23.10.1934
Efri deild: 19. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1861 í B-deild Alþingistíðinda. (2747)

75. mál, varðskip landsins og skipverja á þeim

Frsm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Eins og ég sagði frá í framsögu þessa máls, þá höfum við ekki nú reiknað sérstaklega út, hvaða launahækkun felst í þessu frv., en vitnuðum í útreikning, sem lá fyrir frá síðasta þingi um þetta efni. Nú eru skipstjórarnir taldir með í frv., og leiðir af því dálitla hækkun. Að öðru leyti er ekki um hækkun að ræða, nema ef vera skal hjá brytum, og matsveinum að einhverju leyti; sumir þeirra hafa þegar sömu laun og tíðkast á öðrum skipum, eftir því hvað þeir hafa starfað lengi. Um hækkun hjá öðrum undirmönnum er ekki að ræða, því þeir búa nú við þau kjör, sem í gildi eru annarsstaðar.

Hv. 1. þm. Skagf. drap á eitthvert misræmi í launagreiðslum, sem leitt geti af þessu frv. Hann getur ekki átt við misræmi milli skipverja innbyrðis, því þar kemur dýrtíðaruppbót ekki til greina. Það er þá misræmi milli þeirra og embættismanna ríkisins annara, sem hann á við. En þó það standi í einhverju frv., að fella skuli niður dýrtíðaruppbót, þá er engin vissa fyrir, að það nái samþ., og ekki hægt að láta það hafa áhrif á afgreiðslu þessa máls.

En ég skal leggja mitt til sem nm., að gerður verði samanburður á núgildandi launakjörum á varðskipunum, og þeim kjörum, sem verða mundu samkv. þessu frv. (MG: Ég geri mig ánægðan með þetta svar hv. þm.).