04.12.1934
Neðri deild: 50. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2020 í B-deild Alþingistíðinda. (2743)

104. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Frsm. minni hl. (Sigurður Kristjánsson):

Ég skal víkja nokkrum orðum að brtt. þeim, sem hér liggja fyrir. Það er rétt hjá hv. þm. Ísaf., að fyrri brtt. hans á þskj. 618, um greiðslu til síldareigenda, er í samræmi við till. minni hl., og tel ég hana til bóta. Hún gerir síldareigendum hægara fyrir að láta vinna úr síldinni, en með hinni minni útborgun skapaðist það ástand, að eigendur urðu að selja verksmiðjunni aflann og töpuðu þannig ágóðavoninni af að láta vinna úr síldinni. Um brtt. nr. 2, sem er í sambandi við nr. 3, um að verksmiðjustj. sé kosin á þessu þingi, verð ég að segja það, að mér þykir þar kenna nokkuð mikils bráðræðis, að láta mennina ekki enda út kjörtíma sinn. Það er ekki gott að gera ráð fyrir kosningu verksmiðjustj. samkv. l., sem ekki eru komin í gildi. En það er alls ekki stórt atriði.

Þá kem ég að brtt. hv. þm. V.-Ísf. um að form. sá, sem skipaður verður af ríkisstj. samkv. frv., skuli skipaður til jafnlangs tíma og hinir stjórnarmeðlimirnir, sem þingið á að kjósa.

Það ákvæði, að form. sé aðeins kosinn til eins árs í senn, stafar af því, að upphaflega var ætlazt til þess í frv., að ríkisstj. skipaði alla mennina. Það eru einskonar sárabætur. Nú er það svo, að ríkisstj. vill gjarnan hafa form. slíkrar stofnunar sem næst sér, og það er ekki nema sanngjarnt, enda hafa núv. stj.flokkar gert mikið að því að ráða sem flesta af sínum mönnum til fyrirtækjanna. Okkur fannst það ekki svo óeðlilegt, að ríkisstj. vildi hafa sem beinastan og greiðastan aðgang að þeim manni, sem skipaður verður stj.form., og þess vegna var þetta ákvæði sett í frv. og þessi breyt. borin fram af minni hl. sjútvn. Mér finnst þetta ekki vera stórvægilegt atriði, en þó er það að sjálfsögðu eðlilegt.

Hv. þm. V.-Ísf. sagði, að það fengist engin trygging með þessu fyrir því, að meiri hl. verksmiðjustj. væri alltaf í samræmi við meiri hl. Alþ. Ég álít, að svo muni oftast og jafnvel alltaf verða. Það má gera ráð fyrir, að stj. ráði oddamanninn, og þannig fæst vitanlega samræmi í þetta. Það gæti að vísu komið fyrir, eins og hv. þm. V.-Húnv. tók fram, að ósamræmi gæti orðið frá þeim tíma, sem stjórnarskipti yrðu og til þess tíma, er kjörtímabil form. væri útrunnið. En það yrði ekki langur tími. Þetta er því ekki veigamikið atriði, en ég tel þó, að það fari betur eins og það er í frv. mínu. Þótt ég tali um þessar brtt. og þær brtt., sem þar eru fólgnar, breytir það ekkert þeirri skoðun minni, að það beri að fella þetta frv. Sú skoðun mín, sem fram kom við 2. umr. málsins, hefir ekki breytzt, að það sé óeðlilegt. eins og tekið er fram í 1. gr. frv., að banna útgerðarmönnum að stofna síldarverksmiðjur, nema því aðeins, að leyfi ríkisstj. fáist til. Stefna frv. er sú, að þessi atvinnurekstur sé settur undir vald og stj. ríkisins. Þessi stefna brýtur algerlega í bága við þann upphaflega tilgang, sem l. um síldarverksmiðjur höfðu, sökum þess, að þá var samþ. af Alþ. að leggja fé í stofnun síldarverksmiðja, til þess að hjálpa útgerðarmönnum. Það á að leggja bönd á síldarútgerðarmenn í sjálfsbjargarviðleitni þeirra í þeim eina tilgangi, að vernda þessa stofnun, sem ríkið hefir sett á fót sem hagsmunafyrirtæki á kostnað útgerðarmanna. Það er ekki hægt að hafa meiri endaskipti á hlutunum en þetta. Þess vegna legg ég eindregið á móti því, að frv. þetta verði samþ.