04.12.1934
Neðri deild: 50. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2019 í B-deild Alþingistíðinda. (2740)

104. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Hannes Jónsson:

Ég held, að betra hefði verið að athuga þetta mál allt frá upphafi, ef nauðsynlegt þykir að koma því svo fyrir, að verksmiðjustj. sé jafnan í pólitísku samræmi við ríkisstj. En úr því sem komið er held ég, að réttast sé að láta sitja við þá tryggingu, sem fyrir þessu er í frv. eins og það er nú. Það liggur í hlutarins eðli, að ef nauðsyn er nú fyrir hendi á lagabreyt. til þess að tryggja núv. stj. meiri hl. í verksmiðjustj., þá verður nákvæmlega sama nauðsyn fyrir hendi, ef núv. ríkisstj. skyldi einhverntíma fara frá völdum. Menn verða að gæta þess, að svona aðfarir hafa þær sjálfsögðu afleiðingar, að aðrir gera slíkt hið sama, þegar þeir fá aðstöðu til. Ég fyrir mitt leyti legg til, að látið sé sitja við það, sem komið er. Ég tel það ábyrgðarhluta að stofna til pólitísks ófriðar um jafnmikilvægar stofnanir fyrir sjávarútveginn eins og þær, sem hér er um að ræða.