart vinna á skipunum. Ég tel ekki rétt, að á skipunum vinni menn með svo óheyrilega lágum launum, að slíks finnist varla dæmi við annan atvinnurekstur. Það má kannske segja, að ríkið eigi ekki sök á því, hvernig leigumála þeir gera við einhvern ákveðinn bátaeiganda. En hitt veit ég, að sjómannastéttin vill eiga íhlutunarrétt um það, hvað mönnum er greitt í kaup fyrir sitt starf. Þetta getur þýtt eitthvað hærri leigumála, en það er atriði, sem ég set ekki fyrir mig í þessu sambandi.

Þá minntist hv. þm. síðast á skipunarbréfin. Ég bar það undir lögfróðan mann, hvort skipunarbréfin gætu staðið eftir að lögunum væri breytt eins og hér er farið fram á. Skipunarbréfin eru nú við 6 stýrimenn og 2 skipstjóra. Leit sá maður svo á, að tryggara væri að ákveða um þetta í l., en ég skal ekki dæma um, hvort það er nauðsynlegt, en hér var farið eftir ráði lögfróðra manna. En hinsvegar skal ég játa það fúslega, að ég býst ekki við, að viðkomandi menn, sem hafa þessi skipunarbréf, geri ráð fyrir, að þau hafi nokkurt gildi í sér fólgið fyrir þá, ef svo tekst til sem frv. fer fram á, að laun þeirra verði hækkuð og þeir komist undir þau ákvæði, sem felast í kaupsamningi þeirra, er stéttarfélag gerir fyrir þeirra hönd, en það er yfirleitt ákveðinn í þeim samningum 3 mánaða uppsagnarfrestur.

Ég verð að segja, að ég þakka hv. 1. þm. Skagf. fyrir, að hann tók þessu frv. með velvilja og benti á ýmislegt, sem vert er að athuga í þessu efni, og er ekki ástæða til annars en þakka honum fyrir undirtektir hans. En aftur á móti andaði lítilsháttar kaldara frá hv. þm. N.-Ísf., þó að ég hinsvegar búist ekki við, að því fylgi ýkjamikil alvara, því að eftir því sem mér skildist, þá vill hann ekki bregða fæti fyrir frv.

Hér er í raun og veru um atriði að ræða, sem ég hygg, að meiri hl. þm. sé sammála um, að breyta til um kjör þessara manna, jafnvel þó að það hafi í för með sér nokkra hækkun á útgjöldum ríkissjóðs; og á þann hátt að viðurkenna starf þessara manna, sem í mörgum tilfellum er vandasamt og vanþakklátt, en ekki að sama skapi skemmtilegt starf. Ég hefi að vísu aldrei verið við landhelgisgæzlu, en ég hefi verið bæði farmaður og fiskimaður, og ég veit, að þetta starf er ekkert uppörvandi og gerir menn að ýmsu leyti leiðari á sjónum en nokkurt annað starf, sem menn fást við.